Alþjóðleg Kvikmyndahátíð í Reykjavík hlaut á miðvikudag
menningarverðlaun DV í flokki kvikmynda. Í DV segir meðal annars:
“Hátíðin hefur fest sig í sessi á síðustu fimm árum sem meiriháttar
bíóviðburður. Hátíðin setur mikinn svip á borgarbraginn á meðan hún
stendur yfir og gefur bíóáhugafólki greiðan aðgang að alls kyns myndum
úr öllum heimshornum. Í fyrra lögðu 20.000 manns leið sína á hátíðina
og hefur verið mikill stígandi í aðsókninni. Fyrsta árið voru sýndar 20
kvikmyndir á hátíðinni og sem dæmi um vöxt hennar voru sýndar nærri 100
kvikmyndir í fyrra. Verðaunin eru mikil viðurkenning og staðfestir enn
fremur RIFF er glæsileg hátíð sem vekur verðskuldaða athugli út fyrir
landsteinana”
Aðstandendur Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðarinnar þakka kærlega fyrir Stuðninginn og viðurkenninguna.
Vert er að minna á að Fjalakötturinn er enn í fullum gangi og dagskráin fyrir mánudaginn 10.mars er eftirfarandi:
Manudagur 10. mars
17.00 Leinwandfieber/Riddarar hvíta tjaldsins
20.00 Suden vuosi/Ár úlfsins
22.00 Requiem/Sálumessa
Suden vuosi (Ár úlfsins) er mynd úr smiðju Ollis
Sarelas, eins verðlaunaðasta samtímaleikstjóra Finna. Í myndinni segir
frá sambandi Mikkos, miðaldra kennara, og Sariar, sem er gáfuð,
bráðfalleg háskólastúlka en þjáist af svefnsýki. Sari berst við
sjúkdóminn og einangrar sig frá umheiminum en Mikko á fullt í fangi að
berjast við flóknar tilfinningar sínar. Bæði eiga þau erfitt með að
njóta þess sem lífið hefur að bjóða en þrátt fyrir hlédrægni sína ná
þau að kynnast og með þeim hefst dramatískt ástarsamband þar sem boð og
bönn eru látin lönd og leið.
Leinwandfieber (Riddarar hvíta tjaldsins) er
heimildamynd um fjóra kvikmyndagerðarmenn sem hafa misjafnar skoðanir á
pólitík og koma frá ólíkum menningarheimum. Öll eiga þau þó eitt
sameiginlegt: Óstöðvandi ást á kvikmyndum. Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn
fást þau við sömu úrlausnarefni í kvikmyndagerðinni. Kvikmyndarformið
lifir án landamæra og snertir fólk í öllum hornum heimsins. Leikstjóri
er Uli Gaulke.
Requiem (Sálumessa) eftir Hans-Christian Schmid
byggist á raunverulegum atburðum þegar ung katólsk kona lét lífið í
Þýskalandi 1976 eftir að reynt var að særa úr henni illa anda.
Hollywood hefur þegar sent frá sér útgáfu af þessum atburðum með
hryllingsmyndinni The Exorcism of Emily Rose (2005) en hér er nálgunin
af allt öðrum toga. Requiem hefur víða verið tilnefnd til verðlauna og
hlaut meðal annars FIPRESCI verðlaunin í Berlín 2006.
Sýningar fara fram í Tjarnarbíói. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér.

