Mér skilst að aðstandendur Marvel hafi skoðað yfir nýjustu tölurnar á Iron Man (sem að græddi 100.8 milljónir á aðeins einni helgi) og orðið verulega spenntir, því nú hafa þeir ákveðið að gera hina langþráðu Avengers bíómynd.
Fyrir þá sem ekki vita, þá er Avengers nokkurs konar samblanda af mörgum helstu hetjum Marvel-heimsins þar sem að þær standa saman sem teymi og kallast þar af leiðandi The Avengers. Liðið samanstendur af karakterum eins og Iron Man, Hulk, Captain America, Ant-Man og Thor.
En ekki bara er búið að ákveða Avengers kvikmyndina, heldur verður hún aðeins rúsínan í pylsuendanum fyrir það sem er að fara að koma á næstunni.
Næstu Marvel-bíómyndir verða fyrirfram áætlaðar til að byggja upp þennan Avengers heim og byrjaði það allt með Iron Man (þið getið fundið sterka tilvísun í Avengers ef þið skoðið lokasenuna, sem er eftir kredit-listann) og heldur síðan áfram með The Incredible Hulk (sem kemur út í sumar og mun eflaust innihalda tilvísun í sama heim) o.s.frv.
Til að fara aðeins nánar út í þetta, þá er Marvel strax byrjað að skipuleggja næstu Iron Man bíómynd, og búið er að negla dagsetningu, sem að verður 30. apríl 2010.
Annars er fyrsta myndin í nýrri Hulk seríu á leiðinni, eins og tekið er fram að ofan, og einnig er ákveðið að gefa út kvikmyndina um Thor í júní 2010.
Edgar Wright er að penna myndina Ant-Man og Captain America er áætluð að koma árið 2011 einnig.
Þar hafið þið það. Nóg að gerast. Verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út.

