Hin sígilda skáldsaga Ernest Hemingway, For Whom The Bell Tolls, er enn á ný á leiðinni upp á hvíta tjaldið. Einn heitasti handritshöfundurinn í Hollywood í dag, David Benioff, hefur verið fenginn af Warner Bros. til þess að skrifa handrit myndarinnar. Hann skrifaði handritið að væntanlegu stórmyndinni Troy, og voru Warner Bros. svo ánægðir með það handrit að Benioff fær borgað uppundir eina milljón dollara fyrir handritið að þessari mynd. Síðast var gerð mynd eftir sögunni árið 1943, og voru þá Gary Cooper og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum. Myndin gerist í spænsku borgarastyrjöldinni og fjallar um hermann einn sem verður ástfanginn af ungri stúlku rétt áður en hann þarf að leggja af stað í sjálfsmorðsferð til þess að sprengja upp brú eina.

