Hin heilaga þrenning, Ben Affleck, Uma Thurman og leikstjórinn John Woo munu sameinast um að færa okkur vísindaskáldskapstryllinn Paycheck. Myndin, sem byggð er á sögu eftir hinn goðsagnakennda rithöfund Philip K. Dick, fjallar um rafvirkja einn sem kemst að því að fyrirtækið sem hann vann hjá, er búið að þurrka út minni hans yfir þann tíma sem hann vann hjá því. Hann ákveður því að rannsaka málið, og reyna að komast að því hvað gerðist á þessum tveimur árum sem eru horfin úr minni hans. Tökur á myndinni eiga að hefjast í næsta mánuði, og stefnt er að því að frumsýna í desember.

