Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto, sem haldin er árlega, hefst í september. Aðstandendur hátíðarinnar gera sér þó grein fyrir því að september kemur fyrr en varir og hafa nú þegar sagt frá nokkrum af þeim myndum sem sýndar verða í haust.

Á meðal þeirra mynda sem sagt var frá er heimsfrumsýning á fyrstu leikstjóratilraun leikkonunnar Helen Hunt, Then She Found Me. Hún er byggð á skáldsögu eftir Elinor Lipman og segir frá kennslukonu (Hunt) sem var gefin til ættleiðingar við fæðingu. Plön hennar um að eignast loksins barn fara út um þúfur þegar eiginmaður hennar (Matthew Broderick) fer frá henni. Líf hennar verður svo flóknara og flóknara eftir því sem líður á myndina.

Það má búast við því að myndir hátíðarinnar verði afar fjölbreyttar, t.d. verður þar nýjasta mynd Coen bræðra og myndin The Girl in the Park sem kemur frá Pulitzer verðlaunahafanum David Auburn og skartar Sigourney Weaver og Kate Bosworth í aðalhlutverkum.