Snillingurinn/leikstjórinn Darren Aronofsky hefur lengi stefnt að því að gera mikilfenglega vísindaskáldsögumynd með Brad Pitt. Vinnuheiti myndarinnar var alltaf The Last Man, en nú er reyndar búið að breyta heiti myndarinnar yfir í The Fountain. Lítið er vitað um söguþráð myndarinnar, annað en að í henni verður Brad Pitt (sem búinn er að safna mikilfenglegu skeggi fyrir myndina) á leiðinni með geimskipi til þess að hitta Guð. Inn í það fléttast ástarsaga á milli hans og Cate Blanchett, ásamt fleiri persónum sem allar eru staddar á mismunandi tímaskeiðum. Myndin gerist á um það bil þúsund ára tímabili, og verður greinilega epískari en andskotinn ef af henni verður. Hún á að brjóta nýtt blað í kvikmyndasögunni myndrænt séð, og verður gerð fyrir rúmlega 70 milljónir dollara. Eins og allir geta séð, þá er hér um áhættuverkefni að ræða, og því eru Warner Bros. búnir að vera mjög hræddir við að fjárfesta í myndinni, sérstaklega þar sem engir möguleikar eru á að gera framhald/framhöld. Þeir voru því búnir að fá Village Roadshow framleiðslufyrirtækið til þess að með-fjármagna myndina, en Village hættu síðan við. Í staðinn eru komnir New Regency framleiðslufyrirtækið, og er nú stefnt að því að tökur á myndinni geti hafist í haust og frumsýna sumarið 2003.

