Matt Damon, leikarinn geðþekki, framleiðir kvikmyndina Monster sem þrátt fyrir að heita sama nafni og hin hálf-íslenska Hal Hartley mynd sem prýðir kvikmyndahús borgarinnar nú um stundir, fjallar um allt annað viðfangsefni. Hún fjallar um Aileen Wuornos, fyrsta kvenfjöldamorðingja Bandaríkjanna sem dæmd var til dauða fyrir glæpi sína í október síðastliðnum. Hún verður leikin af Charlize Theron, og Christina Ricci mun leika lesbíu eina sem varð ástfangin af henni. Þó Wuornos væri ekki lesbísk sjálf, þá tók hún hana undir sinn verndarvæng og hóf að selja sig til þess að geta haldið þeim tveimur uppi. Viðskiptavinir hennar urðu síðan á endanum fórnarlömbin, og hún drap að minnsta kosti 7 manns á 9 mánaða tímabili í Flórídafylki.

