‘Beetlejuice Beetlejuice’ hrópað um allan heim

Svarta kómedían Beetlejuice Beetlejuice fór töluvert fram úr væntingum í aðsókn víða um heim og þá ekki síst vestanhafs. Þar halaði framhaldsmyndin inn um 110 milljónum bandaríkjadollara og er þar með þriðja stærstu opnun ársins (á eftir Deadpool & Wolverine og Inside Out 2) og stærsta helgaropnun kvikmyndar úr smiðju leikstjórans Tim Burton.

Áhorfendur og gagnrýnendur virðast í heildina og að megninu til hæstánægðir með endurkomu Djússins. 

Beetlejuice Beetlejuice skaust einnig í efsta sætið á Íslandi og hafa um 2.700 manns séð myndina frá frumsýningu.

Fyrsta myndin kom 1988

Upprunalega kvikmyndin kom út árið 1988 við gífurlegar vinsældir en Beetlejuice Beetlejuice gerist í nútímanum. Eftir óvæntan fjölskylduharmleik snúa þrjár kynslóðir Deetz fjölskyldunnar aftur heim til Winton River. Líf Lydiu (Winona Ryder), sem enn er ásótt af Betelgeuse (Michael Keaton), fer allt á hvolft þegar uppreisnargjörn unglingsdóttirin Astrid (Jenna Ortega) finnur dularfullt módel af bænum á háaloftinu og gáttin inn í handanheima opnast fyrir slysni. Nú er aðeins tímaspursmál hvenær nafn Betelgeuse er nefnt þrisvar í röð og þá mun hinn stríðni púki snúa aftur.

Ljósvíkingar koma sterkir inn

Ljósvíkingar veittu Michael Keaton og félögum ágæta samkeppni þessa helgi og opnaði kvikmyndin í öðru sæti. Í kringum 1.300 manns sáu hana en með forsýningum er hún komin hátt í 2.300 gesti.

Myndin fjall­ar um æsku­vin­ina Hjalta og Björn sem reka fisk­veit­ingastað í heima­bæ sín­um yfir sum­ar­tím­ann. Þegar þeir fá óvænt tæki­færi til að hafa veit­ingastaðinn op­inn árið um kring til­kynn­ir Björn að hún sé trans kona og muni fram­veg­is heita Birna. Þess­ar breyt­ing­ar reyna á vinátt­una og þurfa þau bæði að horf­ast í augu við lífið á nýj­an hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skipt­ir.

Með aðalhlutverk fara Björn Jör­und­ur Friðbjörns­son, Arna Magnea Danks, Sól­veig Arn­ars­dótt­ir og Ólafía Hrönn Jóns­dótt­ir. Í öðrum helstu hlutverkum eru Helgi Björns­son, Hjálm­ar Örn Jó­hanns­son, Vig­dís Hafliðadótt­ir, Sara Dögg Ásgeirs­dótt­ir, Pálmi Gests­son og Gunn­ar Jóns­son.

Aðsóknarlista helgarinnar má finna hér að neðan.

Stikk: