Morgunblaðið greinir frá því í morgun að bíóhús hafa hækkað verð sitt eða eru að íhuga hækkun. Ástæðan ku vera 15-18% launahækkun starfsfólks.
Sena sem rekur m.a. Smárabíó, Regnbogann, Borgarbíó Akureyri og Háskólabíó hefur hækkað miðaverð uppí 1.000 kr., og 950 kr. í netsölu (miði.is). Svo skemmtilega vill til að það er einmitt hægt að kaupa miða á netinu hér á kvikmyndir.is, en litlir hnappar eru fyrir neðan myndirnar í flipanum „Í bíó“.
Sambíóin hafa einnig hækkað miðaverð, nú kostar 550 kr. fyrir yngstu börnin og 650 kr. fyrir þau eldri, en það má búast fastlega við hækkun fullorðinsmiða í vikunni.
Græna Ljósið hefur ekki tilkynnt hækkun á miðaverði, en ef ég man rétt þá kostar 1.100 kr. á þeirra myndir (endilega leiðréttið mig). Íslenskar myndir kosta enn 1.200 kr.
Við minnum á að það kostar 6,88 dollara í bíó vestanhafs, en m.v. gengið í morgun kl.08:47 þá eru það 511 kr. íslenskar. Heimildir fyrir þessari fullyrðingu má finna hér. Þess bera að geta að þetta er meðalverð í bíó í Bandaríkjunum, þ.e. öryrkjaafslættir og verð fyrir yngri en ákveðinn aldur er inní þessu. Ekki er hægt að finna sambærilegt meðalverð hér heima.
Svo má líka líta á að samkvæmt Wikipediu þá eru aðeins 15 ár síðan það kostaði aðeins 500 krónur í bíó á Íslandi.

