Myndin Zibahkhana hefur komið mörgum á óvart, en það er fyrsta nútímalega hryllingsmyndin sem hefur komið frá Pakistan. Hún blandar blóði og innyflum saman við kómískar aðstæður líkt og vinsælt þykir í dag. Auk þess er að finna í myndinni vott af samfélagsrýni á nútímasamfélagið í Pakistan. Hún fjallar um unglinga sem skrópa í skólanum til að fara á tónleika. Það vill þó ekki betur til en svo að þau villast af leið og enda í fanginu á blóðþyrstri mannætufjölskyldu.
Kostnaðurinn við myndina var afar lítill, enda úr litlu að moða við gerð hennar, en henni hefur verið tekið vel á kvikmyndahátíðum hér og þar í Evrópu. Leikstjórinn Omar Khan segir myndina brjóta niður allar hefðbundnar venjur í pakistanskri kvikmyndagerð og vonar að þetta verði til þess að hvetja leikstjóra frá heimalandinu til að taka fleiri áhættur. Omar lærði kvikmyndagerð í Bandaríkjunum en fór út í kennarastarf þegar hann snéri aftur til heimalandsins og setti svo á fót keðju af ísbúðum áður en hann hellti sér aftur út í kvikmyndagerð.

