Deadline kvikmyndavefurinn greinir frá því að Benjamin Bratt hafi verið ráðinn til að leika á móti Breaking Bad stjörnunni Bryan Cranston og Inglorious Basterds leikkonunni Diane Kruger í The Infiltrator, eða Flugumanninum, en það er spennutryllir sem byggir á raunverulegum atburðum, í leikstjórn Brad Furman ( The Lincoln Lawyer ).
Tökur hefjast bráðlega.
Myndin er byggð á sjálfsævisögu Robert Mazur og handrit skrifar Ellen Brown Furman. Myndin fjallar um útsendara tollayfirvalda ( Cranston ) sem fer að starfa á laun við peningaþvætti til að lauma sér inn í hóp bankamannanna í Medellin eiturlyfjahringnum. Bratt leikur Roberto Alcanio, sem var beinn tengiliður starfsmannsins, og var í beinum samskiptum við hátt setta menn í eiturlyfjahringnum, þar á meðal hinn alræmda eiturlyfjabarón Pablo Escobar.
Af Bratt er það annars að frétta að hann er að fara að leika í Ride Along 2 ásamt Ice Cube og Kevin Hart.
The Infiltrator verður frumsýnd 15. janúar, 2016.