Dagur Kári fær viðurkenningu

DAGUR Kári Pétursson er meðal verðlaunahafa á Sundance-kvikmyndahátíðinni sem lauk í Park City í Utah á sunnudaginn. Dagur Kári hlaut sérstök verðlaun á vegum hátíðarinnar og japanska ríkissjónvarpsins, NHK, sem veitt voru í ellefta sinn í ár.

Verðlaunin eru ætluð fjórum ungum leikstjórum, hverjum úr sínu heimshorninu; þ.e. Bandaríkjunum, Japan, Rómönsku Ameríku og Evrópu. Þeim fylgir styrkur sem er ætlað að létta undir með vinningshöfunum við gerð næstu myndar og var það fyrir handrit að nýjustu mynd Dags Kára, The Good Heart, sem honum hlotnaðist heiðurinn. Um er að ræða tæplega 700.000 króna verðlaunafé, en í ofanálag tryggir NHK sér forkaupsrétt að umræddum myndum fyrir sjö milljónir króna. Þar að auki er hverjum leikstjóra heitið stuðningi frá Sundance-stofnuninni í gegnum vinnsluferli myndarinnar.

Heimildir fengnar af www.mbl.is