Þrátt fyrir að Harry Potter ævintýrinu sé lokið virðist ætla að vera nóg að gera hjá Emmu Watson, hinni yndisfríðu leikkonu sem mun ávallt eiga hlut í hjarta allra Harry Potter aðdáenda sem nornin Hermione Granger. Nú þegar hefur komið út ein mynd sem Watson lék í, My Week With Marilyn og tvær aðrar á leiðinni; The Perks of Being a Wallflower sem er áætluð seinna á árinu og Your Voice in My Head sem er áætluð árið 2013.
Og eins og það sé ekki nóg fyrir þessa 21 árs gamla leikkonu að þá er verið að bendla hana við nýja útgáfu af Beauty and the Beast sem Guillermo Del Toro mun framleiða og leikstýra. Del Toro tjáði ósk sína á síðasta ári um að vilja fá Watson í hlutverk Fríðu og svo virðist sem hann fái ósk sína uppfyllta, en samkvæmt heimildum eru samningsviðræður við Watson á lokastigi.
Emma mun þannig sýna okkur sem skeptísk eru á að hún sé nokkuð annað en norn að hún ætli sér ekki að festast í því hlutverki og skapa sitt eigið nafn – og það fljótt.