Englar Dauðans á hvíta tjaldið?

Á fréttavefnum vísir.is má lesa um það að mikill áhugi er fyrir því að koma nýjustu bók Þráins Bertelssonar, Englar Dauðans, á hvíta tjaldið. Englar Dauðans hefur heldur betur slegið í gegn í jólainnkaupum í ár, en bókin er hluti af þríleik sem hófst með útgáfu bókarinnar Dauðans óvissi tími, síðan kom Valkyrjur og loks Englar Dauðans. Í viðtali við vísi.is játar Þráinn að áhugi sé fyrir bókinni frá fleirum en einum aðila. Góðar líkur eru þó á að Truenorth í samstarfi við Vesturport hreppi hrossið að þessu sinni. Hugmyndin er sú að Gísli Örn Garðarsson muni sitja í leikstjórastólnum.

Þráinn segist vera upp með sér með áhugann, en þó nokkuð brugðið þar sem vaninn er að hann sitji hinum megin við borðið. Eins og flestir Íslendingar vita þá hefur Þráinn leikstýrt myndum eins og Dalalíf og Löggulíf og unnið hug og hjörtu þjóðarinnar í þeim myndum, þrátt fyrir lítið fjármagn. Hann segir lítið fjármagn felast í kvikmyndarétt á Íslandi. ,,Ég hef komist því betur af fjárhagslega sem ég hef haft minna af kvikmyndagerð að segja. Þetta snýst ekki fyrst og fremst um peninga í mínum huga.\“, segir Þráinn í viðtali við vísi.is. Hann segist ekki ætla að skipta sér um of af leikstjórahlutverkinu að þessu sinni og ætlar að láta það duga að sjá um handritið að þessu sinni. Guðrún Helgadóttir hefur kennt honum það þegar hann leikstýrði Jóni Oddi og Jóni Bjarna, að gefa leikstjóranum listrænt frelsi til ákvarðana.