Ferð Isku hlaut Gullna Lundann

Ungerska kvikmyndin Ferð Isku eftir leikstjórann Csaba Bollók hlaut aðalverðlaun Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem lauk formlega í gærkvöldi. Formaður dómnefndar, Hal Hartley, afhenti verðlaunin fulltrúa leikstjórans sem gat því miður ekki verið við afhendinguna.

Auk Hartleys sátu í dómnefnd hátíðarinnar Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri og Gréta Ólafsdóttir kvikmyndagerðakona.

Ferð Isku segir frá ungri stúlku, Isku, sem býr við fátækt, betlar mat og skiptir brotajárni fyrir peninga, sem fara beint í að kaupa áfengi ofan í ofbeldisfulla foreldra. Henni er bjargað af götunni og fær umhyggju á tökuheimili fyrir illa haldin börn. En Iska vill ekki yfirgefa heimahúsin, sama hversu slæm þau hafa reynst henni, og hún snýr aftur í blindfullan faðm foreldra sinna. Á tökuheimilinu hefur hún eignast góðan vin og þau láta sig dreyma um að strjúka saman niður að sjó.

Dómnefnd alþjóðlegu gagnrýnendasamtakanna FIPRESCI veitti dönsku kvikmyndinni Listinni að gráta í kór sín verðlaun, en leikstjórinn Peter Schønau Fog fékk einnig verðlaun þjóðkirkjunnar fyrir sömu mynd.

Áhorfendaverðlaun hátíðarinnar hlaut enska kvikmyndin Stjórn eftir leikstjórann Anton Corbijn sem fjallar um ævi tónlistarmannsins Ian Curtis. Hann var söngvari hljómsveitarinnar Joy Division og stytti sér aldur einungis 23 ára að aldri.

Dómnefnd Amnesty International verðlaunaði kvikmyndina El Ejido, lögmál hagnaðarins sem gerir grein fyrir hörmulegum aðbúnaði innflytjenda á Suður-Spáni sem vinna við framleiðslu matvæla.

Fréttin er fengin af www.mbl.is/