Tilnefningar til bandarísku Golden Globe verðlaunanna voru tilkynntar í gær og eins og við sögðum frá í gær, þá er íslenska tónskáldið Jóhann Jóhannsson á meðal þeirra sem tilnefndir voru, en hann er tilnefndur fyrir tónlist sína við myndina The Theory of Everything þar sem rakin er saga eðlisfræðingsins Stephen Hawking og eiginkonu hans Jane.
Rætt er við Jóhann í Morgunblaðinu í morgun og segir hann í samtali við blaðið að um sé að ræða bæði heiður og gleði fyrir sig: „Það er mikill heiður og gleði að vera tilnefndur og fá viðurkenningu á þessari vinnu og þessu samstarfi mínu við leikstjóra myndarinnar, James Marsh. Allir sem komu nálægt myndinni eru stoltir af þessari vinnu og af myndinni þannig að það er rosalega gaman að fá viðurkenningu á því með svona verðlaunatilnefningu,“ segir Jóhann í Morgunblaðinu.
Hann bætir við að það að fá að taka þátt í svo sterku verkefni sé næg verðlaun í raun fyrir sig, og allt annað sé bónus. „Fókusinn í tónlistinni er mjög mikið á tilfinningar, þetta er tilfinningarík mynd án þess að vera tilfinningasöm,“ segir Jóhann og bætir við að myndin sé svolítið um spennuna milli mannsins og vísindamannsins Hawkings. „Hún fjallar meira um manninn en vísindamanninn. En vissulega eru vísindin þarna á bak við, eðlisfræðin og stjarneðlisfræðin, og það eru senur þar sem við reynum að koma til skila þessum undrum og þessari andakt sem menn finna gagnvart alheiminum og sköpunarverkinu.“
Aðrir sem tilnefndir eru í sama flokki eru óskarsverðlaunahafinn Hanz Zimmer fyrir tónlist við kvikmyndina Interstellar, Alexandre Desplat fyrir tónlistina í The Imitation Game, Trent Reznor og Atticus Ross fyrir Gone Girl og Antonio Sanchez fyrir Birdman.