Fréttin sem leiddi til #MeToo

Megan Twohey og Jodi Kantor, blaðamenn The New York Times, eiga í sameiningu heiðurinn af því að ein stærsta frétt aldarinnar kom fyrir sjónir almennings. Þær afhjúpuðu það hvernig þagnarmúr hafði umlukið umfangsmikið kynferðislegt ofbeldi í Hollywood í áratugi.

Um þetta er fjallað í kvikmyndinni She Said sem kemur í bíó núna á föstudaginn.

Blaðamenn að störfum.

5. október 2017 birtu þær frétt um Harvey Weinstein þar sem meira en 80 konur komu fram undir nafni og ásökuðu hann opinberlega um margvíslega kynferðislega áreitni og nauðgun.

Carey Mulligan og Zoe Kazan í hlutverkum sínum.

Weinstein, sem um langt árabil hafði verið valdamesti maðurinn í Hollywood, var í kjölfar þessa rekinn úr starfi og upp úr þessu spratt #MeToo-hreyfingin, sem bandaríska baráttukonan Tarana Burke stóð fyrir í byrjun.

Hlaut Pulitzer verðlaunin

The New York Times hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir almannaþjónustu árið 2018 fyrir þetta framtak Twohey og Kantor. Þær hlutu George Polk-verðlaunin fyrir sinn þátt í málinu og voru útnefndar á lista tímaritsins Time yfir 100 hrifamestu einstaklinga ársins.

She Said er byggð á bók sem Twohey og Kantor skrifuðu um rannsóknina á Weinstein. Bókin heitir She Said: Breaking the Sexual Harassment Story that Helped Ignite a Movement og var útnefnd sem ein af bestu bókum ársins 2019 hjá Washington Post, NPR og New York Public Library, New York Times og tímaritinu Time.

Líkt við All the President’s Men

She Said hefur verið líkt við myndina All the President’s Men sem gerð var eftir bók Woodward og Bernstein, blaðamannanna á Washington Post sem afhjúpuðu Watergate-hneykslið sem leiddi til afsagnar Richards Nixon Bandaríkjaforseta.

Í símanum.

Ljóst er að áhugafólk um samtímasögu og sögu yfirleitt lætur þessa mynd ekki fram hjá sér fara. Watergate-hneykslið hafði mikil áhrif, en mest í Bandaríkjunum. #MeToo hefur áhrif um allan hinn vestræna heim

Fróðleikur

-Brad Pitt er einn framleiðandi myndarinnar. Honum var kunnugt um háttsemi Harvey Weinstein í áratugi áður en hann keypti kvikmyndaréttinn að bókinni.

-Bæði Gwyneth Paltrow, kærasta Pitts á tíunda áratugnum, og Angelina Jolie, fyrrverandi eiginkona hans, höfðu lent í klónum á Weinstein.

-Myndin var kvikmynduð í byggingu The New York Times og mun vera fyrsta kvikmyndin vestan hafs sem skartar raunverulegum skrifstofum og er ekki tekin í myndveri.

Aðalhlutverk: Carey Mulligan, Zoe Kazan, Patricia Clarkson, Andre Braugher og Jennifer Ehle

Handrit: Rebekka Lenkiewicz, byggt á bók eftir Megan Towley og Jodi Kantor

Leikstjórn: Maria Schrader