Jóhanna af Örk fer víða

Hin 62 mínútna kvikmynd leikstjórans Hlyns Pálmasonar, Jóhanna af Örk, hefur nú selst víða um heiminn, þar á meðal til Norður-Ameríku og Bretlands, í kjölfar frumsýningar hennar í San Sebastian fyrr á þessu ári.

Í tilkynnngu frá Still Vivid framleiðslufyrirtækinu segir að sölufyrirtækið New Europe Film Sales hafi tilkynnt um samninga til Spánar (Elastica), Ítalíu (Movies Inspired), Norður-Ameríku (Janus), Bretlands (Curzon), Frakklands (Jour2Fete) og Póllands (New Horizons), sem og afhjúpað alþjóðlega útgáfu af plakati myndar. Plakatið má sjá hér að neðan.

Myndin fylgir þremur systkinum sem smíða riddarafígúruna Jóhönnu sem skotmark fyrir bogfimiæfingar sínar. Í gegnum árstíðirnar fylgjumst við með lífi þeirra er þau bæði byggja upp og rífa niður þetta einstaka sköpunarverk sitt.

Hlynsbörn í aðalhlutverkum

Ída Mekkín, Grímur og Þorgils Hlynsbörn leika börnin þrjú. Þau leika öll líka í Ástin sem eftir er eftir sama leikstjóra og stuttmyndinni Hreiður frá 2022. Þá fór Ída Mekkín einnig með stór hlutverk í kvikmyndunum Hvítur, hvítur dagur og Volaða land sem einnig eru eftir Hlyn.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi á næsta ári.