Bíósumarið er rétt að byrja og nóg framundan, en á föstudaginn næsta verða tvær nýjar myndir sýndar sem fólk (reyndar í sitthvorum markhópnum) hefur beðið með mikilli eftirvæntingu.
Fyrst er það The Forbidden Kingdom, sem er bandarísk ævintýramynd með klassísku bardagaívafi og sameinar hún tvær sitthvorar goðsagnirnar, Jackie Chan og Jet Li.
Myndin hefur fengið fínustu viðtökur vestanhafs og til gamans má geta að þá er það meistarinn sjálfur Yuen Woo-Ping sem að sér um slagsmálaatriðin í myndinni, en þessi maður sá einmitt um slagsmálin í myndum eins og The Matrix, Crouching Tiger Hidden Dragon, Kill Bill og nú seinast Jet Li myndinni Fearless. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem að Jackie Chan og Woo-Ping starfa saman í u.þ.b. 15 ár.
Hin myndin sem beðið er einnig eftir er síðan auðvitað Sex and the City: The Movie. Nú fyrir fólk sem hefur lítinn áhuga á slagsmálum þá ætti þessi mynd að vera ágætis kandídat. Myndin þykir hins vegar höfða betur til þeirra sem að fylgdust eitthvað með þáttunum, en fyrir einmitt aðdáendur seríunnar er þetta víst algjör gimsteinn, enda myndin góður tveir og hálfur tími á lengd.
Annars, þá er um að gera að skella sér í bíó á næstunni, enda sumarið einn besti tíminn til þess. Bíótal fyrir báðar myndirnar mun síðan birtast þegar að líður að frumsýningardeginum.

