Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival tilkynnti í dag um fyrstu sex myndirnar sem sýndar verða á hátíðinni í febrúar 2016, og tvo gesti sem sækja hátíðina heim.
Annar þessara gesta verður tónskáldið Jóhann Jóhannsson, sem nýverið var tilnefndur til Grammyverðlauna fyrir tónlist sína í Theory of Everything (2015), en hann mun fylgja eftir framúrstefnulegri stuttmynd sinni End of Summer (2014) á hátíðinni.
Hinn gesturinn er leikmyndahönnuðurinn László Rajk sem kynnir myndina Son of Saul (2015) en hún fjallar um fanga í útrýmingarbúðum nasista. Þess má geta að Rajk er einnig þekktur fyrir að vera listrænn stjórnandi á setti stórmyndarinnar The Martian (2015).
Í tilkynningunni frá hátíðinni segir að Stockfish sé kvikmyndahátíð kvikmyndagerðarmanna á Íslandi. „Hún er haldin í samvinnu við Heimili kvikmyndanna, Bíó Paradís og fagfélög í kvikmyndagreinum á Íslandi. Hátíðin veitir almenningi aðgang að rjómanum af þeim kvikmyndum sem eru sýndar á kvikmyndahátíðum erlendis og kemur fjöldi erlendra kvikmyndagerðarmanna og fagaðila í kvikmyndagerð til landsins að sækja hátíðina og viðburði hennar.“
Sjáðu myndirnar sex hér fyrir neðan:
Sumarlok // End of Summer – Ísland og Suðurskautslandið
Sumarlok er tilraunakennd stuttmynd eftir tónskáldið og Golden Globe verðlaunahafann Jóhann Jóhannson. Áhorfandinn fer í dáleiðandi og lágstemmdan könnunarleiðangur um berangurslegt landslag eyjunnar Suður Georgíu og Suðurskautlandsins undir sumarlok þegar dagarnir styttast óðum. Myndin byggir á heimspekikenningu þar sem gamlar hugmyndir um náttúruna sem viðfang fegurðar og forréttinda fyrir mannskepnuna eru véfengd. Hún er skotin á svarthvíta súper 8 filmu og undir hljómar seiðmögnuð tónlist eftir Jóhann.
Sonur Sáls // Son of Saul – Ungverjaland
Sonur Sáls hverfist um ungverskan fanga í útrýmingarbúðum nasista sem tilheyrir Sonderkommandos, hópi gyðinga sem neyddir voru til að aðstoða við útrýmingu og líkbrennslu samfanga sinna. Nýstárleg og óvægin sýn á helförina sem hlaut hin virtu Grand Prix verðlaun á Cannes hátíðinni.
Nahid // Nahid – Íran
Nahid heldur forræði yfir syni sínum eftir skilnað við manninn sinn, gegn því skilyrði að hún giftist aldrei aftur. Þegar hana langar að stofna heimili með nýja kærastanum sínum rannsakar Nahid hvort hún geti komist hjá skilyrðinu gegnum gloppur í flóknum skilnaðarlögum Íran. Þegar hún finnur hjáleið er óljóst hvort hún reynist bölvun eða blessun. Sýnd í Un Certain Regard á Cannes hátíðinni.
Victoria // Victoria – Þýskaland
Victoria er stödd á næturklúbbi í Berlín þegar hún hittir hún fjóra menn sem bjóða henni með sér í kynnisferð um hina „raunverulegu“ Berlín. Áður en hún veit af er hún flækt í vef glæpa og á flótta undan lögreglunni. Einstakar borgarsenur og spennandi framvinda prýða þessa mynd sem tekin er upp í einni samfelldri töku en þessi óvenjulega myndataka tryggði myndinni Silfurbjörnin fyrir sérstakt listfengi á Berlinale.
Augnráð þagnarinnar // The Look of Silence – Bandaríkin og Indónesía
Ást í Kohn Kaen // Cemetery of Splendour – Tæland
„Fáir leikstjórar utan David Lynch sýna jafn mikla leikni og næmni þegar kemur að túlkun á tungumáli drauma og Apichatpong Weerasethakul“ segir gagnrýnandi Variety. ÁST Í KHON KAEN fjallar um Jenjiru, konu sem annast hermenn sem þjást af dularfullri svefnsýki og tilraunir hennar til að ráða í undarlega drauma þeirra. Myndin var sýnd í Un Certain Regard flokknum á Cannes hátíðinni.