Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel mun verða kynnir á 89. Óskarsverðlaunahátíðinni í febrúar nk. Þetta verður í fyrsta sinn sem Kimmel tekur að sér þetta hlutverk, en hann hefur stjórnað spjallþættinum Jimmy Kimmel Live! á ABC sjónvarpsstöðinni síðan árið 2003 og fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína þegar hann var kynnir á Emmy verðlaunahátíðinni nú í ár.
„Já, ég verð kynnir á Óskarnum. Þetta er ekki grín eða hrekkur. En ef það er svo, þá mun ég hefna mín grimmilega á @theacademy,“ sagði hinn 49 ára New York búi á Twitter.
Yes, I am hosting the Oscars. This is not a prank. And if it is, my revenge on @TheAcademy will be terrible & sweet. Thx to @alsformalwear
— Jimmy Kimmel (@jimmykimmel) December 5, 2016
Búist er við að val hans verði tilkynnt opinberlega af Michael De Luca og Jennifer Todd, sem bæði hafa fengið fjölmargar Óskars og Emmytilnefningar, og voru fengin til þess í síðasta mánuði að vera framleiðendur hátíðarinnar.
Óskarsakademían hefur ekki staðfest valið á Kimmel, en endurtísti tilkynningu hans á Twitter.
Hátíðin verður send út á ABC sjónvarpsstöðinni 26. febrúar nk. Sagt er að stöðin hafi greitt 75 milljónir Bandaríkjadala fyrir réttinn til að senda hátíðina út.
Ráðning Kimmel er tilkynnt frekar seint, en yfirleitt er kynnirinn ráðinn mörgum mánuðum áður en hátíðin er haldin.
Áður höfðu margir spáð því að Ellen DeGeneres eða Tina Fey hrepptu hnossið.
Grínistinn Chris Rock var kynnir á hátíðinni í febrúar á þessu ári, en áhorf var þá hið minnsta í átta ár, með 34,5 milljónir áhorfenda.
Umræða á samfélagsmiðlum um ójafnvægi í Óskarstilnefningum setti sitt mark á hátíðina, og myllumerkið #OscarsSoWhite var mikið notað til að gagnrýna skort á tilnefningum annarra en hvítra leikara.