Aaron Sorkin, hinn virti og sífellt hvassi bandaríski handritshöfundur, er algjörlega engum líkur þegar kemur að því að rífa kjaft með skrifum sínum, að minnsta kosti ekki síðan David nokkur Mamet var upp á sitt besta.
Eins og sjá má í öðrum verkum Sorkin, A Few Good Men, The West Wing, The Social Network, Steve Jobs og fleirum, er ljóst að sérstaða höfundarins liggur í flóknum texta, bitastæðum ágreiningi, svonefndum labb-rabbsenum og beittri typpakeppni valdafólks.
Þó er yfirleitt mannlegur eða rammpólitískur broddur í þeim samtalssinfóníum sem einkenna Sorkin-skrifin, þar sem upplýsingaflóðið og framvindan rúllar orkumikil í stílíseruðum tón. En það er eitt að mála með orðum, Sorkin er meira í þeim gír að skjóta þeim út um alla veggi með Paintball-byssu. Slíkt verður bara hreinlega aldrei leiðinlegt ef efniviðurinn sem höfundurinn velur er safaríkur og hvað þá ef hann er sannsögulegur.
Kostunum fjölgar svo þegar fagbrögðum kvikmyndalistarinnar er beitt, ásamt samspili vel valinna leikara. Þarna er The Trial of the Chicago 7 í hinum bestu málum.
Algjört bíó í réttarsal
Myndin hefur verið í bígerð í tæp 15 ár en samt speglar umfjöllunarefni myndarinnar tíðarandann í Bandaríkjunum árið 2020 ótrúlega vel, eiginlega fyrir slysni. Áður ætlaði Steven Spielberg, einn framleiðenda myndarinnar, að leikstýra sjálfur upp úr handriti Sorkins, og síðar Paul Greengrass, áður en höfundurinn greip sjálfur um þá tauma.
The Trial of the Chicago 7 er önnur kvikmynd Sorkins í fullri lengd sem leikstjóri en hann sýndi þrælfína takta með Molly’s Game frá 2017; heljarinnar fínni ævisögu þar sem leikstjórinn var umkringdur hæfileikafólki með góð tök á flottri kvikmyndatöku, klippingu, notkun tónlistar og fleiru. Sorkin er vissulega enginn David Fincher eða Danny Boyle, en þessir vaxandi hæfileikar eru þó engu að síður greinanlegir í Chicago 7. Þessi kvikmynd er reyndar heilt yfir stærri, metnaðarfyllri, þéttari, aðgengilegri, „amerískari“ en samt ótrúlegri en margur skáldskapur.
Það eru ófáir atburðir í þessari kvikmynd sem sýna hversu lítið hefur breyst á hálfri öld í bandarískri sögu. Þó eru heimildirnar líka hreint farsakenndar nánast þar sem hér segir frá einum furðulegustu réttarhöldum í nútímasögu Bandaríkjanna. Sagan hefst sumarið 1968 og segir frá sjö aðilum sem stóðu að friðsamlegum mótmælum vegna Víetnamstríðsins á ársþingi demókrataflokksins. Þessir menn urðu síðar kallaðir Sjömenningarnir frá Chicago af almenningi og ákærðir fyrir samsæri og að hvetja til uppþota.
Mótmælin snerust upp í átök við lögreglu og þjóðvarðliðið á staðnum. Við hópinn bætist svo Bobby Seale (Yahya Abdul Mateen II) úr samtökunum Black Panthers, sem ekki tóku þátt í mótmælunum. Virðist blasa við hjá sumum innan hópsins að tær pólitískur ásetningur sé á bak við þessi réttarhöld. Inn í málið blandast æstur dómari, vafasamt háttalag á kviðdómi, miðaldarefsingar í dómssal og fjöldinn allur af áminningum um hegðun þegar andrúmsloftið er orðið að algjöru bíói.
Góðir gestir, miklir fagmenn
Ljóst er að réttardramað er undirflokkur sem vel er búið að tæma í kvikmyndasögunni. Slíkar sögur lenda oft í síendurteknum, gjarnan skraufþurrum formúlum og tilheyrandi klisjum. Sorkin er sjálfur maðurinn á bakvið eina frægustu réttardramamynd síðustu áratuga, A Few Good Men, þar sem beittir frasar og hádramatísk atriði tröllríða öllu með stíl.
Höfundurinn er hér á heimavelli með viðfangsefnið, skilaboðin og heiftina, þó það sé vissulega leitt á einhvern veg að Sorkin hafi valið ríkjandi pissukeppni karla til umfjöllunar, keppni sem býður þá ekki upp á mörg bitastæð hlutverk fyrir konur. Eftir að hafa yfirstigið gamlan vana og tæklað sögu Molly Bloom svo stórskemmtilega í síðustu mynd sinni gerist Sorkin hér aftur sekur um leiðindaskort á kvenhlutverkum, án þess að ég sé að gera lítið úr þeirri eðalsúpu leikara sem liggur fyrir.
Allir leikarar í þessari mynd eru frábærir, þó að nokkrir séu með meira að japla á og þess virði að nefna. Þeir Sacha Baron Cohen og Eddie Redmayne lenda í basli með hreiminn sinn en leggja sig fram og það snilldarlega. Útgeislun Cohens er sérstaklega framúrskarandi í gervi Abbies Hoffman, háværa hippans sem bæði er teiknaður upp sem trúður og brandarauppspretta sögunnar, en er í senn ein lykilsamviskuröddin. Það er kannski erfitt að kaupa hreim Cohens (fyrir utan þá staðreynd að leikarinn er töluvert eldri en Hoffman á þessum tíma), en sál og tilfinningar Cohens og co. eru alveg borðliggjandi og gefins.
Áreiðanlega þarf ekki mikinn fókus á Seale til að öðlast samúð og stuðning áhorfandans í þessum aðstæðum, en Mateen er þarna áreiðanlegur sem fyrr og Mark Rylance sýnir ekkert nema hina mestu töffaratakta sem „óþekki“ lögfræðingurinn William Kuntsler. Dómarinn sem flestum þarna blöskrar, er fullkomlega innsiglaður sem ólæknandi fýlupúki af leikaranum Frank Langella.
John Carroll Lynch, Joseph Gordon-Levitt, Caitlin Fitzgerald og fleiri bæta miklu við. Meira að segja Michael Keaton á líka ágætis innkomu og frammistöðu, en það getur stundum verið truflandi að kynna einn frægasta leikara myndarinnar svo seint til leiks (upp í hugann kemur Matt Damon í Interstellar sem dæmi). Því má meira líta á hann sem góðan gest.
Styttubeita með sál
Jafnvel þó áhorfandinn viti útkomuna fyrirfram nær Sorkin að hræra saman mikilli spennu og heilmiklu skemmtanagildi úr þessari atburðarás. Myndin spilast út eins og þrælgott samansafn „Óskarsklippa,“ til hins betra og hins verra. Heildarsvipurinn daðrar við þjóðrembing og melódrama, sem er þekkt mynstur höfundarins. Útkoman er þó nógu köld, hnyttin, vönduð og blátt áfram til að glansinn eða styttubeitan undir lokin komi eins og ferskur andblær.
Með þessari sneið af sögu Bandaríkjanna er Sorkin kominn með sterkan efnivið á silfurfati, sem þýðir að heilmikið svigrúm og áhersla gefst fyrir þá takta sem höfundurinn er vanur að nota. Sorkin einblínir á óréttlæti og skilyrðislausa hlýðni við yfirvaldið; þöggun, fordóma, sameiningarkraft, stjórnleysi og sundurliðun ólíkra póla fyrir sama málstað.
Þegar allt er upp talið er Chicago 7 alls ekki þetta dæmigerða fiðluspilandi réttardrama heldur fjöllaga, frústrerandi og ofar öllu stórskemmtilegur frasahasar frá gæðakrafti, og kjafti.
En alls ekki missa af Molly’s Game heldur!