Listin að gráta í kór verðlaunuð

Danska kvikmyndin Listin að gráta í kór hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007. Verðlaununum skipta þeir með sér leikstjórinn Peter Schønau Fog, handritshöfundurinn Bo Hr. Hansen og framleiðandinn Thomas Stenderup. Á laugardagskvöldið hlaut kvikmyndin Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar á Riff hátíðinni. Kvikmyndin byggir á skáldsögu eftir Erling Jespen.

Rökstuðningur dómnefndarinnar er svohljóðandi: „Kvikmyndin „Listin að gráta í kór er sýnd með augum lítils drengs. Með lágværri kímni er brugðið upp mynd af fáránleika en líka ógnum fjölskyldulífsins. Áhorfendur er skemmt en þeir verða líka hrærðir þar sem fjallað er um jafn vandmeðfarið efni og misnotkun á börnum á beinskeyttan en þó mannúðlegan hátt. Þrúgandi öfl undir gljáandi yfirborði kaupstaðarlífsins eru afhjúpuð af hreinskilni, samkvæmt tilkynningu.

Verðlaunin sem eru 350.000 danskar krónur eða tæpar 4 milljónir íslenskra króna, verða afhent við athöfn á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló miðvikudaginn 31. október.

Fréttin er fengin af www.mbl.is