George Lucas og félagar hans hjá Lucasfilm hafa kært fyrirtækið Shepperton Design Studios í London fyrir brot á höfundarrétti. Þannig er nú mál með vexti að eigandi fyrirtækisins, Andrew Ainsworth, var búningahönnuður fyrir fyrstu Star Wars myndina árið 1977. Fyrirtæki hans framleiddi Storm Trooper búningana.
Síðar meir hóf fyrirtækið að fjöldaframleiða búningana og markaðssettu þá sem „gerðir af upprunalega hönnuðinum og í upprunalega gifsinu“. Þeir seldu búningana þá á 3.500 dollara stykkið.
Lucasfilm halda því fram að Andrew eigi engan rétt á því að selja búningana, í fyrsta lagi því það er brot á höfundarrétti og einnig vegna þess að Andrew var fenginn inní hönnun búninganna rúmlega ári eftir að teikningarnar voru gerðar og kom hann því varla að gerð þeirra, hann framleiddi þá aðeins.
Lucasfilm unnu 20 milljón dollara árið 2006 vegna málsins en nú er málið komið fyrir hæstarétt. Mótrök Shepperton Design Studios eru þau að eiginlegur höfundarréttur eigi ekki við í þessu máli, hönnunareignaréttur gildir aðeins í 10 ár og því er hann útrunninn. Lucasfilm halda því fram að um venjulegan höfundarrétt sé að ræða og því eigi hann að gilda í 70 ár.
Búist er við því að úrskurður málsins liggi fyrir eftir 10 daga og munum við greina ykkur frá framþróun málsins.

