Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Þessi heimildamynd fjallar um tvo uppistandara, hinn heimsfræga Jerry Seinfeld og hinn lítt þekkta Orny Adams. Myndin var tekin upp á einu ári af þeim Christian Charles, leikstjóra myndarinnar og Gary Streiner, framleiðanda. Við sjáum bæði Seinfeld og Adams búa til ýmiskonar stykki fyrir áhorfendur sína, henda þeim í burtu, búa til önnur atriði, tala við aðra grínista eins og Chris Rock eða Ray Romano á börum, sífellt kveljast yfir því að atriðin þeirra séu ómöguleg eða að þeir muni hiksta á þeim þegar komið er að sviðinu, sífelld ferðalög á milli staða, endurbætur á atriðum og svo framvegis og svo framvegis.
Hver er tilgangur þessarar myndar? Enginn að því er mér virðist. Þessi veröld grínistanna og það sem þeir tala um lítur ekki einu sinni út fyrir að vera neitt áhugaverð. Samkvæmt þessari heimildamynd eiða þeir mestum tíma sínum í að vera vansælir með hitt og þetta og þá sérstaklega atriðin. Að vísu er það dálítið athyglisvert hversvegna forríkur og heimsþekktur maður eins og Jerry Seinfeld vilji aftur fara í að túra á milli lítilla klúbba. Skýringin virðist aðallega vera ákveðin spennufíkn, hvort atriðið muni virka eða ekki, kikkið í því að hafa lifandi áhorfendur á sínu valdi og bandi o.s.frv. Það atriði af uppistandinu er athyglisvert og hefði mátt spila betur með það ef að kvikmyndagerðarmennirnir hefðu þorað að grafa aðeins betur í það. En þeir velta ekki upp neinum spurningum sjálfir svo að maður lærir nákvæmlega ekki neitt af því að sjá þessa mynd.
Atriðin með Seinfeld eru að öðru leyti aðeins betri en þau með Adams. Adams þessi finnst mér nefnilega koma út sem einskær leiðindagaur. Fastur í stöðugri sjálfsvorkunn yfir því hvað það er erfitt að vera uppistandsgrínari og að allt hans atriði sé ómögulegt og að hann sé að kasta lífi sínu á glæ. Þetta er eins og að horfa á Woody Allen ef hann væri ekki að gera grín að sér og væri fyndinn á sama tíma. Stundum langar mann einfaldlega til að taka í hnakkadrambið á þessum Adams og öskra: ,,Það er fólk að svelta í Afríku, hættu þessu fjandans sjálfsvorkunarbulli.
Sjálsvorkunarbullið er svo sem líka til staðar í Seinfeld-köflunum en þar sem Seinfeld sjálfur hefur miklu meiri útgeislun og persónutöfra heldur en Adams kemst hann betur upp með það.
Ég einfaldlega skil ekki tilgang þessarar myndar? Hún veltir ekki upp neinum spurningum, hún svarar engum og á þeim 80 mínútum sem að myndin er sýnd gerist í rauninni ekkert, allavega ekki neitt sérstaklega áhugavert. Þeir Charles og Streiner eru eflaust að reyna að sýna okkur fram á að líf uppistandarans sé miklu erfiðara heldur en við höldum en þetta virðist samt mest vera sjálfsvorkun og sjálfsupphafning sem ég hef aldrei verið mjög hrifinn af.
Þetta er ekki góð eða mjög skemmtileg mynd og ég get ekki mælt með henni.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Framleiðandi
Miramax
Vefsíða:
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
11. apríl 2003
VHS:
4. september 2003