Næstu myndir í Nostalbíó

Að undanförnu hafa kvikmyndahús landsins aukið sýningar á eldri klassískum kvikmyndum. Bíótöfrar er kvikmyndaklúbbur sem varð til í samstarfi milli Sambíóanna, hlaðvarpsins Bíóblaðurs og Fésbókagrúppunnar Kvikmyndaáhugamenn. Myndir á borð við 1981 útgáfu af hryllingsmyndinni The Thing, grínmyndina Tropic Thunder (2008) og hasarmyndina Heat (1995) voru sýndar á vegum klúbbsins.

Einnig byrjuðu Sambíóin í Egilshöll með svokallaðar Gullmola sýningar og hafa myndir eins og Interstellar og Terminator 2 ratað aftur á stóra tjaldið. Skvísubíó er einnig á vegum Sambíóana og einblínir meira á eldri rómantískar gamanmyndir.

Bíó Paradís reið þó á vaðið með sérsýningar á borð við Föstudags partísýningar og Svarta Sunnudaga. Næstu Partísýningar Bíó Paradísar verða Fright Night frá árinu 1985 og Mama Mia (2008). Í dag, sunnudaginn 23. mars, sýnir Bíó Paradís hina sígildu Sexy Beast frá árinu 2001 með Ray Winstone í aðalhlutverki.

Smárabíó hefur einnig verið að sýna sígildar myndir og næst verður James Bond myndin Diamonds are Forever (1971) sýnd næsta miðvikudag 26. mars í MAX salnum.

Sýningarnar hafa bæði fengið góð viðbrögð og aðsókn og geta aðdáendur kvikmynda nú fengið fleiri tækifæri til að upplifa sínar uppáhalds kvikmyndir á hvíta tjaldinu.

Til að fylgjast með næstu sérsýningum kvikmyndahúsanna er hægt að skoða Nostalbíó úrvalið á kvikmyndir.is