Orðrómur um að Jack Nicholson sé að setjast í helgan stein og hætta að leika vegna minnisleysis, er fullkomlega rangur, að sögn Maria Shriver hjá NBC fréttastofunni.
Fréttin um starfslok hins 76 ára gamla Nicholson hefur farið sem eldur í sinu um internetið og vefmiðla heimsins, en miðað við þetta er ekkert að marka fréttina, sem kom frá vefmiðlinum Radar Online.
Shriver staðfestir við E! News fréttaveituna að fréttir af því að Nicholson sé hættur að leika vegna erfiðleika við að muna texta eða elliglapa, séu 100% rangar, og segir að stjarnan þjáist alls ekki af minnisleysi né elliglöpum, og hafi engin áform uppi um að hætta að leika. Í raun sé leikarinn að fara yfir handrit á fullu og hlakki til næsta verkefnis síns, að því er Shriver segir.
Aðdáendur leikarans geta því tekið gleði sína að nýju, ef eitthvað er að marka orð Shriver.