Bandaríska útgáfufyrirtækið Shout Factory hefur tilkynnt að það muni gefa út á Blu-ray spennumyndina „Nighthawks“ (1981) með Sylvester Stallone, Rutger Hauer, Billy Dee Williams og Lindsay Wagner í aðalhlutverkum. Mögulega eru þetta frábær tíðindi.
Á meðan Sly sló í gegn sem Rocky og Rambo voru nokkrar myndir inn á milli sem innihéldu ekki þá karaktera og „Nighthawks“ þykir með þeim betri. Fantagóður tryllir þar sem Hauer leikur samviskulausan hryðjuverkamann sem lætur til sín taka í New York. Stallone og Williams leika löggurnar sem eru á hælum hans.
Ansi mikil saga á bak við þessa mynd en kvikmyndaeftirlitið sneiddi burt margar af grófari ofbeldissenum myndarinnar; þ.á.m. blóðugt lokauppgjör sem í endanlegu útgáfunni lítur út fyrir að vera hálf sundurslitið. Mörgum atriðum hjá Stallone og Lindsay Wagner var einnig fleygt í ruslið til að kýla áfram framvinduna en þau eru sögð hafa dýpkað á sambandi þeirra og, að mati Stallone, innihalda stórgóðan leik hjá leikkonunni. Svo segir aðal gróusagan að Stallone, á hátindi egósins, hafi sjálfur lagt til að eyða mörgum atriðum með Hauer þar sem hann taldi Hollendinginn vera alveg að stela senunni.
Ef allar ljósmyndir sem notaðar voru í kynningarefni eru skoðaðar má sjá að mörg atriði skiluðu sér ekki í myndina en fyrsta útgáfan er sögð hafa verið tæpir tveir og hálfur klukkutími að lengd. Einnig hefur það farið fyrir brjóstið á mörgum að tónlistin í myndinni hélst ekki óbreytt frá VHS útgáfunni yfir á DVD en þar á meðal var Rolling Stones laginu „Brown Sugar“ skipt út fyrir eitthvað annað lag.
Þar sem leikstjóri myndarinnar, Bruce Malmuth, er látinn er hæpið að endurunnin útgáfa líti dagsins ljós en mögulega er myndefnið enn til og gæti birst sem aukaefni á disknum. Það ætti að vera einfalt að búa til góða heimildarmynd um gerð myndarinnar og fá helstu leikarana með til að rifja upp sögur og sjá hvort Stallone hafi virkilega verið svo lítill í sér að hann hafi viljandi hent út góðum senum með Hauer bara til þess að líta betur út sjálfur.
Í versta falli verður myndin eins og hún hefur ávallt birst áhorfendum en með betri mynd- og hljóðgæðum. Þeir hljóta samt að skella Stones laginu aftur inn. Shout Factory á eftir að ljóstra upp hvort eitthvað aukaefni prýðir diskinn en útgáfudagur er 3. maí.
Sýnishornið úr „Nighthawks“