Gagnrýni eftir:
Lost Souls
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Alveg stórskemmtileg og frábærlega vel gerð hryllingsmynd um bandarískan metsölurithöfund sem sannfærist um að djöfullinn hafi útvalið hann sem Anti-Krist. Devil’s Advocate og Ninth Gate voru báðar mjög góðar en þessi var jafnvel enn betri og endirinn var sérstaklega vel útfærður. Þetta geta þeir stöku sinnum í Hollywood, ótrúlegt en satt.
Timecop
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mia Sara er það eina góða við þessa heimskulegu tímaflakksmynd, en jafnvel henni tekst ekki að bjarga vitleysunni fyrir horn. Látið þessa því eiga sig og leitið frekar að einhverjum öðrum Miu Söru myndum í staðinn, svo sem Ferris Bueller’s Day Off eða Bullet to Beijing.
The Ninth Gate
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Biðin eftir nýrri Polanski mynd var orðin löng, en hún var þess virði. The Ninth Gate er mjög góð hrollvekja, sem er virkilega þess virði að sjá í kvikmyndahúsi og síðan eignast á DVD. Svo til allar myndir Polanskis hafa verið góðar og staðfestir þessi nýja mynd hans, að hann telst enn meðal fremstu kvikmyndagerðarmanna okkar tíma, jafnvel þótt hún sé síðri en bestu myndir hans Bitter Moon, Rosemary’s Baby, Chinatown og Repulsion. Í rauninni er Pirates eina mynd hans, sem getur talist slök, en ég hef hvorki séð What? né fyrstu pólsku stuttmyndirnar hans. The Ninth Gate segir frá fornbókasala, sem sendur er í leiðangur til Evrópu til að hafa upp á tveim eintökum af rúmlega þriggja alda gömlu dultrúarriti, sem sagt er runnið frá sjálfum djöflinum. Vinnuveitandi fornbókasalans er vellauðugur djöflafræðingur og safnari fornra dultrúarrita og lánar hann honum eintak sitt af bókinni svo hægt verði að bera það saman við hin tvö. Safnarinn gefur þá skýringu, að hann sé ekki viss um hvort eintakið sitt sé ófalsað og býður fornbókasalanum vegleg laun, taki hann verkið að sér. Fljótlega reynast þó fleiri vera á höttunum eftir bókunum og hika þeir hvorki við að svíkja né myrða til að ná vilja sínum framgengt. Fornbókasalinn á því brátt fóta sinna fjör að launa, en einsetur sér engu að síður að ljúka verkinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Polanski gerir kvikmynd um djöfladýrkendur, en í þessari mynd er berlega gefið í skyn, að skammt sé á milli áhuga á djöflinum og dýrkunar á honum, hvort heldur sem fræðimenn eiga í hlut eða leikmenn. Þar með er ekki sagt, að tilraunir til að særa djöfulinn fram beri tilætlaðan árangur né að dultrúarritin komi að einhverju gagni þegar á reynir, því að breyskleiki fornbókasalans laðar hið illa fram öðru fremur. Johnny Depp, Frank Langella og Lena Olin standa öll fyrir sínu, en Emmanuelle Seigner ber af sem ‚succubusinn‘, sem leiðir fornbókasalann áfram og heldur verndarhendi yfir honum fyrir keppinautum hans til þess eins að ná tangarhaldi á honum. Sem sagt, stórskemmtileg útfærsla á mýtunni og endirinn ágæt tilbreyting.
Gladiator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Stórmyndin Gladiator er ein af bestu Rómverjamyndunum frá Hollywood, nokkuð betri en Ben-Hur en þó síðri en Spartacus. Sápuóperubragurinn á samtölunum er þó allmikill á köflum, en kannski var ekki við öðru að búast, enda orðsnilld Shakespeares á fárra færi. Gladiator jafnast því ekki á við Julius Caesar hvað mælskuna varðar. Leikararnir eru engu að síður allir óaðfinnanlegir í hlutverkum sínum og er gaman að sjá gömlu kappana Oliver Reed, Richard Harris, Derek Jacobi og David Hemmings aftur. Joaquin Phoenix er þó sérstaklega góður sem hinn siðlausi keisari Rómarveldis og Russell Crowe er litlu síðri sem bardagahetjan sem leitar hefnda á honum. Gladiator er því að mestu vel gerð og vel þess virði að sjá.
The Limey
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Steven Soderbergh sýnir það og sannar hér, að hann er einn af ferskustu kvikmyndagerðarmönnum Bandaríkjanna í dag. The Limey er stórskemmtileg kvikmynd um aldraðan enskan síbrotamann, sem heldur til Bandaríkjanna um leið og hann fréttir, að dóttir hans hafi látist þar í bílslysi, en hana hafði hann ekki séð síðan hann var sendur í fangelsi, þegar hún var enn á barnsaldri. Englendingurinn sannfærist brátt um, að sambýlismaður dótturinnar eigi sök á dauða hennar og strengir þess heit að hefna sín á honum. Það er þó hægara sagt en gert, því sambýlismaðurinn er bæði moldríkur og vel varinn. Sjálfsagt gefur þetta efniságrip allt annað en frumleika til kynna, en strax í upphafi myndarinnar er ljóst, að Soderbergh fer ótroðnar slóðir, slíkt er handbragð hans. Handritið er hnyttið og atburðarrásin kemur oft skemmtilega á óvart. Sagan er þó ekki alltaf sýnd í samfelldri tímaröð og myndskotum úr ýmsum mikilvægum atriðum er einatt bætt inn í önnur. Í raun er sem aðalsöguhetjan sé allan tímann að rifja upp liðna atburði, því myndskot frá lokum myndarinnar eru sýnd um hana alla. Sömuleiðis brýtur Soderbergh upp alla hefðbundna frásagnarmáta með því að aðkilja hvað eftir annað hljóð frá mynd, þannig að persónurnar eru til dæmis sýndar langtímum saman þöglar um leið og við heyrum samtöl þeirra. Boorman og Losey notuðu reyndar báðir þennan stíl, en Soderbergh gengur samt mun lengra en þeir. Leikararnir eru auk þess allir góðir, sérstaklega þó þeir Terence Stamp, Peter Fonda og Joe Dallesandro, enda gamlir í hempunni. The Limey er mjög góð kvikmynd, sem er vel þess virði að sjá.
Wolf
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Jack Nicholson er svo sannarlega réttur maður á réttum stað í þessari varúlfamynd, þeirri bestu sem ég hef séð til þessa. Það er vart, að hann þurfi á föðrun að halda, svo leikandi fer hann með hlutverkið. Og ekki er James Spader síðri sem fleðulegur keppinautur hans. Þetta er stórskemmtileg og vel skrifuð kvikmynd, sem allir sannir hrollvekjuunnendur ættu að sjá oftar en einu sinni.
Body Heat
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Seiðmagnað tilbrigði við gömlu svarthvítu film noir kvikmyndirnar frá fimmta og sjötta áratugnum, einkum þó Double Indemnity eftir Billy Wilder og Postman Always Rings Twice eftir Tay Garnett sem báðar voru byggðar á samnefndum skáldsögum James M. Cain. Kvensamur en lánlaus lögfræðingur kynnist gullfallegri og leyndardómsfullri giftri konu, sem tælir hann til þess að myrða eiginmann hennar. William Hurt er trúverðugur í hlutverki lögfræðingsins, sem úthugsar hinn fullkomna glæp, en sér svo allt hrynja yfir sig, þegar í ljós kemur, að fláræði ástkonunnar beinist ekki síst gegn honum. Kathleen Turner er glæsileg sem flagðið, sem einskis svífst, og jafnast þar alveg á við gömlu skaðræðiskvendin Lönu Turner, Barböru Stanwyck og Jane Greer. Leikstjóranum Lawrence Kasdan hefur svo sannarlega tekist með ágætum að tileinka sér yfirbragð gömlu film noir kvikmyndanna og heimfæra það á byrjun níunda áratugarins, en seiðandi tónlist Johns Barry magnar upp viðeigandi stemningu.
Man on the Moon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Kynlegir kvistir, sem storka hefðbundnum gildum samfélagsins, virðast vera eftirlæti tékkneska leikstjórans Milosar Forman. Í þetta skipið segir hann söguna af þekktum en umdeildum bandarískum skemmtikrafti, sem gerði í því að storka áhorfendum sínum og villa þeim sýn, en féll síðan sjálfur fyrir áþekkum blekkingum, þegar halla tók undan fæti hjá honum. Jim Carrey er að sjálfsögðu réttur maður á réttum stað, enda tekst honum að gæða persónuna bæði lífi og sál og vekur þannig samúð áhorfendanna með henni. Þetta er mjög góð mynd sem er vel þess virði að sjá.
Cross of Iron
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mögnuð stríðsmynd sem gerist á austurvígstöðvunum síðla sumars árið 1943 þegar þriðja sumarsókn þýzka hersins hefur endanlega runnið út í sandinn og undanhald hans hefst. Maximilian Schell leikur hrokafullan prússneskan herforingja, sem gerist sjálfboðaliði í fremstu víglínu í von um að hljóta járnkrossinn, en lendir fljótlega upp á kannt við stríðsþreytta hermenn sína undir stjórn James Coburn. Einstaklega vel leikin kvikmynd, þar sem David Warner er sérstaklega eftirminnilegur sem þunglyndur og háðskur undirforingi í bækistöðvum úrvalsleikarans James Mason og Senta Berger er ekki síðri í hlutverki hjúkrunarkonu, sem annast Coburn um miðbik myndarinnar. Handbragð Peckinpahs er frábært og klippingarnar hrein snilld eins og svo oft áður í myndum hans. Þetta er tvímælalaust ein af bestu stríðsmyndunum, sem ég hef séð, en er þó alls ekki fyrir viðkvæma, enda einstaklega hrottafengin á köflum. AÐVÖRUN: Þegar Cross of Iron var gefin út á DVD í Bandaríkjunum fyrir skömmu, var hún ekki höfð á widescreen. Kaupið því frekar breiðtjaldsútgáfu hennar á myndbandi frá Bretlandi eða bíðið eftir betri útgáfu hennar á DVD.
The Longest Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sígild stríðsmynd byggð á samnefndri bók Cornelíusar Ryan sem unnin var upp úr viðtölum við fjölda manns er tók þátt í orrustunni um Normandy sitt hvoru megin víglínunnar. Kvikmyndin gerist því jafnt meðal bandamanna, þýzka hersins og frönsku andspyrnuhreyfingarinnar og sjá leikstjórarnir Ken Annakin, Andrew Marton og Bernard Wicki hver um sína þjóð, enda tala leikararnir blessunarlega sitt eigið tungumál. Sennilega hafa fáar kvikmyndir boðið upp á jafn mikið úrval heimsþekktra leikara eins og The Longest Day og kemur það alls ekki niður á uppbyggingu hennar. Richard Burton, Sean Connery, Gert Fröbe og Curt Jürgens eru aðeins örfá dæmi um leikara, sem eru bæði sannfærandi og eftirminnilegir í litlum en mikilvægum hlutverkum sínum í myndinni, og meira að segja John gamli Wayne reyndist áhrifamikill sem særður fyrirliði bandarískrar fallhlífaherdeildar handan víglínunnar. Enda þótt bardagaatriðin í Saving Private Ryan hafi óneitanlega verið betri, þökk sé tölvutækninni, þá held ég meira upp á The Longest Day, enda frábærlega vel gerð og einstaklega vel leikin. Þetta er þó ein af þeim myndum, sem ber að forðast nema á breiðtjaldsformi, enda tekin í Cinemascope. Forðist alveg sérstaklega hálfu útgáfuna, sem sýnd hefur verið í lit á sjónvarpsstöðinni Sýn. The Longest Day er ein af þessum myndum, sem eiga að vera svarthvítar.
Mission to Mars
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Brian De Palma er mistækur kvikmyndagerðarmaður. Ýmist sendir hann frá sér listaverk á borð við The Untouchables og Carlito’s Way eða rusl á borð við Wise Guys og þann vísindaskáldskap, sem er hér til umfjöllunar. Í rauninni má finna ýmislegt gott við Mission to Mars, sérstaklega framan af, enda leynir handbragð de Palma sér ekki. Þannig eru helstu spennuatriðin nokkuð vel útfærð og kvikmyndatakan glæsileg. Spennuatriðin eru þó alltof fá og tæknivinnan víða hörmung. Margir hafa kvartað undan tónlistinni, en ég var mjög sáttur við hana og taldi hana viðeigandi. Vandamálið er hins vegar handritið, sem er ein allsherjar klisja frá upphafi til enda og slær örugglega öll væmnismet líka. Persónusköpunin er í flestum tilfellum ömurleg og maður vorkennir leikurunum, sem auðsjáanlega reyna sitt besta en ná ekki að bjarga neinu. Tim Robbins og Gary Sinise hafa til dæmis oft átt betri daga en þennan. Vonandi hafa þeir látið til leiðast vegna leikstjórans og launanna frekar en handritsins. Auk þess verður sú skýring að teljast vafasöm, sem gefin er á tilurð lífsins á jörðinni í lok myndarinnar. Þá er gáfulegra að trúa því, að Guð hafi skapað heiminn með eða án þróunar. Mission to Mars er því í heildina léleg kvikmynd, sem er vel þess virði að forðast.
Sleepy Hollow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Tim Burton veldur hér ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Johnny Depp leikur ötulan lögreglumann í New York, sem er sendur út á landsbyggðina til að rannsaka dularfullt morðmál, en fljótlega kemur á daginn, að þar á hann í höggi við snaróðan hauslausan fjöldamorðingja. Sleepy Hollow er mjög góð draugamynd í anda gömlu gotnesku hrollvekjanna, enda byggð á þekktri draugasögu frá nítjándu öld sem kvikmynduð hefur verið nokkrum sinnum.
Jude
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afar vönduð og vel leikin kvikmynd sem byggð er á sögunni Jude the Obscure eftir Thomas Hardy. Sagan varð strax umdeild, þegar hún kom út árið 1896, en telst nú til mikilvægustu bókmenntaverka Englendinga. Nöpur þjóðfélagsádeila Hardys og lýsingar hans á erfiðleikum fólks í ástlausu hjónabandi fóru fyrir brjóstið á mörgum samtímamönnum hans og var bókin fordæmd sem siðleysi og klám og meira að segja brennd á báli af andstæðingum hennar, sem töldu hann andsnúinn hjónabandinu. Svo hörð voru viðbrögðin, að Hardy hét þess að skrifa aldrei framar skáldsögu og fékkst nær eingöngu við ljóðagerð þá þrjá áratugi, sem hann lifði enn. Sagan greinir frá ungum manni, sem þráir að mennta sig en kemst ekki í skóla vegna fátæktar. Hjónaband hans reynist lánlaust og konan yfirgefur hann, en hann tekur síðar saman við frænku sína, sem á einnig misheppnað hjónaband að baki. Þrátt fyrir að þau eigi samleið og elski hvort annað, leikur lánið ekki við þeim. Samfélagið lítur samband þeirra hornauga, þar sem þau skildu aldrei formlega við maka sína og börn þeirra eru álitin lausaleikskrógar, en fyrir vikið hrökklast þau úr einu byggðarlaginu yfir í annað. Þetta er virkilega sorgleg saga og maður finnur einlæglega til með sögupersónunum, ekki síst vegna sannfærandi túlkunar Christophers Eccleston og Kates Winslet. Myndin er þó aldrei langdregin og alls ekki væmin. Sumir gagnrýnendur hafa kvartað undan því að myndin sé ópersónuleg, en því get ég alls ekki verið sammála. Örlagahyggjan er samt áberandi og biblíutilvísanirnar tíðar í þessu sem og öðrum verkum Hardys, en afdrif þeirra sögupersóna, sem lenda undir í lífsbaráttunni og ná ekki að þókknast samfélaginu, eru jafnan miskunarlaus hjá honum. Í þessu tilfelli var sagan þó að nokkru leyti byggð á reynslu höfundarins, sem elskaði alla tíð frænku sína en giftist konu sem hann taldi sig ekki eiga samleið með. Það er vandasamt að kvikmynda stór bókmenntaverk á borð við þetta og óhjákvæmilegt að stytta þau fyrir hvíta tjaldið, en ég var tiltölulega sáttur með útkomuna í þessu tilfelli. Þar sem breiðtjaldsformið er víða notað til fulls í myndinni, komu nokkur atriði illa út í þeirri hálfu útgáfu, sem gefin var út á myndbandi hér á landi og sýnd á Stöð 2. Þess vegna er nauðsynlegt að sjá hana annað hvort í kvikmyndahúsi eða á breiðtjaldsspólu, en vonandi verður hún bráðlega gefin út í réttum hlutföllum á DVD. Sjáið endilega líka kvikmyndirnar Tess eftir Roman Polanski og Tess of the D’Urbervilles eftir Ian Sharp, en þær eru báðar byggðar á einni frægustu skáldsögu Hardys.
Romeo Juliet
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Stórkostleg útfærsla á þessu sígilda snilldarverki leikritaskáldsins Williams Shakespeare. MTV framsetningin svokallaða kemur ótrúlega vel út og er í senn frumleg, fjörleg og heillandi. Myndatakan, klippingarnar og tónlistin eiga þar stóran hlut að máli, en nauðsynlegt er að sjá breiðtjaldsútgáfu myndarinnar til þess að geta notið hennar til fulls. Leonardo DiCaprio stendur sig vel sem Rómeó en Claire Dance stelur senunni svo sannarlega í hlutverki Júlíu. Aðrir leikarar eru allir óaðfinnanlegir. Frábær kvikmynd sem allir ættu að sjá og öndvegis kynning á verkum Shakespeares fyrir ungdóminn.
Straw Dogs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hér var Peckinpah svo sannarlega í essinu sínu. Þegar háskólamenntuð ung hjón setjast að á heimaslóðum konunnar skammt frá afskekktu ensku þorpi, eiga þau brátt í vök að verjast vegna fjandskapar sumra þorpsbúanna, einkum jafnaldra konunnar sem höfðu áður gerst sér vonir um hana. Eiginmaðurinn, sem leikinn er af Dustin Hoffman, reynir að gera gott úr öllu og lætur nánast hvað sem er yfir sig ganga, en þegar óaldarlýðurinn ógnar heimili hans, tekur hann til sinna ráða. Það er sem Peckinpah sé að segja, að eiginmaðurinn verði þá fyrst að manni, þegar hann taki upp haglabyssuna og verji sig og sína. Ofbeldið er alveg hrikalegt í myndinni, enda var hún frá fyrstu tíð umdeild. Túlkun Hoffmans var ekki síst gagnrýnd, enda er ekki laust við, að hann njóti alls ofbeldisins, þegar hann loks borgar óaldarseggjunum í sömu mynt. Hann slær eldskörunginum oftar en ástæða er til og í öllum hamaganginum er sem dauft bros taki að leika um varir hans. Besti leikari myndarinnar er þó Susan George í hlutverki eiginkonunnar, sem í fyrstu er lífsglöð og sjálfstæð en kiknar svo undan mótlætinu. David Warner er auk þess eftirminnilegur í litlu en veigamiklu hlutverki þroskahefts einfara, sem þorpsbúar telja ástæðu til að hafa undir stöðugu eftirliti. Spennan í myndinni er stigvaxandi og nær hámarki undir lokin, en strax í upphafi er ljóst, að illa muni fara. Enda þótt ýmsum blöskri ofbeldið, er því aldrei ofaukið heldur í fullu samræmi við þróun mála. Eitt afbrot leiðir af sér annað verra þar til enginn fær lengur rönd við reist. Myndatakan er hrá og drungaleg og klippingarnar magnaðar, sérstaklega fyrir hugskotssjónum eiginkonunnar og í átakaatriðunum.
Three Kings
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þegar nokkrir bandarískir hermenn komast yfir kort, sem vísar á gullforða Kúvæt í Írak skömmu eftir Persaflóastríðið 1991, halda þeir yfir landamærin til að ræna honum, en flækjast í staðinn í baráttu stjórnarandstöðunnar við heri Saddams Hussein. Þetta er vel gerð kvikmynd sem minnir nokkuð á myndirnar Kelly’s Heroes og A Fistful of Dynamite, en verður sem á líður mun alvarlegri en þær og líður að lokum fyrir klisjukenndan endinn. Afstaða aðstandenda myndarinnar til ákvörðunar Bush Bandaríkjaforseta um að láta staðar numið við landamæri Íraks í Persaflóastríðinu er jafnframt augljóslega neikvæð.
The Insider
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sannsöguleg kvikmynd sem greinir frá vandræðum bandaríska fréttaskýringarþáttarins 60 Minutes við að senda út viðtal við háttsettan vísindamann frá þriðja stærsta tóbaksfyrirtæki landsins, sem rekinn hafði verið úr starfi eftir að hafa bent yfirmönnum sínum á heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Vísindamaðurinn sætir hinu mesta harðræði þegar fyrrum yfirmenn hans taka að gruna hann um að leka út viðkvæmum innanhússleyndarmálum og er meðal annars skorið á allar greiðslur til hans, um hann njósnað og honum hótað lífláti. Vegna hagsmunaárekstra við tóbaksfyrirtækið snúast yfirmenn sjónvarpsstöðvarinnar gegn því að sýna viðtalið og láta aðstandendur 60 Minutes um tíma undan þrýstingnum. Í stuttu máli: Frábær kvikmynd, frábært handrit og frábærir leikarar. Al Pacino og Russell Crowe eru báðir einstaklega sannfærandi í hlutverkum sínum og Christopher Plummer er hreint út sagt stórkostlegur sem Mike Wallace, fréttastjóri 60 Minutes. Michael Mann er svo sannarlega búinn að festa sig í sessi sem einn mikilvægasti kvikmyndagerðarmaður Bandaríkjanna um þessar mundir, en hann hefur nú sent frá sér hvert listaverkið á fætur öðru með nokkurra ára millibili, Manhunter árið 1986, The Last of the Mohicans árið 1992 og Heat árið 1995. Eini gallinn við The Insider var kvikmyndatakan, en hún dregur myndina því miður niður úr stjörnunum fjórum. Myndavélin er höfð á sífelldu iði til þess að gefa myndinni einhvers konar fréttamennskuyfirbragð, en slíkar sjóveikistökur eru sem betur fer fátíðar á fréttastöðvunum og þáttum á borð við 60 Minutes og missa því algjörlega marks í þessu tilfelli. Stöku sinnum geta slíkar tökur þó átt rétt á sér í kvikmyndum, en þegar um er að ræða hægar senur og rólegheitasamtöl, verða þær aðeins pirrandi. Ég efast auk þess stórlega um, að myndin hefði orðið langdregin, hefði verið vandað meira til myndatökunnar. Ítalinn Dante Spinotti, sem kvikmyndað hefur flestar kvikmyndir Manns með sóma, er auk þess óvenju upptekinn af því að stilla í sífellu fókusinn í þetta skiptið og slær þar landa sinn Mario Bava algjörlega út og er þá mikið sagt. Ég hef til þessa umborið misnotkunina á fókusinum í myndum Manns enda hæfilega fátíðar, en í þessu tilfelli fór hún langt yfir strikið. Þetta er engu að síður kvikmynd, sem er virkilega þess virði að sjá og jafnvel eignast.
House on Haunted Hill
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Enn ein endurgerðin frá Hollywood. Í þessu tilfelli varð gömul Vincent Price hrollvekja eftir William Castle fyrir valinu og er útkoman slök eins og kannski mátti búast við. Myndin segir frá auðjöfrinum Stephen Price, sem nýtur þess að hræða líftóruna úr fólki með alls kyns bellibrögðum. Hann leigir dag einn gamalt afskekkt geðsjúkrahús, sem staðið hefur tómt síðan á millistríðsárunum vegna óhugnanlegrar fortíðar þess og orðróms um draugagang, og býður þangað fimm gestum síðla kvölds og heitir hverjum þeirra milljón dollara í verðlaun, haldi þeir út nóttina innan dyra. Enda þótt gestirnir þekki fæstir gestgjafa sinn, láta þeir allir til leiðast. Þeir eru þó bara rétt komnir inn fyrir ásamt gestgjafanum, eiginkonu hans og húsverðinum, þegar þykkir stálhlerar loka skyndilega öllum gluggum og útgönguleiðum og gauragangurinn hefst fyrir alvöru. Í ljós kemur að myrkraöflin höfðu fiktað eitthvað við gestalistann í gegnum netið og kannast auðjöfurinn því ekki heldur við alla gesti sína. Hrollvekjudagskráin hans fer líka úr böndunum og gestirnir taka að týna tölunni einn af öðrum, yfirleitt með afar subbulegum hætti. Ef nautheimskur söguþráðurinn er umborinn, má finna nokkur ágæt hrollvekjuatriði í fyrri hluta myndarinnar, en um leið og tæknibrellurnar ná yfirhöndinni verður hún aðeins langdregin og þreytandi, auk þess sem endirinn verður að teljast afspyrnu vondur. Geoffrey Rush leggur sig fram við að stæla Vincent gamla Price með slökum árangri en tekur hlutverkið að öðru leyti ekki alvarlega. Aðrir leikarar sleppa naumlega frá sínu.
Romance
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Femínistinn Catherine Breillat virðist skipta karlmönnum í þrjá hópa: Kaldlynda karlmenn sem lítilsvirða og niðurlægja konur, karlmenn sem sækjast eingöngu eftir skyndikynnum og perra sem vilja tjóðra konuna áður en þeir geta athafnað sig. Að mati Breillat er konan þeim ekki aðeins undirgefin, heldur sækist hún eftir að láta drottna yfir sér í leit sinni að ást og umhyggju. Þess vegna sækir hún aftur og aftur til perrans sem rígbindur hana, keflar og handjárnar og leyfir hverjum læknanemanum á fætur öðrum að stinga hendi inn í leggöng sín til að finna fyrir nokkurra vikna gömlu fóstri hennar. Engu að síður vill konan rétta hlut sinn og tekur því á endanum til sinna ráða, en kynhvötin er aðalvopn kynjanna í valdabaráttu þeirra. Konan hefur það þó fram yfir karlinn, að hún getur fætt af sér nýtt líf, barn sem hún getur alið upp eftir eigin höfði. Flóra mannlífsins er vissulega margbrotin, en ég verð að játa, að ég skildi ekki sögupersónur myndarinnar. Einna helst virtist Breillat vera að lýsa eigin sálarkreppu og ótta við karlmenn, en ef myndin endurspeglar sálarlíf hennar, þarf blessuð konan á hjálp að halda. Má vera að ég sé of neikvæður. Kannski get ég ekki skilið reynsluheim konunnar, þar sem ég er karlmaður. Allavega virðist konum líka myndin mun betur en körlum í ljósi dómanna, sem hún hefur fengið til þessa á The Internet Movie Database og Amazon. Myndin er slök en þó alls ekki alvond. Hún vekur mann til umhugsunar og hneykslar viðkvæma, enda virðist Breillat telja það vænlegast til árangurs að láta allt flakka, sýna kynlífsathafnirnar, dagdraumana, læknaskoðunina og barnsfæðinguna í smáatriðum. Satt að segja hef ég ekki hlegið jafn mikið yfir kvikmynd síðan ég sá There is Something About Mary, enda þótt það hafi verið á allt öðrum forsendum og Breillat hafi örugglega ekki verið með hlátur í huga þegar hún gerði þessa mynd. Ég mæli þó frekar með frönsku kvikmyndunum L’Enfer eftir Claude Chabrol, Parfum d’Yvonne eftir Patrice Leconte og Un Coeur en Hiver eftir Claude Sautet. Það eru líka allt saman kvikmyndir eftir karlmenn. Hver skilur kvenfólk?
Stir of Echoes
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Kevin Bacon leikur heimilisföður sem fær ýmsar óhugnanlegar sýnir og martraðir á heimili sínu eftir að hafa verið dáleiddur í teiti hjá vinafólki þeirra hjóna. Brátt kemur í ljós, að þær varða bæði skuggalega fortíð hússins og ýmsa óorðna hluti þar í götunni, en heimilisfaðirinn glatar nánast geðheilsunni fyrir vikið og kemur engu öðru í verk en að leita skýringa á óhugnaðinum, eiginkonunni til mikillar arðmæðu sem verður svo til einskis var. Aðeins ungur sonur þeirra er sallarólegur yfir öllum hamaganginum, enda skyggn og í góðum tengslum við heimilisdrauginn, en á því átta foreldrarnir sig seint. Þetta er ósköp fyrirsjáanleg hrollvekja, sem missir dampinn fljótlega eftir að draugurinn birtist, enda spurningin fyrst og fremst sú hvenær heimilisfaðirinn taki sér tíma til að hlusta á hann og veita honum þá hjálp, sem hann þarf á að halda. Ef maður sættir sig við veruleikasýn spiritismanns, er þessi kvikmynd ágætt stundargaman, enda bæði vel leikin og ágætlega unnin, þótt endirinn verði að teljast óþarflega klisjukenndur. Margir hafa borið myndina saman við The Sixth Sense, enda spiritiski boðskapurinn sá sami í þeim báðum, en að öðru leyti eru þær ekkert of líkar.
Double Jeopardy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ung kona er sökuð um að hafa myrt eiginmann sinn og hlýtur þungan fangelsisdóm þrátt fyrir að hún haldi allan tímann fram sakleysi sínu og ekkert lík finnist. Brátt fer henni að gruna að eiginmaðurinn sé enn á lífi og reynir að komast út úr fangelsinu eins fljótt og auðið er til að leita hefnda og hafa aftur upp á barni sínu. Ósköp fyrirsjáanleg og hefðbundin spennumynd en Ashley Judd og Tommy Lee Jones bjarga gloppóttu handritinu fyrir horn með úrvals leik.
American Beauty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það var sannarlega ánægjulegt, að þessi bleksvertugamanmynd skyldi hafa verið metin að verðleikum við óskarsverðlaunaafhendinguna nú í ár. Hún átti það skilið. Kevin Spacey er alveg frábær sem sögumaðurinn að handan, sem útskýrir fyrir áhorfendunum hvers vegna hann var myrtur. Söguramminn minnir að því leyti á gömlu bleksvertugamanmyndina Sunset Boulevard eftir Billy Wilder, en aðstendendur American Beauty þökkuðu honum sérstaklega fyrir myndir hans við óskarsverðlaunaafhendinguna.
Mrs. Soffel
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Athyglisverð sannsöguleg kvikmynd um heittrúaða eiginkonu fangelsisstjóra í upphafi tuttugustu aldarinnar, sem lætur sér annt um velferð fanganna og heimsækir þá reglulega til að boða þeim fagnaðarerindið og leiða þá á rétta stigu. Þegar hún kynnist tveim ungum dauðadæmdum bræðrum, verður hún ástfangin af öðrum þeirra og hjálpar þeim að flýja úr fangelsinu, en fyrir vikið brennir hún allar brýr að baki sér.
Anaconda
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Enda þótt Anaconda verði að teljast slök kvikmynd, þá er hún alls ekki jafn slæm og þessir ágætu gagnrýnendur halda fram hér að framan. Allavega getur sá vart hafa séð margar myndir, sem heldur því fram, að hann hafi ekki séð verri mynd en þessa, nema þá hann hafi bara verið svona lánsamur til þessa. Jennifer Lopez er það besta við þessa mynd og gerir það þess virði að líta á hana, en Jon Voight veldur vonbrigðum með ofleik sínum og sökkar alveg sérstaklega undir lok myndarinnar. Sjálf slangan virkar framan af ógnvænleg, en verður þó aðeins hjákátleg, þegar hún tekur að elta Lopez á röndum með yfirnáttúrulegum krafti.
Englar alheimsins
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég verð að játa, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með kvikmyndina Englar Alheimsins eftir allt hólið, sem hún hefur fengið á opinberum vettvangi. Vissulega er margt gott við hana, en hún er líka mistæk. Hinir geðsjúku eru flestir ef ekki allir mjög sannfærandi og vekja samúð áhorfandans, en á stöku stað ber nokkuð á formlegri og þvingaðri framsögn einstakra leikara, enda þótt oft hafi það verið verra í íslenskum kvikmyndum. Leikurunum er þó ekki alltaf um að kenna, því túlkun þeirra er byggð á handritinu og leidd af leikstjóranum. Margrét Helga Jóhannsdóttir var til dæmis mjög góð í hlutverki móðurinnar, en atriðið þar sem hún las upp úr stílabók sonar síns undir lok myndarinnar kom frekar illa út að þessu leyti. Versti galli myndarinnar er hins vegar tímaskekkjan. Aðalsöguhetjan er sögð fædd sama dag og NATO var stofnsett, en samt virkar hún þrítug eða jafnvel yngri í lok tíunda áratugarins, ef marka má tíðarandann, tískuna og bílaflota landsmanna í myndinni. Í raun ætti hún því að gerast einhvern tímann á áttunda áratugnum. Annar stór galli er viðmót starfsfólks Klepps í garð sjúklinganna og aðstandenda þeirra, sem virkar í mörgum tilfellum hranalegt og jafnvel ofbeldiskennt. Má vera að þetta hafi verið svona fyrr á öldinni, en þetta myndi tæpast líðast í dag. Framsetning myndarinnar er því þess eðlis, að hún gengur ekki sögulega upp, jafnvel þótt sagan sé að einhverju leyti byggð á sönnum atburðum. Geðsjúkrahús hafa þó oft komið verr út í kvikmyndum, t.d. í þeirri annars ágætu Betty Blue, sem gerð var í Frakklandi um miðjan níunda áratuginn, en þar var skilningsleysi starfsfólksins gagnvart aðstandandanum algjört. Samt er vel þess virði að sjá Engla Alheimsins, því handbragðið er að mestu gott, samtölin víða hnyttin og leikararnir margir góðir, sérstaklega þó Ingvar, Baltasar, Hilmir Snær, Björn og Theodór. Lokalagið er sömuleiðis stórgott. Myndin á ekki minna skilið en tvær og hálfa stjörnu, en ef tilvísuninni í NATO hefði verið sleppt eða myndin látin gerast á áttunda áratugnum, hefðu hún fengið meira, jafnvel þrjár og hálfa stjörnu.
A Simple Plan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Tveir treggáfaðir vinir og háskólagenginn bróðir annars þeirra finna fyrir tilviljun flak af lítilli flugvél í afskekktu skóglendi, sem enginn virðist vita neitt um, því það er á kafi í snjó og lík flugmannsins er enn um borð. Þegar þeir svo finna 4.500.000 um borð í flakinu, verða þeir ásáttir um að þegja yfir fundinum og stinga peningunum undan, enda sennilega hvort sem er illa fengnir og ógjörningur að rekja þá til þeirra. Háskólamenntaði bróðirinn setur þó það skilyrði, að peningarnir verði geymdir í fórum hans fram á vor til að sjá hvort nokkur muni vitja þeirra. Ef það gerist ekki, ætla þeir að skipta fengnum og flytja á fjarlægar slóðir þar sem enginn þekkir til þeirra og þeir geta lifað í vellystingum það sem eftir er. Sú bið reynist vinunum þó þrautin þyngri og áður en varir sýður upp úr á milli þeirra. Þetta er mjög góð og vel leikin spennumynd, þar sem áherslan er öðru fremur lögð á sérstæða persónusköpun og mannleg samskipti. Slík efnistök eru vandmeðfarin, en ganga fullkomlega upp í þessu tilfelli. Billy Bob Thornton er sérstaklega eftirminnilegur í hlutverki treggáfaða bróðurins, en persónutúlkanir hans hafa svo sannarlega verið fjölbreyttar á litríkum leikferli hans. Ákvörðun gáfaðri bróðurins að treysta á þagmælsku vinanna kann reyndar að virðast langsótt, en í ljósi skyldleika þeirra er hún kannski ekki svo undarleg eftir allt saman. Boðskapur myndarinnar er í stuttu máli sá, að óheilindi borga sig ekki, hversu smávægileg sem þau kunna að virðast í fyrstu. Lygi elur alltaf af sér lygi og glæpur enn verri glæp. Sömuleiðis eru kvennaráð bæði köld og lánlaus.
The Living Daylights
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það var svo sannarlega kominn tími til að senda Moore á eftirlaun og fá annan betri leikara í hlutverk ofurnjósnara breska heimsveldisins. Timothy Dalton er hörkugóður sem James Bond, enda túlkun hans augljóslega sótt til bókanna, þar sem hann var bæði karlrembusvín og skíthæll. Þrátt fyrir það verður myndin að teljast nokkuð mistæk, því aulafyndni í anda Moore myndanna skemmir fyrir auk mýgrúts mistaka, svo sem að beibið í skemmtisnekkjunni í upphafsatriðinu skyldi ekki taka eftir því, þegar herjeppi sprakk í tætlur svo að segja beint yfir henni rétt áður en Bond lenti þar heilu og höldnu í fallhlíf. Endirinn er sömuleiðis einn sá bjánalegasti, sem ég hef séð, en þar streyma afganskir skæruliðar beint frá heimalandi sínu á fund Bonds og yfirmanna hans í óperuna í Lundúnum, allir alvopnaðir og enn í fullum skæruliðaskrúða. Hvernig í ósköpunum komust þeir þangað frá flugvellinum þannig til fara? Joe Don Baker er auk þess vægast sagt slakur í hlutverki aðalskúrksins og Jeroen Krabbé hefur oft verið betri.
Last Action Hero
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Gerði John McTiernan virkilega þessa mynd? McTiernan sem gerði Die Hard? Ömurleg súperhetjumynd í teiknimyndasögustíl sem allir ættu að forðast. Það er ekkert gott við hana.
Live and Let Die
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fyrsta og besta James Bond mynd dýrlingsleikarans Roger Moores á því miður lítið skylt við bókina, sem var önnur í röðinni og ein sú besta um þennan heimsþekkta erindreka breska heimsveldisins með drápsleyfið. Samt má finna fleiri glefsur úr bókinni í þessu tilfelli en í öllum framhaldsmyndunum með Moore. Hér á hann í höggi við þeldökka eiturlyfjasmyglara í Bandaríkjunum, sem einskis svífast til að sölsa markaðinn undir sig. Bernard Lee sem M og Lois Maxwell sem Moneypenny eru góð að vanda en Desmond Llewelyn sem Q er sárlega saknað. Bond beibið Jane Seymour stendur fyrir sínu og Moore er öllu þolanlegri en í framhaldsmyndunum, þótt hann eigi ekkert í fyrirrennara sína í hlutverkinu, þá Connery og Lazenby. Það er einna helst að hann jafnist á við þá Nelson og Niven í Casino Royale hliðarmyndunum. Leikur þeirra David Hedison og sérstaklega Gloriu Hendry skemmir fyrir, en enginn er þó verri en fyrirbærið Clifton James í hlutverki nautheimskrar og með öllu ófyndinnar suðurríkjalöggu. Hefði hann verið klipptur í heild úr myndinni, hefði hún fengið tvær og hálfa stjörnu hjá mér í stað tveggja. Auk þess er það vart einleiki hversu bílar frá General Motors eru fyrirferðamiklir á götum Bandaríkjanna. Aðrar tegundir sjást vart í myndinni. Enda þótt ég hafi alla tíð verið mikill aðdáandi GM bifreiða, hefði ég kosið að sjá einnig bíla frá öðrum bandarískum bílaframleiðendum á götum New York borgar, svo dæmi sé tekið. Þannig sést vart annað en sama árgerðin af Chevrolet á ferð Bonds frá JFK flugvellinum til borgarinnar og er svo til eini fjölbreytileikinn litaúrvalið. Og ef þrjótarnir keyra ekki um á nýjustu Chevroletunum, eru þeir á snarfurðulega „köstomeruðum“ Kadillökkum.
The Spy Who Loved Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þetta var fyrsta James Bond myndin sem ég sá í kvikmyndahúsi og man ég enn eftir eftirvæntingunni sem gagntók mig, enda nýbúinn að uppgötva bækurnar. Þetta var 1. október árið 1979 og sat ég á þriðja bekk upp á svölum í Nýja Bíói á Akureyri með ungum jafnaldra mínum. Ég man þetta vegna þess að ég varðveitti bíómiðann í mörg ár eftir það. Ekki er þó hægt að segja að myndin hafi elst vel. The Spy Who Loved Me var fyrsta Bond myndin sem Albert R. Broccoli var einn um að framleiða, en hann vildi ná til stærri markaðshóps með því að gera seríuna fjölskylduvænni en verið hafði fyrsta áratuginn. Þessi óheillaþróun hófst í upphafi áttunda áratugarins með gerð Diamonds are Forever, slökustu Bond mynd Connerys, og einkenndi síðan allan feril Moores. Það er þó ekki við Broccoli að sakast að hann skuli ekki hafa byggt kvikmyndina á bókinni í þessu tilfelli, því þegar höfundur hennar, Ian Fleming, seldi kvikmyndaréttinn setti hann það skilyrði að aðeins mætti nýta titil sögunnar en ekki efni hennar. Margir þekktir handritshöfundar voru fengnir til að skrifa handrit að myndinni, en Broccoli hafnaði þeim öllum og ákvað í staðinn að gera ævintýramynd í teiknimyndasögustíl fyrir alla aldurshópa. Fyrir vikið sitjum við uppi með ósköp á borð við fígúruna Skolta, sem er hér samt skömminni skárri en í næstu mynd á eftir, Moonraker. Snillingurinn Orson Welles var um tíma fenginn til þess að skrifa handrit myndarinnar, en hann hvarf frá því verki eftir að Broccoli hafnaði tillögum hans. Hugmynd Welles um brjálaða skipakónginn, sem vildi eyða öllu lífi á yfirborði jarðar og reisa í staðinn stórborgir í undirdjúpunum, var engu að síður nýtt með nokkuð góðum árangri. Enda þótt Welles hefði örugglega orðið jafnflottur í hlutverki skipakóngsins og hann var sem þrjóturinn Le Chiffre í Bond myndinni Casino Royale, verður Curt Jurgens engu að síður að teljast til eftirminnilegustu skúrka seríunnar. „Njósnarinn sem elskaði mig“ er þó frekar slök Bond mynd, sem ástæðulaust er að eltast við nema maður hafi ekkert þarfara með tímann að gera. Ef slíkar aðstæður skyldu einhvern tímann koma upp, ber samt að velja breiðtjaldsútgáfuna.
The World Is Not Enough
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Svakalega var þetta góð Bond mynd, jafnast jafnvel á við bestu myndirnar frá sjöunda áratugnum eða allavega hátt í það. Pierce Brosnan er svo sannarlega rétti maðurinn í hlutverki Bonds og besti arftaki Connerys, sem gerði njósnara hennar hátignar ódauðlegan á sínum tíma. Skúrkurinn er sömuleiðis útfærður á eftirminnilegan og jafnvel frumlegan hátt, enda ekki við öðru að búast af öndvegisleikaranum Robert Carlyle. Sophie Marceau er þó alls ekki síðri í hlutverki gullfallegrar og leyndardómsfullrar konu, sem Bond er sendur til að gæta. Sem fyrr stendur Judi Dench sig vel sem M og jafnast alveg á við Bernard gamla Lee, sem var sárlega saknað allan níunda áratuginn. Aðrir aukaleikarar myndarinnar eru flestir góðir, svo sem Goldie sem kom skemmtilega á óvart. Um tíma óttaðist ég að John Cleese og Robbie Coltrane myndu skemma fyrir myndinni, en þeir sluppu sem betur fer fyrir horn þótt naumlega væri. Tónlistin reyndist alveg frábær og er þess óskandi að David Arnold fái að sjá um hana áfram í Bond myndunum eins og hann gerði í síðustu mynd Brosnans. Hann er besta Bondtónskáldið ásamt John Barry og mögulega Eric Serra. Ég mæli eindregið með The World is Not Enough í bíói, en auðvitað er hún ómissandi í DVD safn allra siðmenntaðra heimila, þegar þar að kemur.
Trois couleurs: Bleu
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Stórfenglegt listaverk og án efa ein af bestu kvikmyndum sögunnar. Frá því er ég sá Trois Couleurs Bleu fyrst, hefur hún verið ein af fjórum uppáhaldsmyndum mínum og horfi ég alltaf reglulega á breiðtjaldsútgáfu hennar á myndbandi. Leikstjóri myndarinnar, Krzysztof Kieslowski, er sömuleiðis uppáhaldskvikmyndagerðarmaður minn og mæli ég hiklaust með öllum myndum hans. Trois Couleurs Bleu er sú fyrsta af þremur, sem heitir eftir litum franska fánans, þ.e. „Þrír litir Blár“ á íslensku, en framhaldsmyndirnar nefnast „Þrír litir Hvítur“ og „Þrír litir Rauður“. Því miður varð þessi þrenna síðasta kvikmyndaafrek leikstjórans, en hann dó fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum. Blái liturinn fjallar í þessu tilfelli um frelsið, sem franski fánaliturinn stendur fyrir, en þar segir frá sorgarferli ungrar konu, sem missir bæði barn sitt og eiginmann í bílslysi en kemst sjálf lífs af. Hún reynir að bæla niður tilfinningar sínar með því að slíta öll tengsl við fortíðina og einangra sig frá umheiminum, en án árangurs því hvarvetna birtist lífið henni í öllum margbreytileika þess. Smám saman rennur það svo upp fyrir henni, að flóttinn frá vandamálunum leysir þau ekki, heldur vinnur kærleikurinn einn á þeim, samkenndin með náunganum og frelsið til að láta hana í ljós í verki. Djúphugsað kvikmynaafrek með ríku kristnu táknmáli, gullfallegri myndatöku og stórfenglegri tónlist sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
The Blair Witch Project
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mögnuð hrollvekja sem sýnir það og sannar, að rándýrar tæknibrellur eru ekki forsenda gæsahúðar heldur ímyndunaraflið. Myndin minnir örlítið á áströlsku hrollvekjuna The Long Weekend eftir Colin Eggleston án þess þó að um eftiröpun sé að ræða. Þvert á móti er The Blair Witch Project bæði frumleg og hugvitsamlega gerð spennumynd, þar sem ofurraunsæið bætir upp fjárskortinn. Endirinn gæti auk þess ekki verið betri og leikararnir eru allir frábærir. Vonandi eigum við eftir að sjá meira til þeirra á næstu árum. Ég las það einhvers staðar á netinu, að til stæði að fá Heather Donahue í aðalhlutverkið í nýrri endurgerð af últra-hrollvekjunni Suspiria. Vonandi verða það ekki örlög The Blair Witch Project að verða endurgerð af Hollywood leikstjóra á borð við Jan De Bont á næstunni, en slíkt virðist henda flestar bestu hrollvekjurnar þessa dagana. Sjáið endilega líka heimildamyndina The Curse of the Blair Witch. Hún fylgir myndinni á DVD disknum.
Fight Club
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ein fjölmargra expressionískra kvikmynda sem eiga rætur að rekja til Das Kabinett des Dr. Caligari, sem Þjóðverjinn Robert Wiene gerði árið 1919. Frásagnarmáti hefðbundinna raunsæissagna er látinn lönd og leið og áherslan þess í stað lögð á veruleikaskynjun og tilfinningar aðalsöguhetjunnar, sem oftar en ekki er á mörkum brjálseminnar ef ekki handan þeirra. Í stað martraðakenndra leiktjaldanna í Das Kabinett des Dr. Caligari kemur einmanakenndin og tilgangsleysið í grámyglu stórborgarinnar, en David Fincher leggur áherslu á það með dimmum tökustíl í drungalegum heimkynum ofbeldishneigðra og svo til siðblindra sögupersónanna. Í fyrstu stefndi Fight Club í að verða grunnhyggin ádeila á ofbeldisdýrkun nútímasamfélagsins, en áður en langt um leið varð dýpri merking myndarinnar ljós. Leikararnir eru allir góðir, Edward Norton sem hinn geðsjúki sögumaður myndarinnar, Brad Pitt sem siðlaus fyrirmynd hans, Helena Bonham Carter sem vinkonan, en sérstaklega þó Meat Loaf sem hinn aumkunarverði Bob. Að Seven ólastaðri er Fight Club tvímælalaust besta mynd Davids Fincher til þessa, en Alien 3 og The Game ollu báðar nokkrum vonbrigðum. Sem stendur gef ég Fight Club þrjár og hálfa stjörnu, en býst allt eins við því að eiga eftir að hækka hana upp í fjórar síðar meir.
Instinct
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Virtum mannfræðingi er vísað aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa framið tvö morð og stórslasað nokkra til viðbótar í tilteknu afríkuríki. Glæpinn framdi hann þegar leitarflokki tókst að hafa upp á honum á ný einhvers staðar í miðjum frumskógi, þar sem hann hafði búið með górilluöpum í tvö ár. Í stað þess að vera látinn sæta ábyrgð gjörða sinna í afríkuríkinu, er mannfræðingurinn sendur í fjötrum beint til Bandaríkjanna, þar sem ungur sálfræðingur er fenginn til að meta hann. Enda þótt mannfræðingurinn sé augljóslega andfélagslyndur, neiti að ræða við nokkurn mann og ráðist á flesta sem koma nálægt honum, sannfærist sálfræðingurinn brátt um heilbrigði hans og virðist jafnvel gera sér vonir um að fá hann leystan úr haldi þrátt fyrir fjandsamlega framkomu hans í sinn garð og ítrekaðar ógnanir. Ástæðan er sú, að mannfræðingurinn ákveður um tíma að yrða á hann. Tilraunir sálfræðingsins til að bæta hag skjólstæðingsins og annarra sjúklinga í geðsjúkrafangelsisstofnuninni falla ennfremur í grýttan jarðveg, enda eru verðirnir flestir sadistar, sem nota hvert tækifæri til að níðast á skjólstæðingum sínum. Þrátt fyrir góða frammistöðu helstu leikara myndarinnar, verður hún að teljast slök sökum klisjukennds og ósannfærandi handrits. Í rauninni er myndin samsuða úr fjölda annarra mun betri fangelsis- og læknamynda eins og One Flew Over the Cuckoo’s Nest og Awakenings. Viðhorf sögupersónanna eru oft lítt skiljanleg eins og mat sálfræðingsins á mannfræðingnum auk þess sem samtölin virka sums staðar einfeldningsleg. Gott dæmi um það er þegar mannfræðingurinn heldur því fram, að stórborgirnar séu lífshættulegri en frumskógarnir. Enda þótt Hopkins takist framan af að gera mannfræðinginn að áhugaverðri persónu með túlkun sinni, verður hún engu að síður að teljast illa skrifuð af handritshöfundinum. Hún virðist í senn eiga að vera ógnvekjandi og umhyggjusöm, kaldræn og heillandi, en sú samsetning gengur ekki upp í þessu tilfelli og framkoma persónunnar vekur fleiri spurningar en hún nokkurn tímann svarar. Frásögnin af morðunum undir lok myndarinnar skýrir að vissu marki hegðun mannfræðingsins en afsakar hana ekki. Endirinn kórónar svo alla vitleysuna þar sem mannfræðingurinn sleppur út úr geðsjúkrafangelsinu í Bandaríkjunum og heldur á ný inn í frumskóga Afríku jafn villimannslega til hafður og áður og að því er virðist enn í fangelsislöfrunum. Hvernig í ósköpunum komst hann þangað svo ekki sé talað um þannig til fara? Myndin virðist ennfremur eiga að vekja samúð áhorfandans með málstað frumskógardýranna og tekst það ágætlega með dæminu um slæman aðbúnað górilluapanna í búrum dýragarðanna. Hafi myndin hins vegar átt að sýna hversu siðmenningin hefur afskræmt hegðun mannanna með tilvísun sinni í sambúðarhætti górilluapanna í náttúrulegu umhverfi þeirra, missir hún óneitanlega marks. Auðvitað er líf dýranna áhugavert, en þar ríkir allt eins samkeppni, valdabarátta og ofbeldi eins og meðal mannanna. Og hefur siðmenningin ekki gert okkur kleipt að vinna bug á fjölda vandamála með tilkomu réttarkerfisins, læknavísindanna og heilbrigðisþjónustunnar? Spurningin hvað leit mannanna að betra lífi hefur kostað náttúruna er vissulega áhugaverð, en myndinni tekst ekki að svara henni.
South Park: Bigger Longer
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ekkert er heilagt fyrir aðstandendum þessarar teiknimyndar nema ef til vill ameríska væmnin, sem er á sínum stað. Ádeilan á þjóðfélag Bandaríkjanna á auðsjáanlega að vera hárbeitt en áorkar ósköp litlu þegar upp er staðið. Í raun er meðalmennskan helsta einkenni myndarinnar eins og sjá má af teikningunum, flestum bröndurunum og langdregnum tónlistaratriðunum. Myndin er þó sjaldnast leiðinleg og stöku brandari hittir í mark, en hún er ekki þess virði að eltast við. Þeir sem þykja hvers kyns sauryrði drepfyndin ættu þó að forðast myndina, því hún gæti orðið þeim að aldurtila. Ennfremur óskar maður þess óhjákvæmilega, að aðstandendur myndarinnar eigi aldrei eftir að verða á vegi Saddams Husseins.
Dial M for Murder
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ray Milland fer hér á kostum í hlutverki hraðlygins þrjóts, sem vill eiginkonu sína, Grace Kelly, feiga til að geta tryggt sér auðæfi hennar eftir að hafa komist á snoðir um framhjáhald hennar. Einstaklega skemmtileg Hitchcock mynd sökum frumlegs handrits leikritaskáldsins Frederick Knotts og góðs leiks þeirra Millands og Kellys. Eins og svo margar aðrar myndir Hitchcocks hefur hún verið endurgerð nokkrum sinnum með misjöfnum árangri, nú síðast undir heitinu A Perfect Murder með Michael Douglas í aðalhlutverki. Allar standa þessar endurgerðir þó mynd Hitchcocks langt að baki, enda var gamli meistarinn enginn aukvisi á sínu sviði.
For Your Eyes Only
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Með For Your Eyes Only var stigið skref í rétta átt frá hörmunginni Moonraker, en þau hefðu alveg mátt verða fleiri. Heiti myndarinnar er fengið frá smásagnasafni, sem kom út á íslensku undir heitinu Áhætta eða dauði, og var upphaflega skrifað fyrir sjónvarpsmyndaþáttaröð, er átti að framleiða í upphafi sjöunda áratugarins, en aldrei varð neitt af. Enda þótt kvikmyndin For Your Eyes Only sé öllu gáfulegri en Moonraker, ber hún þess samt merki, að aðstandendurnir hafi ekki verið vissir um hvers konar mynd þeir hafi ætlað að gera. Í henni má finna vel gerð spennuatriði eins og í smyglbækistöðinni í Albaníu, en víða annars staðar er andlaus aulafyndni alltof fyrirferðamikil. Tónlistin skemmir líka mikið fyrir, sérstaklega í hasaratriðunum, enda þótt titillagið sé alveg þolanlegt. Bondbeibið Carole Bouquet rétt sleppur frá sínu, en sögur hafa lengi gengið um það í fjölmiðlum, að hún hafi eitt sinn verið karlmaður. Lynn-Holly Johnson er hins vegar mun færari á skautunum sínum en á leiksviðinu, enda hefur lítið frést af henni á hvíta tjaldinu eftir þetta. Á stöku stað örlar fyrir viðunandi leik hjá Roger Moore, einkum þó í Albaníuhlutanum, en að öðru leyti minnir hann einna helst á Cary Grant í Hollywoodgamanmyndum frá því á fjórða áratugnum. Sem sagt miðlungs Bond mynd sem er í mesta lagi tveggja stjarna virði. Takið þó eftir Charles Dance í litlu aukahlutverki, en hann lék síðar Ian Fleming í sjónvarpskvikmyndinni Goldeneye árið 1989.
Run Lola Run
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Smáglæpamaðurinn Manni hefur týnt 100.000 marka peningasendingu, sem hann átti að færa vinnuveitendum sínum eftir 20 mín. Í örvæntingu sinni hringir hann í unnustu sína, Lolu, og segir henni, að geti hún ekki útvegað honum þá upphæð innan þess tíma, verði hann örugglega drepinn. Lola tekur þegar á sprett og leitar allra ráða til að bjarga kærastanum, en þar geta sekúndurnar skipt sköpum. Stórskemmtileg og afar fersk þýzk kvikmynd sem er virkilega þess virði að sjá og jafnvel eignast.
The Haunting
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ömurleg endurgerð einnar albestu hrollvekju sem ég hef séð. Í frumgerðinni frá 1963 sagði frá dulfræðirannsóknum mannfræðings nokkurs í gömlu yfirgefnu stórhýsi, sem alræmt var fyrir meinta reimleika, en til liðs við sig fékk hann tvær skyggnar konur og frænda eigandans, yfirlýstan efnishyggjumann. Ekki leið á löngu þar til ljóst varð, að í húsinu byggi eitthvað verulega illt, sem reyndi að ná tökum á gestunum, en fyrir vikið runnu rannsóknirnar út í sandinn. Þetta var reglulega óhugnanleg kvikmynd, þar sem áherslan var lögð á ímyndunaraflið og óttann við hið óþekkta. Hún var ennfremur stórfenglega vel gerð, myndatakan með því besta sem ég hef séð, tónlistin frábær og leikurinn óaðfinnanlegur. Annað mál gildir um endurgerðina. Þar ætlar sálfræðingur nokkur að gera vafasama rannsókn á ótta undir því yfirskini, að hann sé að rannsaka svefntruflanir nokkurra sjálfboðaliða, en til þess velur hann gamalt og drungalegt stórhýsi, sem enginn vill búa í vegna meintra reimleika. De Bont fellur í þá gryfju að sýna draugana og leita skýringa á öllu saman, sem oftar en ekki verða að teljast afar langsóttar, en fyrir vikið veit maður svo til allan tímann við hverju má búast og allur óhugnaðurinn hverfur. Auk þess fer tæknivinnan langt yfir strikið, þar sem draugarnir geta, rétt eins og í kvikmyndinni Poltergeist, breytt húsinu að vild, fært til veggi og loft og tekið sér bólfestu í styttum og veggmyndaútskurði. Myndin er því frekar illa gerð, ofhlaðin tæknibrellum og handritið klúðurslegt. Það er með ólíkindum, að hægt skuli vera að endurgera jafn góða mynd jafn illa fyrir jafn mikla peninga eins og raun ber vitni í þessu tilfelli. Og til hvers að endurgera kvikmynd, sem er fullkomin? Nær hefði verið að endursýna hana í kvikmyndahúsum, enda full ástæða til. Forðist sem sagt endurgerðina, en sjáið fyrir alla muni frumgerðina. Breiðtjaldsútgáfa hennar er fáanleg á myndbandi í Bretlandi, en auk þess er hún alltaf sýnd öðru hverju á TNT sjónvarpsstöðinni.
Eyes Wide Shut
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Kubrick var snillingur. Allt sem frá honum kom var gott og er þessi kvikmynd þar engin undantekning. Sem betur fer fór lítið fyrir strípli og bólförum aðalleikaranna, hjónakornanna Cruise og Kidmans sem reyndust bara stórgóð í hlutverkum sínum. Ekkasog Kidmans fóru þó örlítið í taugarnar á mér, þegar hún lýsti draumförum sínum um miðbik myndarinnar, en það verður samt að teljast alveg fyrirgefanlegt. Myndin gengur í stórum dráttum út á baráttu Cruise við gráa fiðringinn og misheppnaðar tilraunir hans til framhjáhalds, en fyrir vikið lendir hann fljótlega upp á kannt við magnaðann sértrúarsöfnuð sem virðist einskis svífast. Tónlistin er áhrifamikil, myndatakan góð og sviðsetningarnar óaðfinnanlegar. Myndin stendur fyllilega undir lengdinni og er aldrei langdregin. Ég mæli hiklaust með henni.
Heat
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fullkomnun. Hrein snilld. Hvað annað er hægt að segja? Þetta er örugglega með bestu spennumyndum, sem gerðar hafa verið, enda fór ég tvisvar á hana í kvikmyndahúsi, varð mér síðan við fyrsta tækifæri út um breiðtjaldsútgáfu hennar á myndbandi og keypti hana loks á DVD til að geta notið hennar til fulls. Al Pacino leikur hér lögregluforingja, sem leiðir morðrannsókn á nokkrum öryggisvörðum í hrottafengnu póstráni. Brátt kemst hann á hæla Roberts De Nero, sem hann grunar um að hafa stjórnað ráninu og bera ábyrgð á morðunum, og lýstur þeim saman í einum flottasta skotbardaga, sem sést hefur til þessa á hvíta tjaldinu, en þar með er eltingarleiknum engan veginn lokið. Michael Mann tekur sér góðan tíma til að kynna sögupersónurnar og fjölskylduhagi þeirra, en fyrir vikið sjáum við hvernig gjörðir þeirra hafa áhrif á þeirra nánustu. Þessi óvenjulega nálgun kemur þó alls ekki niður á spennuni, þvert á móti á maður auðveldara með að skilja sögupersónurnar og setja sig í spor þeirra í mjög svo hraðri atburðarrásinni. Hafi einhver slysast til að fá sér myndina hálfa, ætti sá hinn sami að kaupa sér hana aftur heila sem fyrst, enda breiðtjaldið nýtt til fulls í stórglæsilegri myndatöku.
Licence to Kill
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Besta Bond myndin í tvo áratugi. Timothy Dalton er sem fyrr hörkugóður í hlutverki Bonds og eru beibin Carey Lowell og Talisa Soto með þeim flottari í seríunni. Robert Davi sem suður-amerískur eiturlyfjabarón er sömuleiðis einn af eftirminnilegustu skúrkum hennar, en Bond segir skilið við bresku leyniþjónustuna til að leita hefnda á honum. Enda þótt ekki hafi verið notast við titil frá Bond sögunum hans Flemings í þessu tilfelli, er handritið klárlega byggt að hluta á bókinni Live and Let Die. Sjáið endilega breiðtjaldsútgáfuna.
Analyze This
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi gamanmynd um alræmdan mafíuforingja, sem leggur óheppinn sálfræðing í einelti með vandamál sín, er ágætt stundargaman en skilur lítið eftir sig. Robert De Niro og Billy Crystal standa sig báðir vel.
Octopussy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Enda þótt Octopussy sé ein skásta James Bond mynd Roger Moores, hefur hún elst fremur illa og getur vart talist annað en miðlungs góð. Kemur þar margt til. Aulahúmor í anda Moonraker myndarinnar bregður alltof oft fyrir, pólitíkin er einfeldningsleg og fáránlegur ofleikur Steven Berkoffs sem brjálaður sovéskur herforingi skemmir mikið fyrir. Moore leikur auk þess tæpast neitt frekar en fyrri daginn. Octopussy getur engu að síður reynst viðunandi stundargaman en versnar þó við enduráhorfun.
Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mikilvæg en nokkuð mistæk háðsádeila á vígbúnaðarkapphlaup risaveldanna á kaldastríðsárunum svonefndu. Sterling Hayden er stórkostlegur sem kolbrjálaður bandarískur herforingi, sem hleypir af stað þriðju heimsstyrjöldinni með fyrirskipun um kjarnorkusprengjuárás á Sovétríkin. Helsti veikleikinn er gamanleikarinn Peter Sellers, sem ofleikur hræðilega í öllum sínum fjölmörgu hlutverkum í myndinni.
Revolution
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Revolution er tvímælalaust ein af verstu kvikmyndunum, sem ég hef séð. Það er reyndar með ólíkindum hversu illa hefur tekist til með hana, því aðstandendurnir virðast hafa haft yfir talsverðu fjármagni að ráða við gerð hennar. Leikararnir eru fæstir aukvissar og ekkert virðist hafa verið sparað við sviðshönnun og búninga. Kvikmyndin er þó sönnun þess, að fjármagnið eitt dugi ekki til, því aðstandendurnir verði einnig að hafa einhverja hæfileika til að bera. Í þessu tilfelli virðist það ekki hafa verið, því allt fer úrskeiðis, sem mögulega gat farið úrskeiðis. Kvikmyndatakan er ömurleg, tónlistin vond, handritið stefnulaust og leikstjórnin engin, enda ráfa annars öndvegis leikarar á borð við Pacino og Sutherland um eins og þeir viti ekkert hvað þeir eigi að taka sér fyrir hendur. Revolution er svo slæm kvikmynd, að hún ögrar manni. Allavega ögraði hún mér svo mikið, að ég varð að útvega mér eintak af henni til þess eins að geta rifjað reglulega upp, að það væri virkilega til svo slæm kvikmynd.
The Killing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þetta film noir snilldarverk Kubricks er á topp 10 listanum yfir uppáhalds kvikmyndirnar mínar, jafnvel þótt hann stæli ef til vill fullmikið Asphalt Jungle eftir John Huston frá 1950. Eftirminnilegasti leikarinn úr báðum þessum myndum, Sterling Hayden, er hér stórgóður sem skipuleggjandi veðhlaupabrautarráns, sem virðist ætla að verða hinn fullkomni glæpur. Sagt er að Tarantino hafi verið undir sterkum áhrifum frá báðum þessum kvikmyndum þegar hann gerði Reservoir Dogs. Ef þið hafið ekki séð þær nú þegar, látið þá verða af því sem fyrst. Þær eru allar MÖST.
Star Wars: The Phantom Menace
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Stjörnustríðsseríunni hefur hrakað svo með hverri mynd, að allt eins má búast við, að sú síðasta verði hreinræktaður kalkúnn. Þetta er ein af þessum myndum, sem nauðsynlegt er að hafa fjarstýringu við höndina til að geta stytt sér leið yfir verstu leiðindin. Hún kom þó ekki að notum í þetta skiptið, þar sem ég horfði á myndina með heittrúuðum stjörnustríðsaðdáanda, sem tók ekki slíkt í mál, en jafnvel hann varð fyrir vonbrigðum með myndina. Ég mæli miklu frekar með fyrstu tveim stjörnustríðsmyndunum eða tónlistarmyndbandinu hans Weird Al Yankovics, en þar komst sagan öll til skila á örskotsstundu.
Office Space
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ron Livingston leikur forritara sem fer í dáleiðslumeðferð vegna streitu, en þar sem dáleiðarinn deyr áður en verkinu er lokið, helst hann dáleiddur það sem eftir er. Enda þótt hann missi þar af leiðandi með öllu áhugann á vinnunni, vanræki hana og segi yfirmanni sínum til syndanna, fær hann stöðuhækkun um leið og samviskusamir vinnufélagar hans missa vinnuna. Hann fær þá því til að leita hefnda á fyrirtækinu, en eins og sjálfsagt mátti búast við fer þar ekki allt eftir áætlun. Kaldhæðin gamanmynd í anda Dilberts og Billy Wilders sem er lengst af þriggja stjarna virði en missir því miður flugið undir lokin.
Casablanca
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sígilt listaverk og tvímælalaust með bestu kvikmyndum sögunnar. Hvert atriðið á fætur öðru er fyrir löngu orðið heimsþekkt enda er vísað til þeirra við ótal tækifæri. Humphrey Bogart og Ingrid Bergman eru bæði ógleymanleg í hlutverkum sínum og aukaleikararnir Peter Lorre, Sidney Greenstreet, Claude Raines, Paul Henreid og Conrad Veidt allir frábærir. Enginn getur kallast sannur kvikmyndaáhugamaður, sem ekki hefur séð þessa mynd.
The Mummy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Misheppnaður hrærigrautur af gamanmynd og hrollvekju sem er hvorki fyndinn né spennandi. Framleiðslukostnaður myndarinnar hefur augljóslega verið nokkur, en hann nær ekki að dylja andleysi höfunda hennar. Handritið er vont, hasaratriðin klisjukennd, persónusköpunin afleit og leikurinn í samræmi við það. Eina og hálfa stjarnan er veitt af miklum rausnarskap.
Diamonds Are Forever
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Aðstandendur kvikmyndarinnar Diamonds are Forever hefðu betur nýtt meira en titilinn úr þessari fjórðu bók Ian Flemings um njósnarann James Bond, því handritið stendur henni langt að baki. Það er sem þeim Broccoli og Saltzman hafi nú þótt fjárhagslega vænlegt að taka mið af fjölda misslakra skopstælinga á Bond myndunum með því að auka við aulahúmorinn og ólíkindin á kostnað spennunnar, en það sjónarmið einkenndi því miður framleiðslu þeirra næstu árin. Þrátt fyrir að Diamonds are Forever hafi orðið dýrasta Bond myndin fram til þessa og í raun mun dýrari en flestar framhaldsmyndirnar, er framleiðslan samt ótrúlega handahófskennd og metnaðarlaus. Kvikmyndatakan er þannig mun síðri en í fyrirrennurunum og klippingarnar klúðurslegar eins og til dæmis skiptin frá borpallinum í lok myndarinnar yfir til skemmtiferðarskipsins. Leikararnir eru sömuleiðis margir slakir, en sennilega engir þó meir en þau Jill St. John og Jimmy Dean. Charles Gray í hlutverki erkifjandans með hvíta köttinn líður jafnframt fyrir illa skrifað handrit og stendur Sean Connery langt að baki, sem vitaskuld lék Blofeld með sóma í Bond myndinni Thunderball. Gray hefur í raun oft gert betur, til dæmis sem njósnarinn er var myrtur fyrir framan nefið á Bond snemma í myndinni You Only Live Twice. Meira að segja Connery virkar nú áhugalaus í hlutverki helsta bjargvættis breska heimsveldisins, en hann mun aðeins hafa samþykkt að leika hann á ný eftir að framleiðendurnir buðu honum hæstu laun, sem nokkur leikari hafði þá fengið, auk þess sem kvikmyndafyrirtækið hét því að framleiða fyrir hann þrjár kvikmyndir að eigin vali. Launin lét Connery engu að síður renna óskipt í sjóð tengdum skoska þjóðernisflokknum, enda eindreginn stuðningsmaður hans. Þrátt fyrir alla annmarkana á Diamonds are Forever má samt finna góð atriði í henni eins og til dæmis slagsmálaatriðið í lyftunni og nokkur hnyttin tilsvör auk velheppnaðrar tónlistar og glæsilegs Mustangs, en því miður megnar ekkert af þessu að bjarga myndinni fyrir horn. Þeir, sem vilja sjá hana, ættu þó að velja sér breiðtjaldsútgáfuna, widescreen, því hún er mun betri á henni.
Entrapment
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Á sjöunda áratugnum var það How to Steal a Million en nú í lok þess tíunda er komið að How to Steal a Billion. Vel gerð spennumynd í anda gömlu stórþjófnaðamyndanna þegar lögbrjótarnir urðu hetjurnar og komust upp með nánast hvað sem er. Sean Connery stendur alltaf fyrir sínu og Catherine Zeta-Jones er jafn sæt sem fyrr. Helsti veikleiki myndarinnar er hins vegar á hversu skömmum tíma öll herlegheitin gerast auk ófrumlegs Hollywoodendis sem skemmir fyrir annars ágætu ‚plotti‘. Svo er það náttúrulega smekksatriði hversu viðeigandi eða sannfærandi ástarsamband Connerys og Zeta-Jones sé, en gamli maðurinn gæti vel verið afi hennar. Annað eins hefur svo sem gerst.
Under Siege
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hryðjuverkamenn sölsa undir sig bandarískt herskip til að komast yfir kjarnorkuvopn þess og sigla til móts við kafbát til að koma þeim undan, en eiga á leiðinni í höggi við skipskokkinn, sem gengur lausum hala og gerir þeim hverja skráveifuna á fætur annarri. Söguþráðurinn er klárlega stolinn frá bókinni The Golden Rendezvous eftir Alistair MacLean, sem gefin var út á íslensku undir heitinu Til móts við gullskipið fyrir mörgum árum. Helsti munurinn er sá, að í sögu MacLeans var söguhetjan fyrsti stýrismaðurinn og kjarnorkusprengjan um borð í farþegaskipi hans auk þess sem hryðjuverkamennirnir sigldu til móts við gullfluttningaskip. Atburðarrásin er að öðru leyti að mestu hin sama og má þar nefna smáatvik eins og þegar söguhetjan missir takið á kaðli við skipssíðuna en nær taki á honum á ný eftir að hafa velkst aðeins um í sjónum. Enda þótt Under Siege sé ekki kennd við Alistair MacLean, er hún mun betri en fyrri kvikmyndin, sem byggð var á sögu hans og var með þeim ágæta leikara Richard Harris í aðalhlutverki. Þetta er ennfremur besta kvikmynd harðhausaleikarans Steven Seagals á annars vægast sagt rislágum leikferli hans. Sem betur fer er Under Siege fáanleg á breiðtjaldi, widescreen, en þá útgáfu á að sjálfsögðu að velja, þegar horft verður á myndina.
Ransom
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er ekki oft, sem endurgerðirnar reynast betri en frumgerðirnar, en óhætt er að segja, að í þessu tilfelli hafi kvikmyndagerðarmanninum Ron Howard tekist það. Ransom er hin fínasta afþreying og Mel Gibson öflugur í hlutverki auðkýfingsins, sem segir mannræningjum sonar síns stríð á hendur.
Air Force One
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
John McClane Die Hard-myndanna orðinn forseti Bandaríkjanna? Harrison Ford stendur sig allavega jafn vel og Bruce Willis sem endaþarmsverkur ólánsamra hryðjuverkamanna, sem í þetta sinn verður það á að ræna einkaþotu Bandaríkjaforseta með honum og fylgdarliði hans um borð. Ótrúlega einfeldningsleg pólitík og pirrandi bandarískur þjóðernisrembingur draga þessa mynd þó talsvert niður. Ofleikur Gary Oldmans, sem er jafnan gráti næst yfir því, að heimurinn skuli ekki vera nákvæmlega eftir hans höfði, er þar að auki þreytandi til lengdar.
You Only Live Twice
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fram til þessa höfðu handritshöfundar Bond myndanna verið tiltölulega trúir bókum Ian heitins Flemings, en nú var illu heilli brugðið út af þeirri stefnu, enda þótt kvikmyndin You Only Live Twice eigi út af fyrir sig meira skylt með bókinni en flestar framhaldsmyndirnar, sem héldu aðeins eftir titlunum. Þetta þýðir þó ekki, að myndin sé með öllu vond. Connery er sem fyrr frábær í hlutverki njósnara hennar hátignar og jafnt kvikmyndatakan sem tónlistin eru til sóma. Það sem dregur myndina hins vegar niður eru fáein slæm mistök við vinnslu hennar og leiðinlegir gallar í handriti norska rithöfundarins Roald Dahls. Stýrið á hvítum sportbíl, sem Bond er farþegi í, er þannig ýmist hægra eða vinstra megin, þar sem filman hefur bersýnilega snúist við, og aldrei þessu vant drekkur Bond Martini drykkinn sinn hrærðan en ekki hristann! Þar að auki er eitt helsta bílahasaratriði myndarinnar óvenju heimskt, þar sem Bond sér í bílasjónvarpi, hvernig þyrla kemur honum til bjargar með því að hrífa upp bifreið þrjótanna á eftir honum með stórum segli og varpar henni síðan niður í hafið í fjarska. Að lokum er með ólíkindum, hvernig Bond tekst á síðustu stundu að hafa upp á oftar en ekki fyrirferðamiklum aukabúnaði, eins og til dæmis við bækistöðvar hryðjuverkasamtakanna SPECTRA í japönsku eldfjalli, þar sem honum tekst fáklæddum að verða sér út um viðeigandi bardagabúning með sogskálum og öllum græjum áður en hann heldur inn í þær. Þrátt fyrir þessa galla verður myndin að teljast góð, enda gef ég henni tvær og hálfa stjörnu. Þar sem myndin var auk þess gerð í Panavision, er ekki horfandi á hana á myndbandi nema á breiðtjaldi, þ.e. widescreen.
Conspiracy Theory
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mel Gibson veldur vonbrigðum með ofleik sínum í þessu langsótta og illa skrifaða tilbrigði við gamla samsærisþrillerinn The Manchurian Candidate frá árinu 1962. Sjáið hana miklu frekar.
The Corruptor
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Satt að segja bjóst ég við enn einni harðhausaklisjunni, þegar ég var svo að segja neyddur inn á þessa kvikmynd, en hún kom sem betur fer ánægjulega á óvart sökum frumlegs handrits. Þar að auki var gott að sjá Hong Kong leikarann Yun-Fat Chow úr myndum John Woos á nýjan leik.
Airplane!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sígild gamanmynd sem færði aulahúmorinn á æðra plan með frábærri útfærslu. Myndin hæðir kvikmyndirnar Zero Hour frá 1957, Flight into Danger frá 1960 og Flug in Gefahr frá 1964 sundur og saman í háði, en þær voru byggðar á vinsælu útvarpsleikriti Arthurs Hailey, sem var síðar gefið út sem skáldsaga í samvinnu við John Castle og kom út í íslenskri þýðingu undir heitinu Lending með lífið að veði. Sjaldan ef nokkru sinni hefur sögu verið slátrað með svo eftirminnilegum hætti eins og þessari. Svo sannarlega djúphugsað handrit og leikurinn í senn háalvarlegur og ótrúlega fyndinn. Alveg eins og saga Haileys ól af sér fjölda framhaldsmynda á borð við Airport myndirnar, fylgdu fjölmargar misgóðar stælingar í kjölfar þessarar gamanmyndar.
Indiana Jones and the Temple of Doom
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þegar fornleifafræðingurinn Indiana Jones tekur að sér að finna helgan stein fyrir örvæntingafulla þorpsbúa, sem verða á vegi hans í óbyggðum Indlands, kemst hann í kast við óða Kalídýrkendur, sem ástunda mannafórnir og barnaþrælkun. Ég varð fyrir vonbrigðum, þegar ég sá þessa mynd á sínum tíma í kvikmyndahúsi, en það kom mér engu að síður á óvart hversu slæm hún reyndist vera, þegar ég rifjaði hana upp um daginn á myndbandi. Tveir af aðalleikurunum, þau Kate Capshaw og Jonathan Ke Quan, eru með öllu óþolandi í illa skrifuðum hlutverkum sínum og aukaleikararnir eru flestir litlu skárri. Tæknivinnan er auk þess ótrúlega slæm, svo sem þegar flugvélin ferst í fjallshlíðinni snemma í myndinni og í eltingaleiknum á námuvögnunum, þar sem brúðurnar eru augljósar. Skónotkun Kate Capshaws verður ennfremur að teljast ótrúverðug, en um þá skiptir hún reglulega í myndinni, ekki síst í hasaratriðunum, og um tíma er hún meira að segja berfætt áður en hún fær sér sandala á flóttanum frá námugöngunum að hengibrúnni. Í rauninni er vart hægt að finna það atriði í myndinni, sem ekki er að einhverju leyti áfátt í handriti, leikstjórn eða tæknivinnu. Enda þótt Spielberg og Lucas hafi reynst mistækir kvikmyndagerðarmenn, er slík handvömm óvenjuleg fyrir þá. Aðeins Harrison Ford er góður í myndinni og fær hann þessa hálfu stjörnu og verður sá dómur að teljast sanngjarn.
Vertigo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Alveg frá því ég sá Vertigo fyrst fyrir um það bil 12 árum síðan hefur hún verið uppáhalds bíómyndin mín. Kvikmyndagagnrýnendur um allan heim virðast líka á einu máli um ágæti hennar, enda gefa þeir henni fullt hús stiga í svo til öllum þeim handbókum, sem ég hef litið í, og telja hana ósjaldan til bestu mynda sögunnar. Mikilvægi Vertigo er allavega ótvírætt, en það sést meðal annars af því, hversu oft hún hefur verið stæld af kvikmyndagerðarmönnum á borð við Brian de Palma og Paul Verhoeven. Alfred Hitchcock var afkastamikill frumkvöðull á sviði spennumynda og margar mynda hans eru enn í dag jafn stórfenglegar og þær þóttu á sínum tíma, enda þótt sumar verði óneitanlega að teljast orðnar gamaldags og einstaka jafnvel slæmar. Vertigo hefur engu að síður staðist vel tímans tönn, enda þótt ekki sé meira sýnt en þótti sæmandi árið 1958, þegar hún var gerð. Mikilvægi Hitchcocks liggur nefnilega ekki síst í því, sem hann gefur í skyn og lætur ímyndunaraflinu eftir. Sagan í Vertigo er þess eðlis, að best er að vita sem minnst um hana áður en horft er á myndina, en ástæða er þó til að geta þess, að endirinn er einn sá alflottasti, sem gerður hefur verið. Sömuleiðis er leikur þeirra James Stewards og Kim Novaks framúrskarandi að ógleymdri hreint út sagt frábærri tónlist snillingsins Bernard Hermanns. Árið 1996 var Vertigo sett á markaðinn á nýjan leik eftir að hafa verið endurunnin ramma fyrir ramma eins og gert var við perlurnar Spartacus, The Bridge on the River Kwai og The Guns of Navarone og hljóðsett í THX, þannig að hún er nú sem ný. Endurunna útgáfan á breiðtjaldsformi, widescreen, er bæði fáanleg á myndbandi og DVD á NTSC kerfinu, en hana ber að sjálfsögðu að velja, þegar horft verður á myndina. Enginn kvikmyndaáhugamaður ætti að láta Vertigo fram hjá sér fara.
Payback
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Kvikmyndin Payback reyndist stórgóð endurgerð af snilldarverkinu Point Blank frá árinu 1967, sem þó verður að teljast betri enda fjögurra stjörnu mynd. Mel Gibson er jafn sannfærandi og Lee Marvin í hlutverki glæpamannsins, er snýr aftur til að leita hefnda og innheimta hlut sinn af ránsfengnum, sem eiginkona hans og samstarfsmaður höfðu af honum, þegar þau reyndu að drepa hann eftir vel heppnað rán. Ég mæli eindregið með báðum myndunum en þó aðeins á breiðtjaldi. Point Blank er sýnd reglulega í réttum hlutföllum á sjónvarpsstöðinni TNT.
Star Wars: Return of the Jedi
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Segja má, að þriðja stjörnustríðsmyndin hafi verið nauðsynleg, þar sem sögunni var enn ólokið. Hún verður engu að síður að teljast mun síðri en fyrirrennararnir vegna oft á tíðum bjánalegs prúðuleikarabrags hennar og helst til þunns og langdregins söguþráðar. Óvíst er hvort nokkur börn endis yfir henni til lengdar án fjarstýringar með hraðspólun nema allra hörðustu aðdáendur fyrstu tveggja stjörnustríðsmyndanna. Sjálfsagt hefðu skærin getað bætt myndina eitthvað en handritið er þó megin vandamál hennar. Ég myndi aldrei nenna að horfa á þessa mynd aftur.
Thunderball
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hryðjuverkasamtökin Spectra ræna tveim kjarnorkusprengjum úr fórum Englendinga og hóta að sprengja þær í hvaða borg sem er í heiminum nema þau fái greidda svimandi háa upphæð í óslípuðum demöntum innan skamms. James Bond er eins og allir aðrir starfsmenn bresku leyniþjónustunnar sendur út af örkinni til að finna kjarnorkusprengjurnar og hafa sem fyrst hendur í hári hryðjuverkamannanna. Hann kemst fljótlega í kynni við fegurðardísina Domino Claudia Auger og fjárhaldsmann hennar, Emilio Largo Adolfo Celi, sem hann grunar með réttu, að standi að baki ránsins og hótunarinnar. Thunderball er með bestu Bond myndunum, enda hefur hún allt, sem til þarf. Connery er sem fyrr stórgóður í hlutverki Bonds og Claudia Auger með glæsilegustu leikkonum seríunnar. Thunderball var ennfremur fyrsta Bond myndin, sem tekin var í Panavision, en fyrir vikið er vart horfandi á hana á myndbandi nema hún sé á breiðtjaldi widescreen. Never Say Never Again frá árinu 1983 var óþörf endurgerð af Thunderball og nú hefur heyrst, að einhverjir framleiðendur í Hollywood hafi í hyggju að kvikmynda hana í þriðja sinn, enda þótt enn sé ekki orðið ljóst hvort af því verði.
Goldfinger
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Byrjunaratriðið í Goldfinger er eitt það flottasta í kvikmyndasögunni og titillagið ekki síðra. Goldfinger er ein af þeim myndum, sem hægt er að horfa á aftur og aftur og er alltaf jafn skemmtileg. Hún er ennfremur sönnun þess, að Connery lék ekki Bond, hann ER Bond. Gert Frobe fer sömuleiðis á kostum sem einn eftirminnilegasti þrjótur Bond myndanna. Goldfinger er því tvímælalaust ein af bestu myndunum um njósnara hennar hátignar og ætti enginn að láta hjá líða að sjá hana.
Very Bad Things
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Bleksvertuhúmorinn í kvikmyndinni Very Bad Things kom ánægjulega á óvart, enda fátítt að svona ferskar gamanmyndir reki á fjörur landsmanna frá Hollywood. Það eina sem ég var ósáttur við var bláendirinn, sem reyndist full farsakenndur. Hann kemur þó tæpast niður á handritinu, sem heldur myndinni uppi að leikurunum og öðrum aðstandendum hennar ólöstuðum. Ég bíð því spenntur eftir næstu mynd Peter Bergs.
BASEketball
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Enda þótt ádeilur á íþróttafárið séu fyrir löngu orðnar tímabærar, ristir þessi tæpast djúpt. Engu að síður má hafa gaman af nokkrum ágætum bröndurum í myndinni, sem gerir það að verkum, að hún er vel þess virði að sjá, hafi maður ekkert þarfara með tímann að gera. Frammistaða leikaranna er ennfremur eins og búast má við af aulahúmorsmyndum, en Victoria Silvstedt stelur þó óneitanlega senunni.
Moonraker
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Kvikmyndin Moonraker er furðulegt fyrirbæri. Bókin var látin lönd og leið að undanskildum titlinum og nafni aðalsöguhetjunnar og fáránleg endaleysa spunnin í staðinn um geimskutluhvarf, sem endar með alls ófyndinni stjörnustríðsskopstælingu. Broccoli hefur greinilega ætlað sér að græða á velgengni fyrstu stjörnustríðsmyndarinnar, sem þá halaði inn stjarnfræðilegar upphæðir í tekjur, með því að framleiða James Bond geimmynd í teiknimyndasögustíl fyrir dæmigerða þrjúbíósýningargesti, er láta sig gæði og glóru engu varða og borga sig inn á nánast hvaða hasar sem er. Niðurstaðan varð bæði furðulegasta og versta James Bond kvikmynd seríunnar og verður það met vonandi aldrei slegið. Þó væri fyrsta klukkutíma myndarinnar ekki alls varnað, ef fyrirbærið Skolti yrði klippt út í heild ásamt vondu hasaratriði úr Feneyjum og sú heimska fyrirgefin, að erkifjandi myndarinnar hefði getað flutt heilan evrópskan skóg með sveitarsetri, þorpum og öllu tilheyrandi inn í miðja eyðimörk einhvers staðar í Norður-Ameríku. Franska skapgerðarleikaranum Michael Lonsdale tekst vel upp sem moldríkur ‚Hitler‘, sem á sér þann draum æðstan að kynbæta mannkynið og drottna yfir því. Bond beibin Lois Chiles og Corinne Clery eru sömuleiðis með þeim betri úr Bond myndunum og meira að segja Moore sýnir smá leiktilþrif sem njósnari hennar hátignar í fyrri hlutanum. Ekkert af þessu dugar þó til að hefja myndina upp í eina stjörnu, slík er endaleysan, heimskan og húmorleysið. Mistök tröllríða líka myndinni eins og þegar Corinne Clery klæðist ýmist sandölum eða háum dökkum leðurstígvélum á flótta sínum undan morðóðum Doberman hundum erkifjandans í evrópska skóginum, sem hann flutti yfir Atlantshafið. Það er lýsandi fyrir myndina, að þetta skuli vera besta atriði hennar. Myndin hefur sömuleiðis eina verstu leikkonuna, sem sést hefur á hvíta tjaldinu, þ.e. unnustu Skolta. Moonraker er því framan af slæm, en frá því er Bond heldur til Brasilíu um miðbik myndarinnar, verður hún sannkallaður kalkúnn. Geta þessi ósköp í raun talist sönn Bond mynd? NEI Varist hana, meira að segja á breiðtjaldinu.
On Her Majesty's Secret Service
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Flestir meðlimir James Bond aðdáendaklúbbsins í Bretlandi munu vera sammála um ágæti kvikmyndarinnar On Her Majesty’s Secret Service og telja hana til bestu myndanna um njósnara hennar hátignar. Það kemur líka ekki á óvart, enda er framleiðslan öll vandvirknisleg og handritið í samræmi við bókina. Það eina, sem hægt er að setja út á myndina, er heldur stirðbusaleg framsögn George Lazenbys á köflum enda með öllu óreyndur leikari, en hann venst sem á líður og sýnir meira að segja stórgóðan leik, er hann leggur á flótta frá bækistöðvum Blofelds eftir miðja mynd. Það er miður, að Lazenby skuli hafa hafnað samningnum um að leika í fleiri Bond myndum eftir þessari, því hann reyndist mun betri en arftakinn Roger Moore í hlutverkinu. Hasaratriðin eru jafnframt þau bestu, sem sést hafa í Bond myndum bæði fyrr og síðar. Takið sérstaklega eftir Cougarinum, sem er æðislegur í myndinni. Einhverja hluta vegna var myndin stytt um 15 mín. þegar hún var fyrst færð yfir á myndband, en árið 1995 var hún sem betur fer gefin út á ný í réttri lengd, enda skýrðust þá margir lausir endar í söguþræðinum. Ástæða er því til að vara við eldri útgáfum af myndinni á myndbandsspólum. Sömuleiðis er ástæða til vara við þeim eintökum, sem ekki eru á breiðtjaldsformi widescreen, enda er myndramminn á kvikmyndatjaldinu nýttur út í æsar í stórglæsilegri kvikmyndatöku. Það gefur auga leið, að þegar 50% myndflatarins hafa verið skorin burt, er myndin handónýt. Það er því með ólíkindum, að breiðtjaldsútgáfunni skuli hafa verið hafnað, þegar myndin var sett á markað hér á landi með íslenskum texta.
The Shining
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
The Shining er frá upphafi til enda ein af bestu draugahrollvekjum kvikmyndasögunnar, enda ekki við öðru að búast frá hendi meistara Kubrick. Leikstjórn, kvikmyndataka og tónlist er frábær og ofleikur Jack Nicholsonar slíkur unaður að hann kemst leikandi upp með hann. Sjálft draugahótelið er sömuleiðis magnað og á það ekki síst þátt í hrollvekjandi áhrifum myndarinnar. Meistaraverkið The Haunting eftir Robert Wise frá 1963 er kannski eina draugahrollvekjan sem gæti talist betri en þessi. Til eru að minnsta kosti tvær útgáfur af The Shining, önnur 144 mín. löng en hin aðeins 119 mín. Sú styttri var gefin út á myndbandi hér á landi og sýnd í sjónvarpi, en lengri útgáfan og sú betri er fáanleg á NTSC kerfinu. Eins og gefur að skilja er lengri útgáfan mun fyllri. Nicholson er þar til dæmis ekki jafn snöggur að tapa glórunni og skýringar veittar á ýmsum lausum endum í styttri útgáfunni. Ég gef lengri útgáfunni þrjár og hálfa stjörnu en þeirri styttri aðeins þrjár stjörnur. Að lokum þetta: Fyrsti James Bond leikarinn, Barry Nelson, er með smá hlutverk í The Shining. Takið eftir honum.
Citizen Kane
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Frumraun Orsons Welles á hvíta tjaldinu er fyrir löngu orðin sígild. Eftir að hafa hrætt líftóruna úr þorra Bandaríkjamanna með óhefðbundinni uppfærslu á útvarpsleikritinu Innrásin frá Mars eftir sögu H.G. Wells, var honum boðið til Hollywood til að gera kvikmynd að eigin vali. Að 25 ára gamall leikari fengi frjálsar hendur með fyrstu mynd sína var einsdæmi, en Welles sýndi svo sannarlega hvað í honum bjó með þessu mikilvæga tímamótaverki. Frásögnin var ekki aðeins óhefðbundin og fersk, heldur reyndist kvikmyndatakan einstök, enda nýjustu tækni beitt með hugkvæmum hætti. Ekki líkaði þó öllum myndin, þegar hún var frumsýnd og fór hún sérstaklega fyrir brjóstið á einum voldugasta fjölmiðlakóngi Bandaríkjanna á þeim árum, William Randolph Hearst, sem taldi sig hafa verið fyrirmynd góðborgarans Kanes. Beitti hann því öllum ráðum til að hindra dreifingu myndarinnar og rakka hana niður opinberlega, þar sem honum þótti hún draga upp niðrandi mynd af sér og ástkonu sinni, sem sögð var með öllu hæfileikalaus söngkona. Það var því ekki fyrr en löngu síðar, að gagnrýnendur tóku myndina í sátt og hún varð jafn vinsæl og hún er enn í dag. Þetta er ein af þeim myndum, sem allir ættu að sjá.
The Thin Red Line
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Áhrifamikil og eftirminnileg stríðsmynd þar sem sálarkreppa hermannanna á vígvellinum er þungamiðjan. Myndin er fagmannlega gerð, myndatakan stórkostleg og leikurinn óaðfinnanlegur. Það var sannarlega kominn tími til að sjá eitthvað meira frá hendi Malicks og vonandi verður þetta ekki síðasta mynd hans. Ég verð þó að játa, að mér þótti sífelldu tilvistarspekilegu vangavelturnar eilítið þreytandi til lengdar.
Dr. No
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fyrsta James Bond myndin var í raun Casino Royale, sem William Brown gerði árið 1954 með Barry Nelson í aðalhlutverki. Dr. No var hins vegar fyrsta myndin í ‘seríu’ þeirra Broccolis og Saltzmans og sú sem festi njósnara hennar hátignar á spjöld sögunnar svo um munaði, enda hefur hún nú þegar alið af sér tuttugu framhaldsmyndir ef hliðarmyndirnar Casino Royale (1967) og Never Say Never Again (1983) eru taldar með auk óteljandi stælinga. Sömuleiðis urðu aðalleikarar myndarinnar, þau Sean Connery og Ursula Andress, að stórstjörnum og titillagið er fyrir löngu orðið sígilt. Þessar vinsældir myndarinnar eru engin furða, enda er Dr. No bæði frábærlega vel gerð og þrælspennandi. Ég mæli hiklaust með henni fyrir alla þá sem vilja sjá góðar njósnamyndir.
Speed 2: Cruise Control
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Speed II er álíka vond eins og fyrri myndin reyndist góð. Í þessu tilfelli æðir skemmtiferðaskip yfir allt og alla meðan Jason Patrick reynir hvað hann getur að bjarga málunum, en Sandra Bullock flækist bara fyrir með sífelldu nöldri og enginn virðist láta það á sig fá þótt fjöldi manns láti lífið. Ég hef svo sem aldrei hrifist af leikhæfileikum Keanu Reeves, en í samanburði við Patrick tel ég hann snilling. Bullock er auk þess aldrei þessu vant með öllu óþolandi í hlutverki sínu, en það helgast sjálfsagt fyrst og fremst af leikstjórninni og handritinu, sem er alveg misheppnað.
Star Wars: A New Hope
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fyrsta og besta stjörnustríðsmyndin markaði mikilvæg tímamót í kvikmyndasögunni með tækninýjungum sínum og vinsældum, enda ól hún af sér háværan aðdáendahóp, sem oftar en ekki hefur minnt á sértrúarsöfnuði í málflutningi sínum. Gott dæmi um það er eftirfarandi umsögn um þriðju stjörnustríðsmyndina, sem birtist hér á Kvikmyndir.is „Þeir sem ekki hafa séð Star Wars hafa misst tilgang lífs síns og eru dæmdir til þess að vera útskúfaðir frá hinum sem sáu þessa gimsteina, til EILÍFÐAR“ Enda þótt listrænt gildi kvikmyndarinnar kunni að vera ofmetið af þessum hópi, verður það að viðurkennast, að Stjörnustríð er velheppnuð barnamynd, sem seint mun gleymast. Það er þó með ólíkindum, að stjörnustríðsmyndirnar skuli ekki hafa verið gefnar út sem breiðtjaldsmyndir, þegar þær voru settar á myndbandamarkaðinn með íslenskum texta, því þær eru með öllu ónýtar hálfar.
Indiana Jones and the Last Crusade
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þegar Indiana Jones kemst að því, að faðir hans hafi horfið í Feneyjum, tekur hann við leitinni að bikarnum heilaga, sem Jesús Kristur notaði við síðustu kvöldmáltíðina. Ekki líður þó á löngu þar til í ljós kemur, að nazistarnir eru einnig á höttunum eftir bikarnum og svífast þeir einskis í þeim efnum, enda ábyrgir fyrir hvarfi föðurins. Hugmyndin að leit nazistanna að bikarnum heilaga er jafnvel enn betri en að leit þeirra að sáttmálsörkinni, því að Himmler mun hafa verið áhugasamur um hann og meira að segja gert út leiðangur til að finna hann. Auðvitað var það þó með allt öðrum hætti en í myndinni og árangurinn að sama skapi annar, enda goðsögnin um bikarinn í engu samræmi við frásögn guðspjallanna. Í heildina verður þessi kvikmynd um Indiana Jones að teljast ágæt skemmtun, en nokkur slök atriði skemma þó aðeins fyrir henni, t.d. byrjunaratriðið í lestinni. River heitinn Phoenix er engu að síður góður sem Indiana Jones á unglingsaldri og Harrison Ford stendur sig alltaf jafn vel. Alison Doody er jafnframt fullkomin sem þýzka skaðræðiskvendið og Sean Connery bjargar illa skrifuðu föðurhlutverkinu fyrir horn með afburðarleik. Og svo eru Þjóðverjarnir náttúrulega ómissandi, enda flottustu þrjótar í heimi.
Raiders of the Lost Ark
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fyrsta og besta Indiana Jones myndin er í raun sú tuttugasta og fjórða, ef sjónvarpsmyndirnar eru taldar með og þær hafðar í réttri atburðarás. Í þessu tilfelli er fornleifafræðingurinn Indiana Jones sendur af bandarísku leyniþjónustunni til að hafa upp á sáttmálsörkinni týndu úr Gamla testamentinu áður en þýzki herinn nær henni, en nazistarnir telja sig vera komna á slóð hennar í stórtækum uppgreftri í óbyggðum Egyptalands. Enda þótt nazistarnir hafi í reynd varið miklum tíma í leit að alls kyns dultrúarfornminjum á fjórða áratugnum, hafa þeir sennilega ekki leitað sérstaklega að sáttmálsörkinni. Engu að síður er hugmyndin að leit þeirra í myndinni mjög góð, því margir þeirra voru áhugamenn um þessi yfirnáttúrulegu fyrirbæri og töldu mögulegt að nýta þau sér til framdráttar. Harrison Ford er sem fæddur í hlutverk hetjunnar og Karen Allen er fín sem hjálparhella hans. Leitin að týndu örkinni er því í heildina mjög góð ævintýramynd og vel þess virði að sjá.
Ronin
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Svik á svik ofan í undirheimum evrópskra hryðjuverkamanna. Leikararnir eru flestir heimsþekktir, þar á meðal þrír fyrrverandi Bond-þrjótar, og standa þeir sig allir með sóma. Bílahasaratriðin eru sömuleiðis þrælvel útfærð og spennandi og jafnast alveg á við Bullitt enda þótt svo til eingöngu hafi verið notast við evrópska bíla í þessu tilfelli. Svarti fjögurra dyra Audiinn á 18 tommu felgunum kom þó ótrúlega vel út. Handritið er jafnframt óvenju ferskt og heilsteypt og sneiðir sem betur fer hvað eftir annað hjá klisjunni. Tvímælalaust langbesta mynd Frankenheimers í tvo áratugi, enda tími til kominn Horfist þó aðeins á breiðu, því tjaldið er nýtt til fulls, og algjört MÖST á DVD. Eftir að hafa séð Ronin í bíói gerði ég nefnilega þau mistök að horfa á hana aftur á litlum skjá í þotu Flugleiða, en þar var ekki aðeins skorið af hliðum hennar, heldur reyndist hún einnig talsvert stytt.
Star Wars: The Empire Strikes Back
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Enda þótt önnur stjörnustríðsmyndin verði að teljast síðri en sú fyrsta, er hún engu að síður viðunandi sem barnamynd. Breytingarnar, sem Lucas gerði nýverið á myndinni, eru líka til bóta eins og sjá má í suttri heimildamynd, sem fylgir henni á myndbandinu. Ekki er þó hægt að segja, að myndin sé neitt sérstaklega eftirminnileg, enda hafði ég að mestu gleymt efni hennar frá því er ég sá hana í bíói á sínum tíma og þar til ég rifjaði hana upp á myndbandi um daginn. Auk þess get ég ekki sagt, að fantasíuveröld eða framtíðarsýn myndarinnar hafi virkað sannfærandi eins og til dæmis fjórfættu bryndrekarnir í upphafi hennar. Þeir myndu örugglega teljast til misheppnuðustu hernaðartóla sögunnar.
Con Air
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Svo til alvond þvæla frá Jerry Bruckheimer, án efa helsta kalkúnaframleiðandnum í Hollywood um þessar mundir. Fyrstu mínúturnar reyndust þó viðunandi og leikaralistinn virtist lofa góðu, en áður en langt um leið hurfu glóran, gæðin og spennan eins og dögg fyrir sólu, enda myndin með eindæmum langdregin, ófyndin, illa skrifuð og hroðalega illa tekin. Það var hrein kvöl að þurfa að sitja undir henni. Varist hana, hún kemur manni aðeins í vont skap.
Enemy of the State
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hefðbundinn samsæristryllir í anda Hitchcocks þar sem söguhetjan er höfð fyrir rangri sök og hundelt um allar trissur eftir að allir hafa snúist gegn henni. Tony Scott, sem gerði meðal annars kvikmyndirnar Revange og The Hunger, nær svo sem að hefja myndina yfir meðalmennskuna með góðri leikstjórn og á köflum flottri kvikmyndatöku, en það er þó alveg á mörkunum, því handritið er bæði formúlukennt og langsótt. Myndin gæti því vel versnað við aðra áhorfun, en hana ber allavega ekki að sjá hálfa, því beiðtjaldsformið er jafnan nýtt til fulls.
The Prince of Egypt
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sagan af því þegar Guð kallaði Móse til að leiða lýð sinn út úr þrældóminum í Egyptalandi til fyrirheitna landsins er sígild. Enda þótt þessi teiknimyndaútfærsla eigi meira skylt við Cecil B. DeMille en II. Mósbók, er hún vel af hendi leyst og ætti að reynast flestum gyðingum, kristnum og múslimum ásættanleg. Það er full ástæða til að færa sögur Biblíunnar á hvíta tjaldið, enda er kvikmyndin það listform, sem nýtur hvað mestra vinsælda meðal almennings nú á dögum, og ritningin er hafsjór menningarlegra gullkorna, sem allir ættu að kunna skil á.
The Rock
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Virkilega þreytt hasarmynd þar sem glóran víkur með öllu fyrir átökunum. Sean Connery, Ed Harris og Nicholas Cage eru allir úrvalsleikarar, en engum þeirra tekst að bjarga myndinni fyrir horn sökum lélegs handrits, vondrar myndatöku og slæmrar stjórnar. Að þetta skuli vera besta mynd Michael Bays til þessa sýnir aðeins, að hann ætti að fá sér aðra vinnu sem fyrst, en það var einmitt hann, sem gerði kalkúninn Armageddon.
The Negotiator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þegar einn færasti sáttasemjari lögreglunnar í gíslatökumálum er sakaður um morð, grípur hann til þess örþrifaráðs að taka sjálfur gísla til að fá ráðrúm til að sanna sakleysi sitt. Afar ósannfærandi og fyrir vikið spennulaus sakamálamynd sem leikurunum tekst naumlega að bjarga fyrir horn með góðum leik.
Out of Sight
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sem betur fer koma öðru hverju perlur á borð við þessa fersku kvikmynd frá Hollywood. Jennifer Lopez og George Clooney fara svo sannarlega á kostum í hópi fjölda úrvalsleikara undir öruggri stjórn Stevens Soderbergh. Kvikmyndatakan er mögnuð og handritið hnyttið, enda vart við öðru að búast, þegar um skáldsögu eftir Elmore Leonard er að ræða. Michael Keaton leikur hér sama hlutverkið og í kvikmyndinni Jackie Brown, sem var sömuleiðis byggð á skáldsögu Leonards. Out of Sight er kvikmynd sem ætti að vera til á öllum siðmenntuðum heimilum, enda varð ég mér þegar út um DVD diskinn eftir að hafa séð hana í kvikmyndahúsi.
Clueless
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Alicia Silverstone er svo sannarlega hin dæmigerða Lolita holdi klædd og er því ósennilegt að nokkur hefði getað farið betur með hlutverkið en hún. Það er vel þess virði að sjá þessa ágætu unglingamynd, jafnvel oftar er einu sinni.
From Russia with Love
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Það er erfitt að gera upp á milli þessarar kvikmyndar og myndanna Dr. No, Goldfinger, Thunderball og On Her Majesty’s Secret Service, en hún er engu að síður uppáhalds James Bond myndin mín. From Russia with Love er í raun nánast fullkomin njósnasaga í anda bókanna hans Ian Flemings og er leikstjórn, kvikmyndataka, handrit, tónlist og leikur alls staðar til fyrirmyndar. Sean Connery fer líka á kostum í hlutverki James Bonds, enda engin furða að hann skuli jafnan vera talinn fremstur allra Bondanna. Lestaratriðið í myndinni er hreint út sagt frábært og ekki skemmir ’60 Fordinn fyrir þótt ‘Station’ sé.
The Nutty Professor
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Þessi stæling á sögunni um dr. Jekyll og hr. Hyde er í raun endurgerð af samnefndri gamanmynd með Jerry Lewis, sem gerð var árið 1963. Árangurinn er nokkuð mistækur en samt má hafa gaman af ýmsu í myndinni. Eddie Murphy tekst ágætlega upp í hlutverkum spikfeita prófessorsins, sem gerir tilraunir sínar á sjálfum sér, og skrautlegra fjölskyldumeðlima hans, en Viperinn stelur samt senunni.
GoldenEye
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eftir sex ára hlé kom loksins ný Bond mynd og það alveg stórskemmtileg. Um tíma gengu sögusagnir um það í fjölmiðlum, að Albert R. Broccoli hyggðist láta næstu mynd á eftir License to Kill fjalla um samband Bonds við föður sinn eins og Spielberg hafði gert í síðustu Indiana Jones myndinni, en sem betur fer varð aldrei af þeim ósköpum, enda hefðu þau vafalaust jafnast á við Moonraker, ef ekki hreinlega slegið hana út sem kalkúnn seríunnar. Þungu fargi var því af mér létt, þegar Goldeneye kom fram á sjónarsviðið, enda reyndist hún bæði þrælspennandi og óvenju vel skrifuð njósnamynd. Pierce Brosnan er ótrúlega góður sem James Bond og jafnast næstum því á við Connery í því hlutverki. Izabella Scorupco er sömuleiðis ekki aðeins langfegursta beib seríunnar, heldur einnig ein besta leikkona hennar frá upphafi. Ekki má heldur gleyma Sean Bean, sem er virkilega góður í hlutverki skúrksins, og Famke Janssen, sem er eftirminnileg sem eitt helsta handbendi hans. Leikstjórnin er góð, kvikmyndatakan glæsileg og tónlistin frábær. Örfá mistök, gallar og aulaskot í anda Moore myndanna skemma þó fyrir og draga myndina næstum því niður í tvær og hálfa stjörnu. Kaupið ykkur endilega Special Edition útgáfu myndarinnar á DVD.
A Perfect Murder
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Slæm endurgerð af Hitchcock myndinni Dial ‘M’ for Murder. Styrkleiki gömlu myndarinnar lá ekki síst í handritinu, þar sem fléttan kom hvað eftir annað á óvart og persónusköpunin var í senn margbrotin og heillandi. Í endurgerðinni hefur atburðarásin hins vegar verið einfölduð mikið og nokkrum klisjukenndum átakaatriðum skotið inn hér og þar. Hjá Hitchcock var þrjóturinn, sem var unaðslega vel leikinn af Ray Milland, bæði hraðlyginn og með eindæmum hugmyndaríkur, enda gat hann logið sig snilldarlega út úr hvers kyns ógöngum og ávallt snúið öllu sér í hag. Michael Douglas er hins vegar með öllu hugmyndasnauður fýlupoki, sem veit ekkert hvað til bragðs skuli taka, þegar fyrirætlanir hans ganga ekki alveg upp. Í rauninni var Milland mun nær því að takast ætlunarverk sitt en Douglas er nokkurn tímann í endurgerðinni og koðnar því spennan niður áður en varir. Auk þess voru þau Milland og Grace Kelly mun trúverðugra par en Douglas og Gwyneth Paltrow, sem eiga ekkert annað sameiginlegt en að auðsýna hvort öðru hina megnustu andúð. Persónusköpun þeirra er slík, að það er mér hulin ráðgáta hvernig þau gátu nokkurn tímann náð saman. Enda þótt frumgerðin sé á köflum eilítið gamaldags, stendur hún enn fyrir sínu sökum frumlegs handrits og góðs leiks, en breytingarnar í endurgerðinni eru allar til hins verra.
There's Something About Mary
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Afar fersk og óvenju fyndin gamanmynd um hreinræktaðan hrakfallabálk sem reynir hvað hann getur að vinna hug draumadísarinnar Maríu. Hann er þó ekki einn um að heillast af henni, því á eftir henni er einnig sægur skrautlegra og oftast vafasamra aðdáenda, sem beitir öllum brögðum til að komast í tæri við hana. Þetta er tvímælalaust með betri gamanmyndum, sem ég hef séð.
Face/Off
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Enda þótt kvikmyndatakan sé lengst af frábær og flestir leikararnir standi fyrir sínu, nær það ekki til að hefja þessa ofmetnu kvikmynd Hong Kong leikstjórans John Woos upp yfir meðallagið. Kemur þar einkum til afspyrnu heimskt handrit, þar sem leikur einn virðist vera fyrir sögupersónurnar að skipta um andlit með smá skurðaðgerð og blekkja síðan þorra manna með því að látast vera þeir, sem andlitin voru af. Woo kann sér auk þess ekki hófs í hasaratriðunum, sem fyrir vikið verða aðeins langdregin og þreytandi. Hard Boiled var mun betri.
Armageddon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Armageddon er tvímælalaust ein af verstu kvikmyndum sögunnar og slær jafnvel út hina alræmdu Plan 9 from Outer Space eftir Ed Wood. Kemur þar einkum til nautheimskur söguþráður um nokkra auðsjáanlega treggáfaða olíuborpallsverkamenn, sem af öllum mönnum eru sendir í snarheitum út í geiminn til að bora holu í risastóran loftstein, svo hægt verði að sprengja hann í tætlur með kjarnorkusprengju áður en hann rekst á jörðina og grandar öllu lífi á henni. Til öryggis hafa þeir jafnframt Gatling vélbyssur á borvélunum rétt eins og von sé á óvættunum úr Alien myndunum eða einhverju því um líku. Allt er þetta síðan sett fram með hraðri glundroðakenndri kvikmyndatöku og hverju fáránlega hasaratriðinu á fætur öðru, sem gera það eitt að drepa niður alla spennu, og kryddað með yfirgengilegri væmni og svo óþolandi bandarískum þjóðernisrembingi, að myndir á borð við Triumph des Willens blikna í samanburði. Þrátt fyrir allt Hollywood fjáraustrið við gerð myndarinnar, valda tæknibrellurnar víða vonbrigðum eins og logandi brak úti í geimnum og æði gervilegt umhverfið á loftsteininum. Þetta misheppnaða samkrull af hasar, vísindaskáldskap, andlausum húmor, spuna og stórslysamyndaþema gefur til kynna, að hvorki leikararnir né leikstjórinn hafi vitað út á hvað myndin átti að ganga, enda einsýnt, að launin ein hafi laðað að. Wood gerði myndir sínar af hugsjón og í þeim má finna vott af barnslegri einlægni, en hér ræður metnaðarleysið eitt ríkjum. Enda þótt Plan 9 from Outer Space sé með ólíkindum vond mynd, er skemmtanagildi hennar ótvírætt og eykst jafnvel við endurtekna áhorfun. Armageddon er hins vegar ekki aðeins hörmulega illa gerð, heldur hreint út sagt hundleiðinleg og allt of löng. Hún er skólabókadæmi um Hollywood framleiðendur, sem halda, að þeir geti sagt kvikmyndahúsgestum upp í opið geðið, að þeir séu svo heimskir, að það sé hægt að bjóða þeim upp á hvað sem er. Ég sé ekki aðeins eftir því að hafa borgað mig inn á myndina, ég er satt að segja sármóðgaður.
Jackie Brown
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Unaðslega góð kvikmynd um ráðsnjalla flugfreyju sem reynir að klóra sig út úr ógöngum eftir að hafa orðið uppvís að peningasmygli fyrir stórhættulegan vopnasala. Skáldsagan Rum Punch eftir Elmore Leonard var óneitanlega kjörin fyrir Quentin Tarantino, sem þegar hafði slegið í gegn fyrir kvikmyndirnar Reservoir Dogs og Pulp Fiction, frumleg en í senn afar persónuleg snilldarverk sem Jackie Brown jafnast fyllilega á við. Sem fyrr í myndum Tarantinos er réttur leikari í hverju hlutverki og persónusköpunin margbrotin. Pam Grier er ótrúlega heillandi í hlutverki flugfreyjunnar og veitir henni dýpt með lágstemmdum leik sínum. Það sama er að segja um Robert Forster, sem hefur sést allt of sjaldan á hvíta tjaldinu. Robert De Niro stelur þó senunni í hlutverki treggáfaðs síbrotamanns. Michael Keaton lék skömmu síðar sama lögreglumanninn aftur í kvikmyndinni Out of Sight, sem var einnig byggð á sögu eftir Leonard. Jackie Brown er sem betur fer fáanleg á breiðtjaldsformi, widescreen.