Gagnrýni eftir:
Captain America: The First Avenger
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sól og Sumargaman Sól og Sumargaman
Íslendingar þekkja Captain America ekki jafn vel og Superman. Það var samt gefið að kvikmynd um hann myndi njóta vinsælda hérlendis eins og flestar sumarmyndir sem innihalda 3-D, tæknibrellur og vöðvastæltan karlmann. Það eru ekki jafn miklar kröfur til svona kvikmynda. Áhorfandinn vill aðallega að hún líti vel út (bæði leikarar og umhverfi) og að sagan sé nógu áhugaverð.
Sagan gerist í seinni heimsstyrjöldinni. Hins vegar er helsti andstæðingur Bandaríkjamannanna ekki Adolf Hitler heldur yfirmaður vopnaþróunar hjá honum, Red Skull sem Hugo Weaving túlkar. Hann óhlýðnast Hitler og skapar sinn eigin her að nafni Hydra. Að sjálfsögðu einbeitir sagan sér samt meira að aðalpersónunni og þróun hennar úr veikburða manni í ofurmenni.
Chris Evans leikur Captain America. Áhorfandinn á auðvelt með að tengja sig við hann þar sem hann byrjar á botninum og endar á toppnum. Hayley Atwell er mótleikkona ofurhetjunnar en samband þeirra er samt ekki þetta hefðbundna Hollywood samband þó að það komi nálægt því.
Það er eitthvað við uppbyggingu og hraða myndarinnar sem gerir hana óvenjulega en undirritaður getur ekki útskýrt hvernig. Hvort sem það er jákvætt eða neikvætt er matsatriði en myndin er alla vega ekki eins og blómkálssúpan sem maður fær alltaf hjá ömmu. Það er kannski meira af rjóma eða einhverju álíka. Ekki nóg til að áhorfandinn hunsi klisjurnar en samt nóg til að vekja áhuga.
Captain America: The First Avenger er líklega þess virði að fara á í bíó ef þú þekkir til ofurhetjunnar eða vilt sól og sumargaman. Annars eru fáar ástæður til að borga sig inn á hana.
Jóhann Pálmar