Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



The Matrix Revolutions
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég get með engu móti skilið þá hræðilegu dóma sem þessi mynd er að fá hjá íslenskum dagblöðum. Ein aðalástæðan fyrir því er líklega sú að myndin er kannski pínulítið torskilin fyrir þá sem eru ekki alveg að skilja þann ramma sem hefur verið gerður um söguna í The Matrix, The Matrix Reloaded og Animatrix.

Það er vel hægt að skilja þá sem segja að hann Keanu Reeves sé ekki góður leikari, en frammistaðan hjá hinum aðalleikurunum bætir það upp.

Uppáhalds persónurnar mínar í myndunum eru án efa véfréttin gamla og hinn illkvittnislegi og hæðni karakter Smith-það er hreinasta synd að hún sem lék véfréttina í 1 & 2 skuli vera dáin.

Í þessari mynd er farið dýpra ofan í heiftarlegt stríð mannanna við vélarnar, sem mennirnir byrjuðu reyndar á, og geta bundið enda á.

Allt er komið á fullt skrið og má hvergi hika.


-Neo festist milli tveggja heima.

-Smithfjölskyldan flissar kvikindislega í eldhúsinu hjá véfréttinni.

-Véfréttin er búin að fara í andlitslyftingu.

-Morpheus er ennþá sköllóttur.

-Áður en langt er um liðið er Neo orðinn að gangandi spennubreyti sem lætur ljótar rafstraumssendingar bitna á aumingja manndrápsvélunum.

-Zion bíður átekta er vélarnar eru að bora sér leið niður að henni. Hljómar eins og Andrésar Andar-saga eftir Don Rosa, en er samt bara hluti af heimssýn Wachowskibræðra, og enginn Georg Gírlausi er við stjórnvölinn.


Sem sagt, maður getur haft mjög gaman af þessari mynd ef maður er eitthvað að skilja þennan skáldskap, en ef ekki, ætti hún bara að virka sem flott og vel gerð fantasía. Ef áhorfendur vilja spennandi mynd sem heldur manni bókstaflega föstum í bíósætinu, er þetta myndin. Sjálfur varð ég það hrifinn að ég tók varla eftir því að ég hafði klárað(fyrir hlé)um það bil lítra af gosi, og heilan risapoka af poppkorni, sem varð þess valdandi að svara þurfti háværu kalli náttúrunnar og sækja annan skammt af poppkorni og gosi. Eins gott að ég fór ekki á maraþonsýninguna svokölluðu.


Þessi mynd sver sig svo sannarlega í ætt við hinar tvær, en eru þær allar skrifaðar sem bara ein stór mynd klippt í 3 kafla.

Millikaflinn var kannski dálítið slappur en sá fyrsti og sá þriðji standa fyrir sínu.

Endirinn kom mér skemmtilega á óvart, og ætla ég ekki að kjafta frá...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei