Nýr Kvikmyndir.is væntanlegur

Gagnger endurhönnun hefur staðið yfir á kvikmyndir.is síðan í vor, en eigendur kvikmyndir.is fengu til liðs við sig vefhönnunarfyrirtækið Allra átta ehf. til að sjá um endurgerð síðunnar. Kominn var tími til að fríska upp á útlit og virkni síðunnar sem orðin er 10 ára gömul, og bæta við ýmsum nýjum hlutum. Meðal annars munum við kynna mun öflugra kvikmyndir.is -“samfélag” þar sem notendur geta gert ótal skemmtilega hluti inni á síðunni, þar á meðal búið til ýmsa nýja lista og klúbba um bíómyndir eða uppáhaldsleikarana sína, svo fátt eitt sé nefnt. Á forsíðunni verður einnig bættur til muna aðgangur að sýnishornum úr bíómyndum og öðru kynningarefni um bíómyndir, í vídeóglugga strax á forsíðunni. Það styttist óðum í að vefurinn verði settur í loftið en þangað til geta menn kíkt á meðfylgjandi skjámynd af nýju forsíðunni. Kvikmyndir.is hefur það að markmiði að vera leiðandi bíómyndavefur á Íslandi og nýi vefurinn er til marks um þann metnað sem býr að baki.