Pínu óþægilegt á OnlyFans

„Ég leik Kríu. Hún er dálítið svona persónuleiki sem er á Only Fans en finnst það pínu óþægilegt. Henni finnst svolítið erfitt að tilheyra þessari ákveðnu stétt vinnandi fólks,“ segir Edda Lovísa Björgvinsdóttir í samtali við Kvikmyndir.is. Hún fer með eitt aðalhlutverkanna í nýrri íslenskri kvikmynd, Einskonar ást, sem frumsýnd verður föstudaginn 19. apríl nk.

Only Fans er vefmiðill þar sem fólk á ýmsum aldri selur kynferðislegt efni.
Spurð um söguþráð kvikmyndarinar segir Edda að þó að vinna aðalpersóna myndarinnar á Only Fans komi við sögu þá sé myndin aðallega um ungar konur sem eru að reyna að finna sér leið í lífinu. „Það er fjallað um vináttu og ástarsambönd og leið þeirra í gegnum lífið. Hvernig er að vera nýorðin fullorðin og þær áskoranir sem blasa við þegar maður er ung kona.“

Var sjálf á OnlyFans í þrjú ár

Spurð um hvort hún viti til þess að margir Íslendingar séu að selja efni á Only Fans segist Edda Lovísa sjálf hafa gert það í þrjú ár. „Þá kynntist ég mikið af fólki sem er í þessari atvinnugrein. Ég kom því að þessari kvikmynd með reynslu og punkta sem handritshöfundurinn hafði ekki pælt í.“
Þannig segist Edda hafa lagt sitthvað af mörkum við handritsgerðina. „Hann var dálítið með mig í huga, að ég væri þessi karakter. Ég kom inn með vinkil sem ekki allir höfðu velt fyrir sér.“

Edda segir spurð um viðbrögð vina og ættingja við starfinu á OnlyFans að hún hafi verið mjög opin með vinnuna og rætt það víða, m.a við fjölmiðla. „Ég hef aldrei verið að fela neitt. Ég hef verið mjög opin með þetta. Allt mitt fólk veit af þessu og er búið að fylgja mér í þessu ferli.“

Einskonar Ást (2024)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8.4

Nútímasaga um fjórar ungar konur. Þær reyna að fóta sig í flóknum ástarsamböndum, en freistingar á borð við sykurpabba og OnlyFans flækja málin. Í leit sinni að bestu útgáfunum af sjálfum sér standa þær frammi fyrir valinu á milli glansmyndar og sannrar ástar....


En fannst henni sjálfri óþægilegt að vera á Only Fans eins og Kríu í myndinni?
„Nei, mér fannst það ekkert óþægilegt. Ég vissi hvað ég væri að fara út í og ákvað að vera ekkert að láta þetta verða erfitt. Ég stóð fast með mér og hugsaði að þeir sem dæma þeir dæmdu mig og hinir styddu mig.“

Á endanum segist Edda hafa hætt. „Ég hætti vegna þess að ég sagði við mig að ef mér liði ekki vel í þessari vinnu þá myndi ég hætta. Ég var komin á stað þar sem þetta var orðið of erfitt og flókið í tengslum við samböndin mín. Ég ákvað því að hætta og fara eitthvað annað.“

Með 1,4 milljónir á mánuði

Aðspurð segist Edda hafa verið ein af þremur vinsælustu Only Fans stjörnum landsins.
„Þegar mest lét var ég með 500 greiðandi áskrifendur sem hver borgaði 20 dollara á mánuði,“ segir Edda. Það þýðir að mánaðarlaun Eddu hafa verið um 1,4 milljónir íslenskra króna á mánuði.
„Það voru ekki slæmar mánaðartekjur,“ segir Edda og brosir.

Um það hvernig hún hreppti hlutverk í Einskonar ást segir Edda að Toni [Sigurður Anton Friðþjófsson leikstjóri og handritshöfundur] hafi haft samband. Hann hafi séð hana í mörgum viðtölum að tala um Only Fans. „Hann hafði samband og bað um fund og spurði svo hvort ég hefði áhuga á að leika í bíómynd. Ég hélt fyrst að þetta væri grín, en svo var ekki.“

Hún segir aðspurð að vissulega hafi starfið á Only Fans verið ákveðinn leikur líka. Því hafi ákveðin leikreynsla verið til staðar. „Þú ert alltaf þessi karakter, þetta var ekki ég í alvöru. Svo kem ég frá mikilli leikarafjölskyldu. Björgvin Freyr Gíslason er pabbi minn og Edda Björgvinsdóttir og Gísli Rúnar Jónsson eru amma mín og afi. Ég ólst því upp í kringum þau að leika.“

Upptökur gengu vel

Upptökur kvikmyndarinnar gengu vel að sögn Eddu en þeim lauk í lok sumars 2022. „Ég hafði samt aldrei á ævinni lagt heilt handrit á minnið, ég hugsaði að það gæti orðið snúið, að muna heilar senur. Ég gerði eiginlega ekkert annað í marga mánuði en að lesa handritið og á endanum gat ég næstum farið með það í svefni. Það var skemmtileg reynsla að hafa verið treyst fyrir einu af aðalhlutverkunum í þessari mynd. Ég skemmti mér konunglega.“

Hrifin af hrollvekjum

Edda segist vera mest hrifn af hrollvekjum þegar hún er innt eftir uppáhalds bíómyndum.
En myndi hún leika aftur ef það stæði til boða. „Já ekki spurning.“
Edda gerði meira en að leika í kvikmyndinni. „Ég samdi líka titillag myndarinnar, Einskonar ást, sem er núna hægt að hlusta á á Spotify.“

Spurð að því að lokum hvort hún muni mögulega aftur fara á Only Fans segist hún ekki eiga von á því.
„Það þarf að gerast eitthvað mikið ef ég geri það,“ segir Edda að lokum.