Roger Avary var handtekinn í gær fyrir manndráp og að keyra undir áhrifum. Margir kannast eflaust ekki við nafnið, en Roger var handritshöfundur af myndinni Pulp Fiction og hlaut Óskarsverðlaun 1995.
Greidd var 50 þúsund dollara trygging fyrir Roger í nótt og er hann því laus úr fangelsi eins og er. Farþegi í bílnum hans, Andreas Zedini 34 ára Ítali, lést af meiðslum sínum á spítala. Kona Rogers er enn á spítala og er talin í lífshættu.
Avary skrifaði Pulp Fiction með Quentin Tarantino eins og frægt er og er hvað þekktastur fyrir að hafa sagt ,,Ég þarf virkilega að pissa!“ í þakkarræðunni sinni á Óskarnum. Hvað framtak hans varðar í handritsgerðinni að Pulp Fiction er ljóst að vinátta Quentin og Rogers hrakaði eftir útgáfu myndarinnar, en orðrómurinn er sá að Roger hafi fundið uppá nokkrum atriðum en Quentin er óhræddur við að segja frá því að hann hafi einungis verið hjálparhella hans.
Síðasta verk Rogers var að hjálpa til við handritsgerð að myndinni Beowulf, sem við hjá kvikmyndir.is forsýndum í nóvember síðastliðnum í samvinnu við Sambíóin í tilefni af 10 ára afmæli heimasíðunnar.

