Leikstjórinn Sam Raimi er líklegur til þess að leikstýra kvikmyndinni 30 Nights. Verður hún byggð á samnefndri myndasögu, og gerist í smábæ einum í Alaska. Í heilan mánuð á hverju ári ríkir þar stöðug nótt, og þegar vampírurnar komast að því flykkjast þær þangað í unnvörpum. Raimi mun að minnsta kosti framleiða myndina, og hefur einnig lýst yfir sterkum áhuga á því að leikstýra henni. Höfundur myndasögunnar, Steven Niles, reyndi fyrir mörgum árum síðan að fá eitthvað kvikmyndaver til þess að kaupa af sér hugmyndina, en enginn hafði áhuga. Hann gafst því upp á því og ákvað að gera hana að myndasögu í staðinn. Nú er svo komið að bæði Dreamworks og MGM, ásamt fleirum, eru að berjast um réttinn. Boðið hefur verið yfir 1 milljón dollara fyrir réttinn, og á meðan er Niles glaður í bragði að skrifa handritið að Spawn 2 fyrir New Line Cinema.

