Kvikmyndaleikarinn og fyrrum vaxtarræktarmeistarinn Arnold Schwarzenegger hefur ákveðið að leggja sín þungu lóð á vogarskálar tímaritanna Muscle & Fitness og Flex og verða einn af ritstjórum blaðanna, að því er fréttaveitan E! News greinir frá.
Schwarzenegger varð sjálfur sex sinnum Hr. Olympía áður en hann flutti til Hollywood og sneri sér að kvikmyndaleik, og er því hokinn af reynslu úr vaxtarræktarbransanum.
„Það var í þessum tímaritum sem ég fann neistann til að byrja að lyfta lóðum, sem endaði með því að ég flutti til Bandaríkjanna og lét drauma mína rætast, og ég er stoltur af því að snúa aftur sem ritstjóri,“ sagði Schwarzenegger í yfirlýsingu.
„Vaxtarrækt hefur alltaf verið hluti af lífi mínu, og ég veit að Muscle & Fitness og Flex munum áfram hvetja aðra , eins og þau hvöttu mig, til að lyfta lóðum og lifa heilbrigðu lífi […].“
Schwarzenegger hefur prýtt forsíður tímaritanna tveggja 60 sinnum í gegnum árin.
Ásamt því að hjálpa til við stefnumótun fyrir blöðin og leggja til nýjar hugmyndir, þá mun Schwarzenegger verða pistlahöfundur, bæði í prent- og netútgáfu blaðanna.