Gamanþættirnir Arrested Development voru sýndir á sjónvarpsstöðinni Fox á árunum 2003-2006 og nutu mikilla vinsælda áhorfenda. Aðdáendur þáttanna voru því ekki parhrifnir þegar Fox ákvað að hætta framleiðslu á Arrested Development. Aðdáendur gagnrýndu hvernig Fox endaði seríuna og hafa alla tíð frá því heimtað nýja seríu.
Sex árum síðar var ennþá þrýstingur um að gera nýja seríu og varð vefsíðan Netflix var við þessum þrýstingi aðdáenda. Í fyrra stóðst Netflix ekki mátið og hóf að framleiða nýja seríu og fékk til sín alla þá sem tóku þátt í ævintýrinu á Fox. Nú styttist óðum í fjórðu seríuna og verður hún sýnd í næsta mánuði. Það þykir líklegt að fjórða og nýjasta serían verði einnig sú allra síðasta um þessa undarlegu fjölskyldu. Við eigum þó vonandi eftir að sjá meira af fjölskyldunni í framtíðinni því það er áhugi framleiðanda að gera kvikmynd í fullri lengd.
Alls verða fjórtán þættir í nýjustu seríunni og verða allir fjórtán þættirnir aðgengilegir á Netflix þann 26. maí næstkomandi. Því miður verðum við þó að bíta í það súra epli að Netflix hefur ekki hafið þjónustu við Ísland. Það þykir þó ólíklegt að aðdáendur þáttanna láti það stöðva sig við að bera nýjustu seríuna augum.
Netflix kynnti nýverið glæný plaköt fyrir fjórðu seríu Arrested Development. Plakötin skarta meðlimi Bluth fjölskyldunnar og eru öll með viðeigandi texta fyrir hverja persónu. Gestaleikarar munu einnig kíkja í heimsókn og má þar nefna Ben Stiller, Seth Rogen, Kristen Wiig, Conan O’Brien, Isla Fisher og John Slattery.