SkyNews vefsíðan segir frá því að Tom Cruise eigi í viðræðum um að leika gestahlutverk ( cameo ) í Star Wars: Episode VII, sem leikstýrt er af JJ Abrams.
Edge of Tomorrow leikarinn hefur verið í Lundúnaborg að undanförnu og er sagður hafa átt þar fundi með leikstjóranum og öðrum sem tengjast framleiðslu myndarinnar.
Myndin er í tökum sem stendur í Pinewood kvikmyndverinu í Buckinghamskíri í Bretlandi, og mun koma í bíó um jólin 2015.
Cruise og Abrams unnu saman að Mission: Impossible 5, sem einnig er væntanleg í bíó á næsta ári.
Dagblaðið The Sun segir að Cruise og Abrams hafi fundað á hóteli í London til að ræða aðkomu Cruise að myndinni.
Myndin varð fyrir áfalli á dögunum er Harrison Ford ( Hans Óli eða Han Solo ) fótbraut sig á tökustað og er ekki væntanlegur aftur fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum. Carrie Fisher ( Lea prinsessa ) og Mark Hamill ( Logi Geimgengill ) snúa aftur í þessari nýju Stjörnustríðsmynd ásamt nýliðum eins og Óskarsverðlaunaleikkonunni Lupita Nyong’o og Adam Driver.
Söguþráður myndarinnar er enn á huldu, en hún mun gerast 30 árum eftir lok myndarinnar Return of the Jedi.
Mönnum er enn í fersku minni þegar Cruise lék meistaralegt gesta/grínhlutverk í myndinni Tropic Thunder frá árinu 2008, en þar skrýddist hann fitubúningi í hlutverki kvikmyndaframleiðandans Les Grossman.