Upplifði annanheims-þunga

Leikstjórinn Ishana Night Shyamalan leikstýrir Dakota Fanning í nýja spennutryllinum The Watchers, eða Áhorfendurnir, í lauslegri íslenskri snörun, sem komin er í bíó hér á landi.

Kvikmyndin var tekin upp á Írlandi og rétt eins og hrollvekjuskáldsaga A.M. Shine, sem myndin er byggð á, sækir myndin áhrif í írskar þjóðsögur og töfrandi landslag eyjunnar grænu.

Eins og fram kemur á vefmiðlinum IGN.com segir myndin frá Minu, bandarískri stúlku sem býr í Galway. Bíll hennar bilar á leið í gegnum skóg á vesturhluta Írlands. Mina leitar skjóls ásamt þremur öðrum sem eru villtir í skóginum. Þegar sólin sest verða þau að halda sig innanhúss í einhverskonar byrgi, en annars munu dularfullar verur ráðast á þau, verur sem koma út úr skóginum á kvöldin. Verurnar skoða fólkið utanfrá í gegnum einstefnugler. Svo vitnað sé í vígorð myndarinnar, þá „geturðu ekki séð áhorfendurna, en þeir sjá allt.“

The Watchers (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn5.7
Rotten tomatoes einkunn 30%

Skógurinn finnst ekki á neinu korti. Allir bílar bila þar sem hann byrjar. Bíll Minu er þar engin undantekning. Nú þarf hún að fara inn í dimmt skóglendið og finnur þar konu sem kallar á hana og hvetur hana til að forða sér í steinsteypt byrgi. Þegar dyrnar skella á eftir henni ...

Bakgrunnur áhorfendanna og saga er eitthvað sem ekki verður farið í hér enda myndi það spilla myndinni fyrir þá sem eiga eftir að sjá hana, en leikstjórinn og Fanning reyndu eins og þær gátu í samtali við IGN að varpa ljósi á heim áhorfendanna og það hví Írland er svo mikilvægt sögusvið.

Hvað er það við Írland sem lætur landsmenn trúa á yfirnáttúrulega hluti?

Ishana Night Shyamalan: Ég veit ekki. Það hlýtur að eiga sér einhverja stoð í sögunni. En þegar ég var þarna sjálf upplifði ég einhvern annanheims-þunga. Tréin, hæðirnar, vatnið, fjöllin búa öll yfir andlegum krafti. Ég trúi því að goðsagnir fæðist út frá einhverju raunverulegu, og ég held að Írland sé staður þar sem það hefur verið til staðar í langan tíma. Það er enn þarna á meðal fólksins, sem mér finnst mjög svalt.”

Töfrandi og andleg

Dakota Fanning: Sko, ég held að Írar á Írlandi, eins og þú segir, hafi sterka tengingu við þjóðsögur og keltneskar goðsagnir og ævagömul ævintýri. Og mér finnst það dásamlegt. Og þú finnur það þegar þú ert á staðnum, og náttúran er fallegri en allt annað. Hún er töfrandi og andleg þar sem hún er fullkomin í fegurð sinni. Þannig að þú getur pottþétt upplifað hina ævafornum goðsögn mjög sterkt og sögurnar sem fólkið segir, lögin sem það syngur og hvernig það blandast við kráarmenninguna.

Ég er þakklát fyrir að myndin hafi verið tekin upp þarna því hún gerist á Írlandi og var skrifuð þar. Við tókum upp í Galway og í skógunum í Wicklow rétt utan Dyflinar og fengum ósvikna írska upplifun. Og stundum, þegar þú ert að taka upp í Cleveland [í Bandaríkjunum] til dæmis og þykjast vera annars staðar, eins og oft þarf að gera, er það allt öðvuvísi en að fara á staðinn þar sem sagan á að gerast. Það er alltaf mjög sérstakt.“

Ekki unnið úr áföllum

IGN: Dakota, geturðu rætt um sálarástand Minu og hvað hún lærir af þeirri hrollvekjandi reynslu sem hún gengur í gegnum?

Fanning: „Ég held að við kynnumst henni á tímapunkti þar sem hún er í raun á harðahlaupum frá fortíðinni. Hún hefur ekki unnið úr áföllum sem hún hefur lent í og sorginni sem hún hefur upplifað, og henni líður eins og eittvað sé brotið innra með henni. Hún veit í raun ekki hver hún er og hvert hún er að fara, og hefur einangrað sig út af því.

Ég held að það að lenda í þessum yfirnáttúrulegu hlutum í myndinni hjálpi henni í raun að standa andspænis því öllu saman, öllu sem hún hefur birgt inni í sér. Og það að geta fundið bata og fyrirgefið sjálfri sér er stór hluti sögunnar og að hleypa öðru fólki að sér aftur. Ég elska kvikmyndir eins og þessa sem tilheyra ákveðnum geira kvikmyndanna þar sem þú getur samt ofið inn mjög mannlega sögu.“

Dóttir föður síns

IGN spyr leikstjórann út í þá staðreynd að hún er dóttir hins þekkta hrollvekju/ráðgátuleikstjóra M. Night Shyamalan, sem er einmitt framleiðandi kvikmyndarinnar, og hvort það trufli hana að fólk líki þeim saman.

Shyamalan svarar á þá lund að hún hugsi einstaka sinnum um það, en segir að allar ákvarðanir sem hún tók hafi verið mjög eðlilegar um leið og hún tók þær. „Ég held að ég og pabbi höfum ólíka nálgun á tökurnar, þó að senurnar geti litið svipað út. Við löðumst að ólíkum litum og mynstri og þannig hlutum,“ segir hún að lokum við IGN.