2010 – Kvikmyndaárið framundan

Ég verð að segjast vera talsvert bjartsýnni fyrir þessu ári heldur en ég var í byrjun janúar í fyrra, en það er líka vegna þess að verkfall handritshöfunda (sem byrjaði 2007) bitnaði heilmikið á 2009 sem kvikmyndaári. Það leiddi til að haugur af myndum fór að færast til og fá og m.a.s. voru tvær af betri stórmyndum 2009 að mínu mati (Star Trek og Harry Potter) 2008-myndir sem höfðu verið færðar um marga mánuði.


Það eru eflaust flestir löngu búnir að ákveða hverjir eru heitustu titlar ársins, þannig að ég mun ekki skrifa neitt mikið um hverja mynd til að reyna að sannfæra ykkur um hvað þið ættuð að vera spennt fyrir. Það gætu hins vegar leynst tvær-þrjár myndir sem þið vissuð ekki af.


Hérna kemur afar langur listi yfir („high profile“) myndum sem koma út á þessu ári sem gætu orðið athyglisverðar (raðað eftir stafrófsröð). Ég reyni að vera hlutlaus á sumar, aðrar ekki.


THE A-TEAM (Leikstj. Joe Carnahan)

Ég er óvenju spenntur fyrir þessari mynd (og ég er enginn aðdáandi þáttanna). Ástæðan? Leikararnir. Við höfum hérna Liam Neeson, Bradley Cooper (sem var drullugóður í Þynnkunni) og Sharlto Copely í sínu fyrsta hlutverki síðan District 9, sem mér finnst bara lofa ansi góðu. Auk þess hef ég smá trú á Joe Carnahan. Hann er öflugur stílisti sem hann að búa til skemmtilegan hasar. Hann er akkúrat maðurinn til að sprauta smá adrenalíni í efni eins og þetta.

Frumsýnd á Íslandi: 11. júní (ath. frumsýningadagar geta alltaf breyst fyrirvaralaust!)


ALICE IN WONDERLAND (Leikstj. Tim Burton)

Ég er í raun pínu hissa yfir hversu langan tíma það tók fyrir einhvern súrasta leikstjóra sem starfar í dag að kvikmynda einhverja steiktustu „barnabók“ allra tíma. Trailerarnir lofa flottu útliti, eins og fylgir Burton-nafninu. Þá er bara að vona að sagan komist vel til skila, þ.e.a.s. í PG-forminu.

Frumsýnd: 12. mars


CLASH OF THE TITANS (Louis Letterier)

Greinilega meira í takt við 300 heldur en margt annað, en það virðist skila sér ágætlega. Trailerinn er nettur og leikarahlaðborðið er ekki af verri endanum. Að sjá Liam Neeson leika Zeus held ég að verði aðgangseyrisins virði eitt og sér. Einnig finnst mér ekkert að því að endurgera gömlu myndina. Hún eldist hræðilega þannig að ég mun taka bjartsýnislega á móti þessari.

Frumsýnd: 26. mars



DAYBREAKERS (Michael & Peter Spierig)

Ég held að þessi muni koma ótrúlega mörgum á óvart, sérstaklega þeim sem segjast hafa misst trú á vampírumyndum. Hugmyndin er klikkað skemmtileg, leikararnir góðir og stíllinn flottur. Þetta segir auðvitað ekkert um innihaldið en ég hef mikla trú á þessari mynd, þrátt fyrir að leikstjórarnir séu þeir sömu og gerðu ástralska kjánahrollinn Undead.
Frumsýnd: 5. febrúar



DESPICABLE ME (Pierre Coffin)

Sýnishornin hafa ekki sagt frá miklu en mér finnst þau samt nokkuð skemmtileg. Hugmyndin virðist alveg jafna frumleikann sem maður hefur séð frá Pixar og svo Cloudy with a Chance of Meatballs, sem kemur í mánuðinum. Despicable Me lítur út fyrir að vera fyndin og öðruvísi teiknimynd sem allir aldurshópar gætu fílað.

Frumsýnd: október



EDGE OF DARKNESS (Martin Campbell)  

Mel Gibson er mættur aftur fyrir framan myndavélina í fyrsta sinn síðan Signs… og hann er reiður. Edge of Darkness er hefndarþriller leikstýrður af Martin Campbell, sem er líklega þekktastur fyrir Goldeneye og Casino Royale.

Frumsýnd: 5. febrúar



THE EXPENDABLES (Sylvester Stallone)

Stemmningarmynd ársins nr. 2! og frumsýnd rétt áður en sumarið byrjar. Stallone sagði að þessi mynd verði einn risastór óður til 80s hasarmynda þar sem testósterónið flæðir út um allt og handritið mun innihalda fleiri one-linera heldur en samtöl. Ég held að það búist enginn við góðri mynd sem mun senda áhorfendur sína burt með einhver átakanleg skilaboð. The Expendables er víst bara 120% strákamynd og kærustur út um allt land gætu þurft að bíða í það súra. Engar áhyggjur samt, þið hefnið ykkar með því að kippa drengjunum með á Sex and the City 2 eða The Twilight Saga: Eclipse.

Frumsýnd: 23. apríl



FROM PARIS WITH LOVE (Pierre Morel)

Það eina sem ég þurfti að heyra hérna var „From the director of Taken“ og þá var ég strax orðinn nokkuð spenntur. Morel gerði einnig bandbrjálaða en stórskemmtilega mynd sem heitir District 13, þannig að ég hlakka til að sjá hvað hann lætur John Travolta gera. Bara það að sjá hann haldandi á bazooku út um bílrúðu er nóg til að ég muni fyrirgefa honum fyrir Old Dogs hörmungina. Vonandi stemmningarmynd ársins nr. 4.

Frumsýnd: 5. mars



THE GREEN HORNET (Michel Gondry)

Venjulega myndi ég reikna með því að þessi fari í sömu hrúgu og I Spy, Land of the Lost, Bewitched og fleiri myndir sem byggðar voru á gömlum sjónvarpsþáttum. Hins vegar er ég merkilega bjartsýnn á Seth Rogen hérna. Auk þess fer Chrstoph Waltz með hlutverk illmennisins og leikstjóravalið er vægast sagt undarlegt. Sjáum til.

Frumsýnd: desember



HARRY POTTER AND THE DEATHLY HALLOWS: PART I (David Yates)

Þessi þarf á engri kynningu að halda. Potter-fíklar hafa eflaust aldrei verið spenntari á meðan þeir sem hata fyrirbærið eru að bíða eftir að Part II komi og fari svo þeir geti afneitað tilvists þess sem fyrst. Persónulega er ég forvitinn að sjá hvernig fyrri hluti síðustu bókarinnar muni virka sem sér bíómynd, þar sem hún er mestmegnis bara „teaser“ fyrir það sem koma skal í seinni hlutanum, en þá verður allt BRJÁLAÐ. Hasarmagnið – skv. bókunum – hefur aldrei verið meira og sama má segja um átökin og dauðsföllin. En… meira um það á næsta ári. Part I verður að duga okkur í bili.

Frumsýnd: 19. nóvember



IRON MAN 2 (Jon Favreau)

Yfirleitt eru ofurhetju-framhaldsmyndirnar betri (nema þegar um mynd nr. 3 er að ræða) og ég vona að þessi sýni fram á það að nr. 1 hafi aðeins verið upphitun og núna er komið að því að leyfa Jon Favreau að leika sér á fullu. Robert Downey Jr. klikkar heldur aldrei og ég hlakka til að sjá Mickey Rourke, Sam Rockwell, Scarlett Johansson og Don Cheatle spreyta sig með honum. Eðalfjör, vonandi.


Frumsýnd: 30. apríl


KICK-ASS (Matthew Vaughn)

Stemmningarmynd ársins nr. 3! Kick-Ass hefur þegar verið forsýnd úti í Bandaríkjunum og viðtökurnar hafa almennt verið frábærar. Þessi ofursteikta hetjumynd er sögð innihalda tryllt magn af blóði og skemmtilegan svartan húmor. Aðdáendur myndasagnanna vita alveg hverju skal búast við, og ég held að þessi gæti óvænt slegið svakalega í gegn.

Frumsýnd á Íslandi: 16. apríl (gæti breyst)



INCEPTION (Christopher Nolan)

Ef einhver myndi segjast ætla aðeins að fara einu sinni í bíó á þessu ári, þá myndi ég segja honum að bíða til sumars og taka sénsinn á þessari. Nolan hefur auðvitað haldið svo góðu striki að það er tímaspursmál hvenær hann stígur sitt feilspor, en ég held að það muni ekki gerast hér. Leikaraúrvalið er virkilega flott (Leo DiCaprio, Michael Caine, Joseph Gordon-Levitt, Cillian Murphy, Marion Cotillard, Ken Watanabe o.fl.) og forvitnin á bakvið söguþráðinn er alveg að fara með mann. Ég vona að Warner nái að halda öllu leyndu þangað til hún kemur út.

Frumsýnd: 16. júlí



MACHETE (Robert Rodriguez, Ethan Maniquis)

Stemmningarmynd ársins nr. 1! Það þarf ekki að segja meira. Ef þið viljið vita af hverju svona margir eru spenntir fyrir þessari mynd, horfið þá á gervi-trailerinn og ímyndið ykkur síðan ennþá stærri og brjálaðari mynd með Robert De Niro, Steven Seagal (?), Lindsay Lohan (??) og Michelle Rodriguez ásamt mörgum öðrum í aukahlutverkum. 

Frumsýnd: Ekki vitað (16. apríl í BNA)



PREDATORS (Nimród Antal)

Stemmningarmynd ársins nr. 4! Eða það ætla ég rétt að vona. Robert Rodriguez framleiðir og hefur hann lofað miklu blóði og ofbeldi. Eitthvað sem við fengum ekki í fyrstu Alien vs. Predator myndinni. Danny Trejo, Laurence Fishburne, Adrien Brody og Topher Grace fara með helstu hlutverk.

Frumsýnd: júlí



THE PRINCE OF PERSIA: THE SANDS OF TIME (Mike Newell)

Sami leikstjóri og færði okkur Donnie Brasco og Harry Potter 4 (sem mér fannst vera frekar vanmetin). Hérna fara þau Jake Gyllenhaal, Gemma Arterton og Ben Kingsley með aðalhlutverkin. Hann Gísli Örn Garðars er líka í einu hlutverkinu og þið getið séð glitta í hann í trailernum.

Frumsýnd: 28. maí



ROBIN HOOD (Ridley Scott)

Er ég einn um það að Russell Crowe gæti verið fullgamall í titilhlutverkið?? En burtséð frá því hefur Scott heillengi talað um að að gera þessa mynd og þegar honum er annt um ákveðið verkefni, þá oftar en ekki gefur það frá sér góða mynd. í versta falli vona ég að þetta verði betra en þættirnir á Skjá Einum.



SCOTT PILGRIM VS. THE WORLD (Edgar Wright)

Þessi leikstjóri virðist einungis lofa góðu og þó svo að ég sé enginn Michael Cera-aðdáandi, þá hef ég trú á hráefninu. Scott Pilgrim er byggð á vinsælli (og víst snargeðveikri) myndasöguseríu.

Frumsýnd: Ekki vitað



SHUTTER ISLAND (Martin Scorsese)

Þriller frá einhverjum reyndasta og virtasta leikstjóra sem finnst á lífi í dag. Erfitt að vera ekki smá spenntur. Leikaraúrvalið er heldur ekki amalegt.

Frumsýnd: 12. febrúar



– THE SOCIAL NETWORK (David Fincher)

Frá leikstjóra Se7en og Fight Club kemur svokallaða „Facebook-myndin.“ Hugmyndin hljómar ekkert spes og það er erfitt að ímynda sér áhugaverða mynd (sérstaklega drama) sem fjallar um hvernig Facebook komst af stað og varð til. Ég verð samt að halda því fram að Fincher viti hvað hann er að koma sér út í.

Frumsýnd: Ekki vitað (Október í BNA)


TOY STORY 3 (Lee Unkrich)

Segir sig sjálft, fyrstu myndirnar voru frábærar og Pixar hefur aðeins einu sinni ollið mér vonbrigðum, af þeim 10 myndum sem þeir hafa gert.

Frumsýnd: 6. ágúst



VALENTINE´S DAY (Garry Marshall)

Garry Marshall, sem nánast endurmótaði rómantíska gamanmyndageirann, kemur hér með tröllvaxna rómantíska gamanmynd (ímyndið ykkur Love Actually, nema skiptið jólunum út fyrir Valentínusardag) þar sem heilan herfjölda af frægum leikurum er að finna. Ég efa ekki að mestmegnið af framleiðslufénu hafi farið í launin þeirra.

Frumsýnd: 19. febrúar



FLEIRI MYNDIR SEM GÆTU LOFAÐ GÓÐU:


BOOK OF ELI (Hughes-bræður) – 29. janúar

CEMETARY JUNCTION (Ricky Gervais) – apríl (gæti breyst)

GREEN ZONE (Paul Greengrass) – 12. mars

HOW TO TRAIN YOUR DRAGON (Chris Sanders) – 2. apríl

JONAH HEX (Jimmy Hayward) – júní

THE LAST AIRBENDER (M. Night Shyamalan) –  13. ágúst

LEGION (Scott Stewart) – 2. apríl

TRON: LEGACY (Joseph Kosinski) – 17. desember

WALL STREET 2: MONEY NEVER SLEEPS (Oliver Stone) – apríl

WOLFMAN (Joe Johnston) – febrúar



Síðan…


2009-MYNDIR (sem gefnar verða út á þessu ári) SEM VERT ER AÐ TÉKKA Á:

AN EDUCATION (Lone Sherfig) – Ekki vitað

BROTHERS (Jim Sheridan) – 12. febrúar

CLOUDY WITH A CHANCE OF MEATBALLS (Chris Miller, Phil Lord) – 22. janúar

HARRY BROWN (Daniel Barber) – 29. janúar

THE ROAD (John Hillcoat) – 8. janúar

SHERLOCK HOLMES (Guy Ritchie) – 15. janúar

UP IN THE AIR (Jason Reitman) – 5. febrúar



Svo að lokum:


SEX MJÖG ATHYGLISVERÐAR 2009-MYNDIR SEM FARA LÍKLEGA BEINT Á DVD:


(500) DAYS OF SUMMER (Marc Webb)

BLACK DYNAMITE (Scott Sanders)

IN THE LOOP (Armando Iannucci)

MOON (Duncan Jones)

SIN NOMBRE (Cary Fukunaga)

WORLDS GREATEST DAD (Bobcat Goldthwait)



PS. Það má alveg vel vera að ég sé að gleyma HELLING (t.d. mörgum litlum myndum), en þá er það bara í ykkar höndum að kommenta á hvað meira lúkkar vel á þessu ári.