Sjálfur Logi Geimgengill, eða öllu heldur Mark Hamill sem lék Loga í Stjörnustríðsmyndunum, hefur ákveðið að setjast í leikstjórastólinn og leikstýra myndinni „Black Pearl“, sem er ódýr hasarmynd sem byggð er á teiknimyndasögu Hamills sjálfs um grímuklædda hetju.
„Þetta er pínu ógnvekjandi“ sagði Hamill, 58 ára, en hann hefur áður leikstýrt mynd sem fór beint á vídeó. Þetta verður því fyrsta mynd í leikstjórn hans sem fer beint á stóra tjaldið. „Ég sveiflast á milli þess að vera mjög sjálfsöruggur, í það að spyrja mig hvað ég er eiginlega kominn út í.“
„Black Pearl“ er ein af þremur myndum sem verða fyrstu verkefni Berkeley Square Films, sem er framleiðslufyrirtæki sem Hamill er stjórnarmaður í.
Hamill ræddi þetta nýja verkefni á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem nú stendur yfir. Hann var þar ásamt frænda sínum og meðhöfundi að teiknimyndasögunni sem myndin byggir á, Eric Johnson, og félaga sínum í Berkeley Square Paul Tamasy, en Eric og Paul skrifuðu kvikmyndahandritið ásamt Hamill.
Hamill og Johnson skrifuðu „Black Pearl“ upphaflega sem kvikmyndahandrit, en Dark Horse Comics fékk áhuga á sögunni og bað þá um að breyta henni í teiknimyndasögu.
Sagan segir frá venjulegum manni sem kallast Luther Drake, sem bjargar konu frá ræningjum, og í kjölfarið leiðist hann inn í að verða ofurhetja sem berst fyrir réttlæti.
Johnson sagði að búið væri að úthugsa nokkra mögulega leikara til að leika Luther, en enginn hefði verið ráðinn enn. Búist er við að hefja tökur seinna á þessu ári.
Hamill segist ekki ætla að leika sjálfur í myndinni.
Hamill hefur verið aðdáandi teiknimyndasagna frá því hann var strákur, og hefur talað inn á margar teiknimyndir fyrir ofurhetjur.


