Nýr trailer hefur verið birtur úr nýrri Resident Evil mynd, Resident Evil: Afterlife. Myndin verður frumsýnd í þrívídd, gamaldags tvívídd og í IMAX 3D risabíóum, þann 10. september nk. í Bandaríkjunum.
Myndinni er leikstýrt af Paul W.S.Anderson og í aðalhlutverki er sem fyrr Milla Jovovich ásamt þeim Ali Larter, Kim Coates, Shawn Roberts, Sergio Peris-Mencheta, Spencer Locke, Boris Kodjoe, Wentworth Miller og Sienna Guillory.
Í myndinni heldur Alice ( Jojovich ) áfram leit sinni að eftirlifendum og kemur þeim í örugga höfn. Barátta hennar við regnhlífarfyrirtækið, eða the Umbrella Corporation, nær nýjum hæðum, en Alice fær óvænta hjálp frá gömlum vini. Nýjar upplýsingar sem gefa þeim von um skjól fyrir uppvakningunum leiða þau til Los Angeles. Þegar þau koma til borgarinnar komast þau að því sér til mikillar skelfingar að borgin hefur verið tekin yfir af þúsundum uppvakninga – og Alice og hennar fólk eru um það bil að ganga í stórhættulega gildru.