Í Hong Kong eru nú síðar í mánuðinum að hefjast tökur á nýrri kvikmynd um ævi Kung Fu bardagalistamannsins Bruce Lee, en myndin er gerð í tilefni af því að Lee hefði orðið 70 ára á þessu ári. Myndin á að heita “Bruce Lee, My Brother” og mun fjalla um unglingsár Lee í Hong Kong, þar sem hann æfði sig í kung fu listinni, og vann við kvikmyndaleik. Myndin endar svo á því þegar Lee yfirgefur Hong Kong og fer til Bandaríkjanna árið 1959, þá 18 ára gamall.
Ný kvikmynastjarna frá Hong Kong, Aarif Lee, alls óskyld Bruce Lee, mun leika hetjuna. Frægðarsól Aarif Lee skaust upp á himinhvolfið fyrr á þessu ári þegar hann lék í hinni rómuðu mynd “Echoes of the Rainbow”, sem fjallaði um fjölskyldu sem reynir að láta enda ná saman í Hong Kong á sjöunda áratugnum. Myndin fékk fjögur verðlaun á Eddu þeirra Hong Kongverja, Hong Kong Film Awards, í apríl sl. Þar á meðal fékk Lee verðlaun sem besti nýliðinn.
Frumsýnd á afmælisdaginn
“Bruce Lee, My Brother” er meðframleidd af Media Asia og Chinese partners í Hong Kong. Myndin verður frumsýnd í Hong Kong, Kína og á öðrum mörkuðum í Asíu þann 27. Nóvember, sem er einmitt afmælisdagur Bruce Lee. Enn er óvíst hvort myndin verður sýnd í Bandaríkjunum, hvað þá heldur í Evrópu.
Vaxandi áhugi er nú á arfleifð Bruce Lee, sem lést þegar hann var aðeins 32 ára að aldri árið 1973. Til dæmis var hann heiðraður sérstaklega á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Hong Kong í mars, en þá mættu á svæðið meðal annarra ekkja leikarans og dóttir.
Media Asia er stórt framleiðslufyrirtæki í Hong Kong, og er með á afrekalista sínum fjöldann allan af metsölumyndum þar á meðal “Infernal Affairs” , þríleik sem var síðar endurgerð í Bandaríkjunum undir nafninu “The Departed” og leikstýrt af sjálfum Martin Scorsese.
Hér að neðan eru þrjár frægar senur úr einni af myndum Bruce Lee; Enter the Dragon: