Þrívíddarteiknimyndin Despicable Me þar sem gamanleikarinn Steve Carell talar fyrir aðalpersónuna, klaufalegan glæpamann, renndi sér beint á topp aðsóknarlistans í Bandaríkjunum um helgina. Myndin þénaði 60,1 milljón Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og Kanada á þremur dögum, að sögn Universal Pictures sem framleiðir myndina. Innkoman er umfram væntingar því menn höfðu vonast eftir 30-35 milljónum dala fyrir sama tímabil.
Universal fjármagnaði og dreifði myndinni sem kostaði aðeins 69 milljónir dala í framleiðslu, sem telst lítið fyrir svona mynd. Myndin er sú fyrsta úr smiðju fyrrum liðsmanns 20th Century Fox, Chris Melandri, og nýs fyrirtækis hans Illumination entertainment.
Eins og raunin hefur orðið með myndir eins og Shrek og Toy Story, þá er líklegt að góðar viðtökur við myndinni, bæði hjá gagnrýnendum og áhorfendum, kalli á framhaldsmyndir.
„Þetta á eftir að verða frábært framhaldsmyndaefni fyrir Universal og Illumination“ sagði Nikki Rocco, yfirmaður dreifingar hjá Universal.
Carell, sem er best þekktur úr gamanþáttunum The Office, talar í myndinni fyrir Gru sem áætlar að stela tunglinu, en áætlanirnar raskast þegar til sögunnar koma þrjár munaðarlausar stúlkur sem vilja að hann taki þær að sér og gangi þeim í föðurstað.
Skoðaðu trailerinn hér.