Hafinn er undirbúningur að tökum á nýjum sjónvarpsþáttaseríum sem eiga að heita „Luck“, og gerast í heimi veðhlaupahesta. Meðal leikenda eru margir stórleikarar bandarískir, en aðalhlutverkið verður í höndum Óskarsverðlaunaleikarans Dustins Hoffmans. Ofurleikstjórinn Michael Mann leikstýrir fyrsta prufuþættinum, og David Milch skrifar handrit, en hann er þekktur fyrir vinnu sína við þættina Deadwood.
Luck á að fjalla um veröld veðhlaupahestaheimsins, og draga upp sláandi mynd af þeim heimi, þar sem knapar, fjárhættuspilarar, hesteigendur, og fleiri leika lykilhlutverk.
Þættirnir eru framleiddir af HBO kapalsjónvarpsstöðinni.
Framleiðsla hefst í haust í Santa Anita Park, sem er veðhlaupabraut í Arcadia í Kaliforníu, ásamt fleiri stöðum í grenndinni.
Meðal annarra leikara í þáttaröðinni eru gamli refurinn Dennis Farina, John Ortiz, Kevin Dunn, Richard Kind, Jason Gedrick, Ritchie Coster, Ian Hart, Tom Payne, Kerry Condon, Gary Stevens og Nick Nolte.

