Christopher McQuarrie, handritshöfundur hinnar rómuðu The Usual Suspects, sem hann fékk Óskarsverðlaun fyrir, gæti verið á leið í leikstjórastólinn á ný í fyrsta sinn síðan hann þreytti frumraun sína á þeim vettvangi árið 2000 í myndinni The Way of the Gun.
McQuearrie hefur nú verið ráðinn í að endurbæta Paramount spennumyndina One Shot, með hugsanlega leikstjórn í huga í framhaldinu. Myndin er byggð á bókaseríu sem skrifuð er af Lee Child, sem fjallar um Jack Reacher, herlögreglumann sem hættir og fer að vinna sjálfstætt.
One Shot er níunda bókin í seríunni og segir af leyniskyttu úr hernum sem sökuð er um morð, og leitar eftir hjálp frá Reacher.
McQuarrie hefur nokkrum sinnum reynt að finna leikstjórnarverkefni til að fylgja frumrauninni eftir, og var næstum búinn að landa The Stanford Prison Experiment, sem átti að hafa þá Paul Dano og Jesse Eisenberg í aðalhlutverkum, en fjármögnunin klikkaði.
McQuarrie skrifaði ásamt öðrum handritið að Valkyrie með Tom Cruise, en sú mynd þénaði 200 milljónir Bandaríkjadala um allan heim. Hann skrifaði einnig ásamt öðrum handritið að spennumyndinni The Tourist, með þeim Johnny Depp og Angelinu Jolie, sem frumsýnd verður brátt.

