Eftir þrjá góða tíma í röð með öllum hinum nörðunum, sem höfðu mestan áhuga á hvort Íslendingar ætu í alvöru hákarl sem hefur verið grafinn í jörðu og hvort „that volcano“ væri hætt að trufla þá, komst ég loksins loksins inn í Hall H, stóra kvikmynda-panel salinn. Var það þess virði að standa úti, niðri við sjóinn í lengstu röð aldarinnar. Já, ég held það barasta!
Fyrst af öllu var ekki verra að sjá ljósið í lífi mínu sem unglingur, Angelinu Jolie, sitja fyrir svörum um nýjustu mynd sína, Salt, sem frumsýnd verður um miðnæturbil hér í Bandaríkjunum. Þá var ekki leiðinlegt að sjá brot og stiklu úr myndinni Battle: Los Angeles, sem kemur út 2011. Ég verð að segja að sú mynd lítur mun betur út en ég þorði að vona. Myndin fjallar um innrás geimvera víðs vegar um heim, en þær ætla sér að taka yfir jörðina (heyrt það áður?). Myndin er sögð frá sjónarhorni hermannanna sem fá þær skipanir að stúta þeim við lendingu. Þannig minnir Battle: Los Angeles á myndir líkt og Black Hawk Down. Geimverurnar eru ólíkar þeim sem áður hafa sést, eru hvorki skrímsli sem slík né einhverskonar skordýr en eru að sjálfsögðu sjúklega harðar af sér og tilbúnar til að stúta mannkyninu. Hljómar ekki vel, ég veit, en lítur vel út engu að síður. Leikararnir spilla ekki fyrir: Aaron Eckhart og Michelle Rodriguez sátu fyrir svörum ásamt leikstjóra myndarinnar, Jonathan Liebesman.
Næst voru harðjaxlarnir í RED, Karl Urban, Helen Mirren, Bruce Willis og Mary-Louise Barker ásamt hetju grafískra mynda, Warren Ellis og fleiri aðstandendum myndarinnar. Það er greinilega á ferðinni gamansöm hasarmynd um CIA fulltrúa á eftirlaunum sem vita of mikið. Bruce Willis sagði myndina hafa verið eins og frímínútur í vinnslu. „Maður leitar að einhverju öðruvísi, annarskonar rullu sem mun henda seinustu úr veginum. Svo er ég mikill aðdáandi þessarra leikara og ég var pínu smeik að vinna með þeim. Svo er ekki verra að fá annarskonar aðdáendahóp, ég meina ég efast um að fólkið sem sér þessa mynd sé fólk sem fer á mynd um Tolstoy,“ sagði Helen Mirren þegar hún var spurð hvers vegna hún sló til. „Maður á mann gegn Bruce. Ég hef eki skemmt mér svona mikið um árabil,“ var svar Carls Urban við sömu spurningu. „Það er ekki á hverjum degi sem maður fær að henda risastórum sjtörnum á húsgögn.“
Warren Ellis var með sýnar ástæður á hreinu: „Þeir gáfu okkur fullt af pening. Ég gæti keypt flest ykkar núna. Mín rulla var bara að halda mér í burtu og leyfa þeim að gera sína vinnu.“ Og hann virtist vera sáttur við þá vinnu, þannig að það má búast við hörkumynd.
Næst sátu Josh Whedon og J.J. Abrahms fyrir svörum um allt mögulegt og er ómögulegt að reyna að hafa eftir snilld þeirra hér. Það kom þó fram að Whedon mun leikstýra The Avengers og J.J. vinnur nú að myndinni Super 8 með Steven Spielberg. Þá er hann einnig að þróa efni með Warren Ellis. Spennandi!
Skemmtilegasti panell dagsins var þó án efa The Expendables en Terry Crews, Steve Austin, Dolph Lundgren, Randy Couture, Silvester Stallone og Bruce Willis létu sig ekki vanta. Myndefnið úr myndinni er með því mest „brútal“ sem sést hefur lengi og ég er ekki frá því að Terry Crews hafi sagt það best: „Þetta er karlmannlegasta mynd sem hefur nokkurntíma verið gerð.“ Til að kóróna atburðinn veittu Guinness World Records Stallone og Lundgren viðurkenningu fyrir vinsælustu íþróttamyndir allra tíma: Rocky.
Rúsínan í pylsuendanum var kynning á Scott Pilgrim, líklega þeirri mynd sem áhorfendur í salnum sýndu mestan áhuga af þeim sem voru kynntar í dag, fyrir utan að sjálfsögðu hina goðsagnakenndu Tron. Sýnd voru nokkur brot úr myndinni og fengu þónokkrir heppnir að elta leikstjórann, Edgar Wright niður götuna og sjá myndina í heild sinni við lok kynningarinnar, en hana sátu 13 leikarar, þar á meðal Keiran Culkin og Jason Schwartsman. Þá hoppuðu Simon Pegg og Nick Frost á sviðið, einungis til að labba út af því aftur niðurlútir yfir brottvísun leikstjórans. Toppurinn var þó óneitanlega framkoma Michael Cera í Captain America búningi. Cera reyndi víst að fá hlutverk kapteinsins en komt aðeins í 500 manna hópinn. Spurður hvort hann væri nokkuð hræddur um að verða „type-cast“ svaraði hann: „mjög mikið, já.“ Forsýningar fyrir almenning á Scott Pilgrim byrja á morgun og vonumst við til að geta fært ykkur dóm götunnar fljótlega.
-Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

