Við höfum fylgst náið með indversku Bollywood gamanmyndinni Tera Bin Laden ( Án þín Laden ) hér á síðunni, sem fjallar um fréttamann sem gerir plat myndband með Osama Bin Laden og notar leikara sem er mjög líkur Al kaída foringjanum. Nýjustu fregnir herma að myndin er ein vinsælasta mynd ársins í Indlandi og verður tekin til sýninga í Bandaríkjunum innan skamms.
Myndin hefur þénað meira en 2 milljónir Bandaríkjadala í Indlandi, þó að leikstjórinn sé nýgræðingur og myndin hafi aðeins verið sýnd í 344 bíóum þar í landi, sem þykir greinilega lítið!
Myndin segir frá ungum blaðamanni frá Pakistan ( myndin hefur verið bönnuð í Pakistan ) sem reynir ítrekað að fá landvistarleyfi í Bandaríkjunum, þar sem hann vill fá að vinna sem fréttamaður, en án árangurs. Hann ákveður því að búa til plat vídeó með Osama Bin Laden til að selja fréttastöðvum í Bandaríkjunum, og komast þannig á kortið hjá fréttastöðvunum, en afleiðingarnar reynast aðrar en hann vonaðist eftir.
Ein stærsta poppstjarna Pakistans, Ali Zafar, leikur aðalhlutverkið í myndinni, en þetta er í fyrsta skipti sem Bollywood mynd er með pakistanskan leikara í aðalhlutverki.
Myndin hefur verið sýnd til reynslu í nokkrum löndum utan Indlands, en mun bráðlega og í kjölfarið hefja innreið sína á Bandaríkjamarkað.

