Tölvuleikjahasar á miðnætti í kvöld!

Á miðnætti í kvöld verðum við með fyrstu og með öllum líkindum einu forsýningu landsins á Scott Pilgrim vs. The World. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með þeirri brjáluðu kynningu sem við höfum verið með á þessari mynd þá er þetta nýjasta myndin eftir breska húmoristann Edgar Wright, sem færði okkur m.a. Spaced-þættina, Shaun of the Dead og Hot Fuzz. Myndin er byggð á myndasöguseríu sem þykir vægast sagt steikt.

Myndin hefur fengið fínustu meðmæli að utan (þið getið séð nokkur kvót hér) en burtséð frá því hvað mönnum finnst um hana þá eru flestir sammála því að hér sé um einhverja frumlegustu, sýrðustu og óvenjulegustu gamanmynd seinustu ára, enda er myndin sérsniðin handa þeim sem fíla tölvuleiki og myndasögur. Hún er næstum því eitt stórt ástabréf við nörda, ef svo má orða það.

Forsýningagestum er bent á að mæta tímanlega þar sem við viljum helst byrja sýninguna á slaginu. Við verðum ekki með neina leiki á undan sýningunni sjálfri í salnum, heldur í staðinn verður mönnum einungis afhent bíómiða á staðnum og þeir sem fá í hendurnar miða sem eru spes merktir fá varning. Í boði eru húfur, bolir og plaköt. Svo er einn sparimiði gefinn út, og sá sem fær hann tekur heim með sér allt Scott Pilgrim bókasafnið!

Eins og ég hef áður sagt þá tókum við frá hátt í 100 miða til að selja við dyrnar á undan sýningu. Þú getur semsagt mætt klukkutíma eða 45 mínútum fyrr og átt séns á miða. Reynslan hefur líka kennt okkur að langflestir kaupa stuttu fyrir sýningu í stað þess að plana fram í tímann. Það ætti annars að vera eitthvað eftir af miðum hér.

Ég minni svo á það að sýningin verður hlélaus. Annars segi ég bara góða skemmtun!! Get ekki beðið eftir að sjá hvernig ræman leggst í fólk.

T.V.