Verður Gemma nýr geimverubani

Stórmyndaleikstjórinn Ridley Scott virðist vera kominn á fullt við undirbúning að nýjum Alien myndum sem eiga að gerast á undan fyrri myndunum þremur sem voru með Sigourney Weaver í aðalhlutverkinu. Í viðtali við leikkonuna Gemma Arterton í breska dagblaðinu The Sunday Times, í tilefni af nýrri mynd hennar Tamara Drewe í leikstjórn Stephen Frears, segir Gemma að hún myndi eiga fund á næstunni með Ridley Scott um að hugsanlegan leik í Alien.
Að sögn hreifst Scott svo af Arterton í mynd J. Blakeson, The Disappearance of Alice Creed að hann vildi hitta hana fyrir aðalhlutverkið í geimverutryllinum.
Eins og menn muna þá skaut fyrsta Alien myndin Sigourney Weaver á stjörnuhimininn, og því ætti þessi mynd að geta gert það sama fyrir Gemmu, ef af þessu verður.
Annað sem er að frétta af Arterton er að hún er orðuð við The Keys to the Street, sem gera á eftir sakamálasögu Ruth Rendell.

Stikk: